Vanillukransar

Við systur ákváðum að prufa nýja uppskrift af vanillukrönsum þetta árið. Gamla uppskriftin frá mömmu stendur samt alltaf fyrir sínu en það er líka gaman að prufa eitthvað nýtt. Helsti munurinn er sá að í þessari eru hakkaðar möndlur og komu þær bara vel út. Uppskriftina fengum við á síðu Bo Bedre og þar er hún titluð sem hvorki meira né minna en heimsins bestu vanillukransar. Þið getið smellt á Bo Bedre linkinn ef þið viljið lesa dönsku uppskriftina. En hér kemur hún á íslensku:

Þetta þarftu:

175 gr. sykur

200 gr. mjúkt smjör

1 egg

250 gr. hveiti

75 gr. möndlur

1 vanillustöng

***

Svona gerir þú:

Möndlurnar eru hakkaðar í matvinnsluvél og kornin í vanillustönginni skröpuð. Allt hært vel saman í hrærivél. Gott er að nota annað hvort sprautupoka með stjörnustút eða hakkavélina á Kitchen Aid-inu (og nota stjörnujárnið).

Deiginu er sprautað í litla hringi á bökunarpappír. Passa að hafa bil á milli þar sem kransarnir geta runnið aðeins út.

Bakað við 200 ° í ca. 6 mínútur eða þar til þeir eru orðnir gylltir. Gott að kæla þá á rist.

Það er ekki tekið fram í dönsku uppskriftina að gott sé að kæla deigið í allavega 2 klst. áður en bakað er en það er eitthvað sem við höfum alltaf gert við svona bakstur. Þannig að við mælum með því 🙂

Njótið!

Magga & Stína

Toblerone smákökur

Þessar smákökur með ísköldu mjólkurglasi er bara kombó sem erfitt er að hafna. Þær eru tilvaldar í helgarbaksturinn eða til að henda í eftir skóla með svöngu smáfólki. Framkvæmdin er líka svo einföld að smáfólkið getur hjálpað til 🙂

Það sem þú þarft:

 • 120 gr. mjúkt smjör
 • 125 gr. sykur
 • 150 gr. púðursykur
 • 1 tsk. vanillusykur
 • 1/2 tsk. salt
 • 1 egg
 • 175 gr. hveiti
 • 1 tsk. hveiti
 • 1/2 tsk. matarsódi
 • 150 gr. toblerone, saxað

Aðferð:

 • Hrærðu saman smjör við sykur, púðursykur, vanillusykur og salt.
 • Bættu egginu við og hrærðu vel saman.
 • Settu hveitið, lyftiduftið og matarsódann saman við. Fínt að nota krókinn hér.
 • Að lokum seturðu toblerone-ið saman við og hrærir aðeins saman.
 • Leyfðu deiginu að bíða í ísskáp í ca. 1 klst.
 • Stilltu ofninn á 180 gr.
 • Búðu til litlar kúlur úr deiginu ( gott að miða við að kúlurnar séu aðeins stærri en valhnetur) og passaðu að hafa bil á milli þeirra á plötunni þar sem kökurnar renna út við baksturinn.
 • Bakaðu kökurnar í ca. 12 mínútur og leyfðu þeim að k´´ólna aðeins áður en þú gæðir þér á þeim.

Þær eru æðislegar með ískaldri mjólk eða uppáhaldsteinu úr uppáhaldsbollanum. Þó að þessar kökur séu ekki endilega hugsaðar í jólabaksturinn…enda langt í hann…grunar mig að þær eigi eftir að vera bakaðar í desember.

Njótið!

Magga

 • Uppskriftin kemur úr tímaritinu Mad og Bolig