Paris

I love Paris in the springtime söng einhver einhvern tímann og það er nú bara þannig að ég elska París á hvaða tíma sem er. Hef reyndar ekki verið þar um hávetur en um sumar, haust og nú; um vor. Og vorið er komið í París. Útsprungnar páskaliljur og sumarblóm í beðum og það sem betra var: Kirsuberjatréin og Magnolíutréin í fullum blóma. Yndisleg tilfinning að geta um stutta stund um snjólaust höfuð strokið.

Eins og vanalega var ég með langan lista af things to do og eins og vanalega er margt eftir á listanum. En það er nokkuð víst að ég fer aftur og saxa þá meira á listann. Í þetta sinn voru það aðallega fallegar og fótógenískar götur og kaffihús sem ég var á höttunum eftir. Það og jafnvel að lauma eins og einu eða tveimur söfnum inn í ferðina. En þar sem ég var með tvo unglinga með í för fór slatti af tímanum í að kíkja í búðir. Og það má 🙂

Ég ætla að leyfa myndunum að tala en hápunktarnir fyrir mig voru:

  • Gallerie Lafayetta verslunarhúsið – vegna fegurðar byggingarinnar. Hvolfþakið er guðdómlegt og frábært að fara upp á þak þar sem útsýnið yfir borgina er dásamlegt
  • L´Atelier des Lumieres – svokallað immersive listasafn, þ.e. þú situr inni í sýningunni. Verkum listamannanna er varpað á gólf og veggi. Mögnuð upplifun. Mæli svo með!
  • Cafe Carette – yndislegt kaffihús síðan 1927. Það er á nokkrum stöðum í París en við fórum á Place des Vosges sem er torg/garður sem gaman er að skoða.
  • Rölt um borgina – framhjá Notre Dame og svo framhjá Eiffel turninum…alltaf jafn dásamlegt að sjá þau 🙂
  • Lúxemborgargarðurinn – sérstaklega að sjá Medici gosbrunninn
  • Shakespeare & Company – dásamleg bókabúð sem gaman er að kíkja í
  • Samvera með köllunum mínum í þessari fallegu borg

A bientot!

Njótið dagins 🙂

M

París

Hvenig væri að bregða sér í smá ferðalag….hugrænt ferðalag að vísu. Það er víst ekki margt annað í boði þessa dagana. En það styttist vonandi í að hægt sé að ferðast aftur og þangað til er allt í lagi að láta sig dreyma.

Place de Vosges er elsti skipulagði garðurinn/torgið í París og er í Le Marais hverfinu.

Ein af mínum uppáhaldsborgum…jafnvel sú sem vermir fyrsta sætið…er París. Ég kom fyrst til Parísar í brúðkaupsferð árið 2001 og hef verið svo heppin að komast þangað nokkrum sinnum eftir það. Maðurinn minn hefur átt vinnutengt erindi einu sinni á ári síðustu árin og tilvalið að bregða sér stundum með 🙂

Notre Dame í viðgerð en samt tignarleg

París er dásamleg borgin. Hún er þægileg, ekki alltof stór og þrátt fyrir alræmda mýtu hef ég ekki orðið vör við að frakkar séu eins dónalegir og af er látið. Þvert á móti eru þeir vinalegir og hjálplegir. Ég hef gist í nokkrum hverfum í þessum ferðum mínum. Í fyrstu ferðinni vorum við í Mont Martre, rétt hjá rauðu myllunni. Það var ágætt enda líflegt og skemmtilegt hverfi og algerlega ómissandi að skoða Sacre Cour kirkjuna. Það er líka mjög fínt að gista í hverfinu í kringum Sigurbogann, stutt að fara að mörgum merkilegum stöðum…og auðvitað í búðirnar.

Uppáhaldshverfið mitt er þó Le Marais, stundum kallað Mýrin. Þar má finna gamlan sjarma í húsum og hinum þröngu götu, fullt af kaffihúsum og veitingastöðum. Le Marais er frekar miðsvæðis og stutt að ganga niður að Signu og skoða Notre Dame sem nú er í yfirhalningu eftir brunann skelfilega.

En hvað er það sem gerir París svona ómótstæðilega? Ég veit það ekki….það er bara eitthvað við hana. Andrúmsloftið og byggingarnar, öll sagan og arkiterktúrinn…maturinn og fólkið. Það er algert möst að fara á eitthvað af listasöfnunum þegar dvalið er í borginni og má þá kannski helst nefna Louvre og Museé d´Orsay. En einnig er fullt af öðrum söfnum sem vert er að athuga og ég er þegar kominn með nokkur á listann fyrir næstu ferð.

Le Louvre hýsir marga ómetanlega gripi.

Sigling á Signu er líka eitthvað sem vert er að gera og hægt er að finna stoppistöð fyrir bátana stutt frá Eiffel turninum. Og það er auðvitað eitthvað sem allir ættu að gera; að fara upp í Eiffel turninn….magnað fyrirbæri og eitthvað svo “íkonískt”. Þegar við fórum til Parísar með strákana okkar tvo var það efst á óskalistanum að fara upp í Parísarturninn (eins og sá yngri kallaði hann). Sú ósk rættist og var hann hæst ánægður með það.

Ómissandi að kíkja á þennan þegar farið er til Parísar.

Að vera í París með börn er mjög þægilegt og okkar drengir elskuðu borgina jafn mikið og við….og geta ekki beðið eftir að komast aftur.

Það er sennilega hægt að skrifa töluvert lengri pistil en þennan um þessa einstöku borg en ég læt staðar numið hér…í bili 😉 Nú er bara um að gera að setja Edit Piaff á “fóninn”, elda eitthvað franskt og gott og fara til Parísar í huganum…það verður að duga í bili.

Au revoir

Magga

Madeleines

Ég hef nokkrum sinnum komið til París og er fyrir löngu kolfallin fyrir þessari borg. Þar sem lítið er um Parísarferðir um þessar mundir er um að gera að færa smá Parísarfiðring heim í eldhús.

Þessar dásamlegu litlu kökur smakkaði ég fyrst í einni af ferðum mínum til Parísar. Þær eru loftkenndar litlar svampkökur og bragðgóðar og passa ljómandi vel með kaffi- eða tebollanum. Athugið að sérstök Madeleineform eru nauðsynleg fyrir þennan bakstur.

2 egg

3/4 tsk. vanilludropar

1/8 tsk. salt

1/3 bolli sykur

1/2 bolli hveiti

1 msk. rifinn sítrónubörkur

1/4 bolli smjör, brætt og kælt í smástund

1/3 bolli flórsykur til skrauts

Ofn hitaður í 180 – 190 gr.

Smjörið er brætt og látið kólna aðeins.

Egg, salt og vanilludropar hrært saman þar til létt og ljóst.

Sykrinum bætt út í og hrært vel saman (í ca. 5-10 mín)

Hveitið sigtað út í, smáskammt í einu og hrært varlega saman með sleif.

Deigið sett í formin og bakað í 14 – 17 mín.

Gott er að setja kökurnar á bökunargrind og strá fljórsykri yfir. Þær eru bestar nýbakaðar með uppáhalds teinu eða kaffinu.

Verði ykkur að góðu!

Magga