Helgarplönin

Fimmtudagur og ekki seinna vænna að byrja að plana helgina. Um síðustu helgi fórum við í bíltúr upp í Hvalfjörð og stoppuðum við Hvalfjarðareyri. Þar er frábært að stoppa og ganga út að vitanum, skoða krabba, tína steina og vonast jafnvel til að sjá eins og einn Baggalút.

Við eyddum góðri stund á eyrinni og héldum svo áfram för okkar inn fjörðin. Hvalfjörðurinn er stundum svolítið gleymdur en þar eru fullt af fallegum perlum sem vert er að skoða. Í þetta sinnið stefndum við að sundlauginni á Hlöðum. Fyrirtakssundlaug sem er í sama húsi og Hernámssetrið. Þangað væri gaman að koma í næstu fjölskylduferð, kíkja á safnið og fá sér vöfflu á kaffihúsinu.

Mælum með Hvalfirðinum fyrir helgarrúntinn 🙂

Náttúran bíður…

Fyrir ekki svo mörgum árum var ég haldin þeirri ranghugmynd að ekkert væri hægt að gera á Íslandi. Að það hlyti að vera betra alls staðar annars staðar í heiminum. Sem betur fer læknaðist ég af þessum kvilla og kann heldur betur að meta landið mitt og það sem það hefur að bjóða. Það getur verið að þessi hugarfarsbreyting hafi komið til með aldrinum og því að ég leita meira í öðruvísi afþreyingu en ég gerði áður.

En það getur líka verið að þetta sé einmitt bara það; hugarfarsbreyting. Að taka meðvitaða ákvörðun að vera ánægður þar sem maður er…að blómstra þar sem manni var stungið niður. Að vera ánægð með það sem þú átt í stað þess að langa alltaf í eitthvað annað. Þar gæti nefnilega hin sanna hamingja leynst.

Nú er vetrarfríi grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu að ljúka og eflaust margir sem hafa nýtt tímann í samveru með fjölskyldunni. Og þá reynir á þetta, þ.e. hvað er hægt að gera? Það er nefnilega heilmikið og það þarf ekki að alltaf að vera kostaðarsöm afþreying.

Eitt af því sem við elskum að gera er að fara í dagsferðir og erum svo heppinn að yngri unglingurinn nennir ennþá að koma með. Stundum förum við bara þrjú….plús hundurinn auðvitað 😉 Stundum koma aðrir úr stórfjölskyldunni með. Þá er hægt að hafa með sér nesti og borða úti ef veðrið er gott. Nú eða setjast inn á kaffihús eða veitingastaði.

Í nágrenni höfuðborgarinnar eru nefnilega skemmtilegir staðir til að heimsækja. Við höfum t.d. verið dugleg að fara í Hveragerði, borða á Skyrgerðinni eða grípa okkur eitthvað frá Almari bakara og snæða úti í náttúrinni. Gaman er að rölta um bæinn eða skella sér í sund. Svo er líka hægt að keyra niður að sjó og fara í fjöruna við Eyrarbakka. Svæðið á milli Eyrarbakka og Þorlákshafnar er mjög skemmtilegt.

Einn af okkar uppáhaldsstöðum til að stoppa á er svo Knarrarósviti sem er fyrir utan Stokkseyri. Þar er gaman að rölta um og kíkja niðri í fjöru. Einnig býður Reykjanesið upp á óteljandi skemmtilega staði til að skoða: Kleifarvatnið er perla út af fyrir sig. Og tilvalið er að fara að í vita-skoðunarferð og taka hringinn um Reykjanesið. Svæði í kringum Reykjanesvitann er mjög fallegt og fjaran við Garðskagavita er ómissandi stoppistaður.

Þetta eru eingöngu nokkrir af okkar uppáhaldsstöðum sem auðvelt er að fara í dagsferð til. Það er ótrúlega nærandi að fá orkuskot frá náttúrunni og eiga góða fjölskyldustund.

Magga

Samvera

Þau geta verið mörg verkin sem dúkka upp í desember og kona getur óvart endað í geymslutiltekt…þegar hún í sakleysi sínu álpaðist inn í geymsluna til að ná í smá jólaskraut. Og verandi sú sem hún er endaði þetta með því að kjallarinn er á hvolfi; geymsludót á rúi og stúi, stafli af dóti sem er á leið á í Sorpu/Góða hirðinn og búið að rífa upp úr jólakössunum. Þegar staðan er svona læðist stressið aðeins að, þrátt fyrir yfirlýst markmið um stresslausan mánuð. Jólin koma nú samt og allt það….en þegar heimilið er svona er erfitt að finna friðinn.

Sunnudagurinn stefndi því í að fyrrnefnd kona yrði með hausinn ofan í kössunum og yngri unglingurinn yrði bara að hafa ofan af sér sjálfur. En sem betur fer bankaði skynsemin upp á og plönunum var breytt í skyndi. Annar sunnudagur í aðventu á miklu frekar að fara í notalega samveru og upplifun.

Hafnarfjörðurinn varð fyrir valinu og ömmu kippt með. Fyrsta stopp var jólaþorpið, en þar var eiginlega aðeins of mikið af fólki fyrir okkur þannig að við römbuðum inn í Hellisgerði.

Það var eins og að ganga inn í annan heim; upplýstur garðurinn og alls konar skuggsælli krókaleiðir þar sem börn hlupu um með vasaljós. Litla tjörnin í miðju garðsins var gegnfrosin og þar renndu sér bæði börn og fullorðnir. Sannkölluð töfraveröld sem endurnærði andann.

Sækjum í svona samverustundir og látum geymslutiltektina bara bíða.

Magga

Haustið

Haustið er nýi uppáhalds tíminn minn. Þetta haust sem nú er senn að líða hefur opnað augu mín fyrir hveru frábær þessi árstími er. Sumarið og vorið hafa alltaf verið minn tími og ég hef talið niður dagana þar til ég get farið í ferðalög um landið, skipulagt lautarferði, gönguferðir og byrjað að sá fræjum og byrja að dúllast í sumarblómum. Enda veit ég fátt meira gefandi og skemmtilegt en rækta og stússast í blómum og gróðri almennt.

Hérna á Íslandi getur verið varasamt að setja miklar væntingar og plön á sumarið, sérstaklega ef gert er ráð fyrir sól og blíðu í þeim plönum. Sjálf hef ég stundum upplifað stress þegar góðveðurs dagar mæta, því ég er með svo mikið sem ég ætla að gera; bjóða vinum í grill, fara í langa gönguferð með nesti út úr bænum og svona mætti lengi telja.

Þetta haust hefur verið ótrúlega milt. Veðrið var mjög fallegt og bauð upp á skemmtilega útiveru á fallegum stöðum. Ég hef eignast fullt af uppáhaldstöðum við Hafravatn, í hrauninu við Hafnafjörð og í Heiðmörk. Sérstaklega hefur það verið gott að komast út í náttúruna á þessum sérstöku og erfiðu tímum sem við erum að lifa: Mér hefur fundist bæði mjög gott að rölta ein um með voffa mínum og tæma hugann, bara njóta fallegu náttúrunnar og vera algerlega i núinu eða hitta góðan vin eða ættingja sem annnars hefði ekki verið hægt að hitta í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu, þar sem margir þurfa að fara sérstaklega varlega. Þarna gefst þá tækifæri til að rölta um og spjalla,annað hvort með hæfilegri fjarlægð eða með grímur. Hlúa þannig að andlegu og líkamlegu heilbrigði.

Hluti af ástæðunni fyrir því hversu vel ég naut haustins, töluvert betur en sumarsins, er sú að ég var ekki með neinar væntingar. Ég tók bara hverjum góðviðrisdeginum fagnandi og naut hans í botn.

Það er sennilega ákveðin lærdómur falinn í þessu; að gera ekki of miklar væntingar og best er að geta bara notið hvers dags eins og hann kemur fyrir.

Njóttu dagsins!

Stína