Helgarplönin

Fimmtudagur og ekki seinna vænna að byrja að plana helgina. Um síðustu helgi fórum við í bíltúr upp í Hvalfjörð og stoppuðum við Hvalfjarðareyri. Þar er frábært að stoppa og ganga út að vitanum, skoða krabba, tína steina og vonast jafnvel til að sjá eins og einn Baggalút.

Við eyddum góðri stund á eyrinni og héldum svo áfram för okkar inn fjörðin. Hvalfjörðurinn er stundum svolítið gleymdur en þar eru fullt af fallegum perlum sem vert er að skoða. Í þetta sinnið stefndum við að sundlauginni á Hlöðum. Fyrirtakssundlaug sem er í sama húsi og Hernámssetrið. Þangað væri gaman að koma í næstu fjölskylduferð, kíkja á safnið og fá sér vöfflu á kaffihúsinu.

Mælum með Hvalfirðinum fyrir helgarrúntinn 🙂

Börn og bakstur

Flestum börnum finnst mjög skemmtilegt að fá að baka og stússast í eldhúsinu. Þau byrja flest í heimilisfræði þegar þau byrja í skóla og vilja því oft fá að æfa sig þegar heim er komið.

Mér hefur fundist það að lofa dóttir minni að baka með mér líka vera góð leið til að æfa lestur og stærðfræði. Hún þarf að lesa uppskriftirnar og spá í hvað tsk, msk og dl þýðir. Eitt sinn ætlaði hún að útbúa kókoskúlur alveg sjálf og það gekk bara mjög vel, þar til í lokin. Þá kemur til mín með deigið sitt en það var greinilega of mikið af vökva í því. Hún hafði ekki áttað sig á að það skipti máli hvort maður notar matskeið eða desilítra mál og notaði því bara alltaf desilítra málið til að spara sér uppvask. Þetta var góð reynsla og hún lærði heilmikið af þessu.

Um daginn lofaði ég dóttur minni og frænku okkar að baka og þær fengu nokkuð frjálsar hendur um meðferðina á deiginu svo úr varð hin skemmtilegasta föndurstund. Stundum skiptir bara mestu máli að hafa gaman, fá að vera í flæðinu og leika sér með deigið.

Við styðjumst við nokkrar skemmtilegar uppskriftar bækur í okkar bakstursstundum. Þetta eru bækur sem við erum búin að eiga lengi og hafa verið mikið notaðar. Best þykir mér danska bókin Börnenes beste fester. Hún er auðveld og þægileg fyrir börnin til þess að fylgja sjálf skref fyrir skref.

Góða skemmtun í eldhúsinu með uppáhalds fólkinu ykkar 🙂

Stína

Snjókarlar í baði

Það er svo notalegt að koma heim eftir að hafa verið úti í vetrarkuldanum og fá sér heitt súkkulaði. Það kemur mörgum á óvart hversu auðvelt það er að útbúa ekta heitt súkkulaði. Áður fyrir fannst mér það vera svo flókið ferli og gerði það ekki oftar en einu sinni eða tvisvar á ári. Núna er það hinsvegar gert einu sinni til tvisvar í mánuði að meðaltali.

Um daginn fékk dóttir mín að hafa kósíkvöld með nokkrum bekkjarsystrum sínum. Þegar þær voru búnar að vera úti í garði að leika um stund komu þær inn kátar en kaldar. Þær báðu því um heitt súkkulaði og vildu svo að föndra. Einhverra hluta vegna varð úr þessu sykurpúða snjókarlaföndur, en ég hafði oft dáðst að skemmtilegum myndum af sætum snjókörlum í heitum súkkulaði bolla á Pinterest. Stelpurnar gerðu sér svo sæta sykurpúða snjókarla sem fengu að skella sér í heitt og notalegt bað ofan í súkkulaðibollanum.

Mjög skemmtileg stund þar sem slegnar voru tvær flugur í einu höggi; föndur og saddur magi.

Það sem þú þarft til að gera sykurpúða snjókarla:

 • sykurpúða
 • saltstangir
 • hlaup sem við klipptum til svo það líktist nefi
 • brætt suðusúkkulaði til að teikna munn, augu og hnappa á snjókarlana

Hér fylgir svo með uppskrift af heitu súkkulaði sem er afar gott:

Heitt súkkulaði

1 lítri mjólk, mér finnst það mjög gott í nýmjólk en ef ég er að fá mér rjóma út í þá er betra finnst mér að hafa það létt mjólk.

100 gr suðusúkkulaði, sumir vilja hafa meira af suðusúkkulaði en þetta magn finnst okkur í fjölskuldunni fullkomin blanda.

1-2 msk. sykur

1-2 tsk. íslenskt smjör

smá salt, bara rétt framan á hnífsodd

1 tsk. vanilludropar

Aðferð

Allt innihald sett í pott og hitað að suðu en samt ekki látið sjóða, bara þangað til súkkulaðið er alveg bráðnað. Súkkuðlaðinu er síðan hellt í bolla og borðið fram með þeyttum rjóma eða sykurpúða eða bara bæði 🙂

Verði ykkur að góðu!

Stína

Spilafjör í gegnum Teams í Covid19 ástandi

Við fjölskyldan erum moldrík af góðum og kærum vinum. Við finnum það best í dag eins og svo margir aðrir hversu dýrmætir vinir eru og hversu miklu máli þeir skipta í lífinu. Það er hinsvegar svo að útaf dotlu erum við ekki að hitta vini okkar eins oft og mikið og við vildum. Við erum að reyna að vera skynsöm og hugsa um okkar heilsu og hagsmuni ásamt nánustu ættingja okkar. Við höfum því valið að vera í litlum hópum og halda þeim eins og þeir hafa verið í nokkuð margar vikur núna til að minnka áhættu á smiti á milli fjölskyldna.

En þetta er ekki skemmtilegt og okkur langar að hittast og spila eins og við erum vön og það gerðum við um síðustu helgi, að vísu ekki í eigin persónu heldur á Teams og spiluðum borðspil, sem við spilum mjög gjarnan, í gegnum símana okkar.

Spilið sem um ræðir heitir Partners. Við erum búin að ferðast með það um landið og til útlanda þegar við erum saman. Við skiptum yfirleitt í lið, eiginkonur á móti eiginmönnum og þar sem Partners snýst bæði um að hjálpa sjálfum sér og þeim sem er með þér í liði, snýst það ekki síður um að skemma fyrir hinu liðinu. Það verður því oft fjör þegar hiti er kominn í spilið og einhver er sendur heim, honum skipt út fyrir annan og settur í verri stöðu og þess háttar. Við semsagt söknuðum þess að hafa ekki spilafjörið okkar og leystum það á þennan hátt.

Partners appið fæst í Playstore og Appstore. Það kostar tæpar 700 krónur per síma (á gengi desember mánaðar 2020). Það tekur smá stund að hlaða því niður og svo þarf í gegnum kennslu á appinu áður en hægt er að spila leikinn. Síðan er hægt að spila við símann eða bjóða vinum sem eru einnig með appið og spila hvert við annað.

Við gerðum þetta semsagt og vorum á Teams á meðan og skemmtum okkur konunglega. Að sjálfsögðu skiptum við liðum eins og venjulega og náðum að kýta og skammast hvert í öðru mátulega mikið. Þá var hlegið og spjallað eins og við vorum vön.

Við skelltum veitingum á borð beggja heimila og áttum skemmtilega kvöldstund saman. Þá erum við búin að plana næsta Partners spilakvöld og munum án efa “hittast” svona um jólin en það er hefð hjá okkur að borða saman og spila svo í kjölfarið í jólafríinu.

Við mælum með að fólk kynni sér þessa leið til að eiga góða skemmtun og kvöldstund saman. Það er ekkert mál að spila svona “online” spil þó þið hafið ekki spilað það sem borðspil áður. Mælum með fullhlöðnum símum því að þegar við vinkonurnar fórum að tapa fyrir drengjunum vildum við bæta við einu enn og einu enn til að reyna að jafna leikinn 😉 Best að láta svo hér staðar numið og gefa ekki upp hverjar lokatölurnar voru þegar ákveðið var að segja góða nótt 😊

Kristín Sk.

Samvera

Þau geta verið mörg verkin sem dúkka upp í desember og kona getur óvart endað í geymslutiltekt…þegar hún í sakleysi sínu álpaðist inn í geymsluna til að ná í smá jólaskraut. Og verandi sú sem hún er endaði þetta með því að kjallarinn er á hvolfi; geymsludót á rúi og stúi, stafli af dóti sem er á leið á í Sorpu/Góða hirðinn og búið að rífa upp úr jólakössunum. Þegar staðan er svona læðist stressið aðeins að, þrátt fyrir yfirlýst markmið um stresslausan mánuð. Jólin koma nú samt og allt það….en þegar heimilið er svona er erfitt að finna friðinn.

Sunnudagurinn stefndi því í að fyrrnefnd kona yrði með hausinn ofan í kössunum og yngri unglingurinn yrði bara að hafa ofan af sér sjálfur. En sem betur fer bankaði skynsemin upp á og plönunum var breytt í skyndi. Annar sunnudagur í aðventu á miklu frekar að fara í notalega samveru og upplifun.

Hafnarfjörðurinn varð fyrir valinu og ömmu kippt með. Fyrsta stopp var jólaþorpið, en þar var eiginlega aðeins of mikið af fólki fyrir okkur þannig að við römbuðum inn í Hellisgerði.

Það var eins og að ganga inn í annan heim; upplýstur garðurinn og alls konar skuggsælli krókaleiðir þar sem börn hlupu um með vasaljós. Litla tjörnin í miðju garðsins var gegnfrosin og þar renndu sér bæði börn og fullorðnir. Sannkölluð töfraveröld sem endurnærði andann.

Sækjum í svona samverustundir og látum geymslutiltektina bara bíða.

Magga

Feðradagurinn

Feðradagurinn er í dag – til hamingju með daginn feður!

Þessi hefð er frekar ný af nálinni hér á landi en fyrsti feðradagurinn var haldinn hátíðlegur árið 2006. Þess má geta að mæðradeginum hefur verið fagnað síðan 1934 og er hann alltaf annan sunnudag í maí.

Er ekki tilvalið að gera eitthvað fallegt fyrir pabbana í lífi okkar? Hvort sem það eru feður okkar sem fullorðin erum eða fyrir pabba barnanna okkar. Það er hægt að hjálpa börnunum til að gera eitthvað fallegt sem gleður….og þarf ekki að kosta mikið. Eða bara ekki neitt! Það besta er að flest af þessu er hægt að gera HEIMA. En það er jú heitasti áfangastaðurinn þessa dagana.

Hér eru nokkrar hugmyndir að einhverju sem gæti glatt pabba:

 • færa honum morgunmat í rúmið
 • útbúa lautarferð í stofunni
 • skipuleggja kósíkvöld (bíómynd og nasl)
 • skipuleggja spilastund
 • stinga upp á göngutúr í náttúrunni
 • teikna mynd handa honum
 • skrifa falleg orð á blað eða kort, eitthvað sem lýsir pabba
 • föndra eitthvað fallegt
 • stinga upp á ísbíltúr
 • baka köku
 • útbúa lista “skemmtilegar staðreyndir um pabba” og gefa honum
 • semja ljóð

Svo er bara um að gera að virkja börnin í að koma með hugmyndir. Aðalmálið er að eiga fallega samverustund í tilefni dagsins.

Magga

*forsíðumynd: Photo by Jude Beck on Unsplash

Haustið

Haustið er nýi uppáhalds tíminn minn. Þetta haust sem nú er senn að líða hefur opnað augu mín fyrir hveru frábær þessi árstími er. Sumarið og vorið hafa alltaf verið minn tími og ég hef talið niður dagana þar til ég get farið í ferðalög um landið, skipulagt lautarferði, gönguferðir og byrjað að sá fræjum og byrja að dúllast í sumarblómum. Enda veit ég fátt meira gefandi og skemmtilegt en rækta og stússast í blómum og gróðri almennt.

Hérna á Íslandi getur verið varasamt að setja miklar væntingar og plön á sumarið, sérstaklega ef gert er ráð fyrir sól og blíðu í þeim plönum. Sjálf hef ég stundum upplifað stress þegar góðveðurs dagar mæta, því ég er með svo mikið sem ég ætla að gera; bjóða vinum í grill, fara í langa gönguferð með nesti út úr bænum og svona mætti lengi telja.

Þetta haust hefur verið ótrúlega milt. Veðrið var mjög fallegt og bauð upp á skemmtilega útiveru á fallegum stöðum. Ég hef eignast fullt af uppáhaldstöðum við Hafravatn, í hrauninu við Hafnafjörð og í Heiðmörk. Sérstaklega hefur það verið gott að komast út í náttúruna á þessum sérstöku og erfiðu tímum sem við erum að lifa: Mér hefur fundist bæði mjög gott að rölta ein um með voffa mínum og tæma hugann, bara njóta fallegu náttúrunnar og vera algerlega i núinu eða hitta góðan vin eða ættingja sem annnars hefði ekki verið hægt að hitta í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu, þar sem margir þurfa að fara sérstaklega varlega. Þarna gefst þá tækifæri til að rölta um og spjalla,annað hvort með hæfilegri fjarlægð eða með grímur. Hlúa þannig að andlegu og líkamlegu heilbrigði.

Hluti af ástæðunni fyrir því hversu vel ég naut haustins, töluvert betur en sumarsins, er sú að ég var ekki með neinar væntingar. Ég tók bara hverjum góðviðrisdeginum fagnandi og naut hans í botn.

Það er sennilega ákveðin lærdómur falinn í þessu; að gera ekki of miklar væntingar og best er að geta bara notið hvers dags eins og hann kemur fyrir.

Njóttu dagsins!

Stína