Sjálfsrækt

Það hefur sjaldan verið eins mikilvægt og nú að leggja vinnu í sjálfsrækt … að vinna í okkur sjálfum, andlega og líkamlega. Að þeim orðum slepptum skal það tekið fram að það að stunda sjálfsrækt eða að vinna í sjálfum sér þýðir ekki að við séum gölluð. Eða að við séum ekki nóg. Við erum nóg. Og allt sem við þrufum er innra með okkur. Tré sem stendur þráðbeint og fagurt út í náttúrunni er fullkomið eins og það er, jafnvel þó það sé ekki þráðbeint ;). Það þarf samt að fá næringu og raka. Það þarf rétt skilyrði til þess að halda áfram að dafna.

Á sama hátt þurfum við næringu og rétt skilyrði til þess að dafna. Þrátt fyrir að vera nóg …

Ég lenti í heilsufarslegri krísu fyrir nokkrum árum. Þetta var í fyrsta skiptið sem svona ógn steðjaði að mér persónulega og það hristi upp í grunnstoðunum mínum. Ég leyfði því að fella mig, varð of upptekin af vandamálinu og sá ekkert annað. Í nokkra mánuði leyfði ég þessari ógn, sem var í raun alls ekki eins mikil ógn og ég hélt, að stjórna mér. Ég missti matarlystina, svaf illa og leið illa. En allt tengdist þetta mínu hugarfari og því hvernig ég tókst á við þetta, ekki hinu líkamlega vandamáli. Þegar upp var staðið var líkamlega vandamálið leyst með lítilli aðgerð og ég var laus allra mála. Það sem eftir stendur er hins vegar þessi lífsreynsla, þessi lexía. Að lífið er í raun 10% það sem við lendum í og 90% hvernig við bregðumst við því. Í dag er ég þakklát fyrir þessa lífsreynslu því hún kenndi mér að vinna í sjálfri mér … að leggja rækt við sjálfa mig.

Farvegurinn fyrir svona vinnu er grösugur í dag. Sjálfsrækt, eða self-care, er “trending” svo við slettum aðeins. Auðvelt er að finna hvers kyns efni á netinu sem tengist slíkri vinnu. Sumum hentar ítarlegri vinna á meðan öðrum nægir að fá jákvæðar möntrur inn í daginn sinn. Nokkrus konar stef sem fær búsetu í huga okkar þann daginn. Sumum hentar vel að fara inn á við og stunda hugleiðslu á meðan aðrir fá sitt fix úr náttúrunni.

Fyrir mig er það blanda af þessu. Ég er orðaperri, afsakið orðalagið. Ég elska orð og tungumál. Daglegar möntrur, tilvitnanir, ljóð, textar. Það virkar fyrir mig. Stokkar með spilum, hvort sem það eru möntrur eða samfelldur texti með boðskap. Stuttar hugleiðslur (nenni ekki löngum) og jóga hér og þar. Þetta er mín remedía. Það ásamt því að hreyfa mig út í náttúrunni daglega … í sama hvaða veðri. Með hundinum mínum mér við hlið. Það er minn lyfseðill. Hundurinn sjálfur er hinn besti sálfræðingur. Hans aðferð er reyndar sú að draga hugann frá sjálfri mér og að honum … það er jú miklu skemmtilegra að leika við hann eða gefa honum nammi heldur en að hugsa um eitthvað leiðinlegt. Hann verður seint talinn efni í svona meðferðarhund, þið vitið, þessi sem fer í heimsóknir á elliheimili. Hann er sérlundaður og knúsar þegar honum hentar. En hann er samt æði. Að fara með hann út að labba í snjóbyl og sjá hann stinga nefinu ofan í snjóinn eins og Al Pacino ofan í kókaínhrúgu fær mann til að brosa og gleyma öllu öðru. Allt ofantalið ásamt hressilegri göngu með dúndrandi rapp frá 90ogeitthvað í eyrunum er það sem fær mig til að höndla lífið betur. Að ógleymdri samveru með fólkinu mínu.

Boðskapur þessa pistils er sem sagt:

 • Þú ert nóg
 • En þú þarf samt að næra þig andlega
 • Finndu hvað virkar fyrir þig og stundaðu það, sama hvað lítið eða hversu mikið
 • Fáðu þér hund 🙂

Í næsta sjálfsræktarpósti ætlum við svo að deila með ykkur góðum bókum sem leggja rækt við andann. Ef þú ert með ábendingu eða leggja orð í belg um málefnið má alltaf senda okkur línu í gegnum facebook eða instagram. Svo minnum við á eldri velferðarpósta hér á Skeggja. T.d. um morgunrútínu – hér -, heimajóga – hér – , þakklæti – hér – og guasha – hér – .

Ást og friður

M

Rútínan

Það er eitthvað notalegt við það þegar rútínan dettur í gang aftur eftir sumarfrí. Og þetta segi ég eiginlega mér þvert um geð…af því að ég er fyrst og fremst sumar manneskja og elska sumarfríin. Að þurfa ekki að láta klukkuna stjórna og jafnvel gleyma hvaða vikudagur er. En allt hefur sinn tíma og kannski er það einmitt það góða við þetta; að þetta er takmarkaður tími og svo dettum við aftur í gömlu góðu rútínuna. Reglulegur svefn, hollara mataræði….börnin farin að sofa fyrir miðnætti og allt það 🙂

Photo by Matt Ragland on Unsplash

Þessi tími hefur ákveðin sjarma og fullt af tækifærum. Nú er tíminn til að dusta rykið af dagbókinni og setja sér markmið fyrir veturinn. Hvort sem það eru heilsumarkmið eða önnur markmið. Þá eru einnig fullt af námskeiðum í boði sem gaman er að skella sér og efla færni sína….í bókfærslu eða jóga? Einnig hef ég alltaf gaman af því þegar hausttískan mætir á svæðið í búðirnar…hef aldrei fundið mig í stuttbuxum og ermalausum bol 😉

Photo by Cinthia Becher on Unsplash

Og að lokum, fyrir ykkur sem eiga lítil börn sem eru að hefa skólagönguna eða eru á yngsta stigi. Það er bara eitthvað svo óendanlega krúttlegt við skólatöskurnar og ritföngin, nestiboxin og allt það. Og fyrir þá sem ætla all in í nestis undirbúningnum er hægt að fá fullt af hugmyndum á pinterest.

Fögnum rútínunni og sjáum hið jákvæða við árstíðaskiptin.

Eigið góðan dag!

M

Þakklæti

Það sem fyllir huga þinn stýrir huga þínum stendur einhvers staðar skrifað. Er þá ekki tilvalið að fylla hugann af þakklæti? Því þrátt fyrir allt höfum við felst svo mikið til að vera þakklát fyrir.

Að iðka þakklæti eflir okkur í að taka eftir litlu hlutunum í lífinu. Hlutum sem við erum jafnvel farin að taka sem sjálfsögðum hlutum.

Það er hægt að skrifa langan pistil um ávinningin af því að iðka þakklæti og hver veit nema við skrifum slíkan póst fljótlega 😉 En svo þarf þetta ekki alltaf að vera flókið; veittu umhverfinu þínu athygli og staldraðu við hlutina sem gleðja þig – fyrsti kaffibollinn þann daginn, lítill fugl sem skoppar um fyrir utan gluggann þinn, faðmlag frá ástvini, hvað sem er. Taktu þessa hluti inn og njóttu þeirra.

Í dag er ég þakklát fyrir…

Fjallgönguna á Úlfarsfell í gærkvöldi: að hreyfa mig af því ég get það, að láta kuldann sem ríkir núna ekki stoppa mig í því að hreyfa mig.

Hundinn minn sem fylgir mér eins og skugginn og sefur nú vært hér í vinnuherberginu.

Að hafa tækifæri og svigrúm til að vinna í mínum hugðarefnum og búa mér til skapandi framtíð.

photo credit: Estée Janssens

Fjölskylduna mína, smá og stóra. Og inn í þann hóp set ég líka vinina. Með þeim er lífið bara betra.

Farfuglana sem nú fara að láta sjá sig…og láta heyra í sér. Það gladdi mig mikið að sjá Tjald í einni af gönguferðunum um páskana. Og já, ég er óforbetranlegt fuglanörd…og er þakklát fyrir það 😉

photo credit: https://eirikurjonsson.is/tjaldur-med-merki/

Hvað fyllir þig þakklæti í dag?

forsíðumynd: Gabrielle Henderson

Of snemmt fyrir piparkökur?

Ekki ef það eru hrekkjavökupiparkökur!

Þessar piparkökur eru svo góðar og uppskriftin hefur fylgt fjölskyldunni afar lengi. Þær eru alltaf gerðar fyrir jól….og stundum þarf að baka auka skammt. Ef þær klárast snemma.

Þó að kökurnar sjálfar séu mjög góðar er það samt glassúrinn sem er stjarnan en hann er þeyttur og honum sprautað á.

Uppskrift:

 • 220 gr. ljóst síróp (Lyles)
 • 220 gr. smjör
 • 220 gr. sykur
 • 2 egg
 • 1 tsk kanill
 • 1 tsk negull
 • 1 tsk. engifer
 • 660 gr. hveiti
 • 1 tsk. natrón

Bræðið saman smjör og síróp. Eggin þeytt með sykrinum og kryddunum blandað saman við.

Hveiti og natrón blandað saman við ásamt smjörinu og sírópinu og deigið hnoðað. Deigið þarf að bíða í kæli í nokkra klukkutíma (helst yfir nótt).

Bakist við 180-190° í u.þ.b. 10 mínútur.

Glassúr til skreytingar:

 • 2 eggjahvítur
 • 275 gr. flórsykur

Þeytt saman og sprautað á kökurnar.

Strá

Einn fallegan síðsumardag fórum við í bíltúr austur fyrir fjall. Markmiðið var að næla okkur í melgresi. Melgresi vex í sendnum jarðvegi og má til dæmis finna á strandlengjunni á milli Þorlákshafnar og Eyarbakka. Það er vel þess virði að fara í dagsferð á þennan fallega stað, jafnvel taka með nesti og sulla í fjörunni.

Undanfarið hafa ýmis konar strá verið vinsæl á heimilum. Þar má kannski helst nefna hin ofurvinsælu Pampas strá en einnig hafa aðrir gerðir af stráum og þurrkuðum blómum verið vinsæl.

Pampas stráin vinsælu koma upphaflega frá Suður-Ameríku og þar þykir þessi planta vera ansi frek á umhverfi sitt. Hún getur auðveldlega yfirtekið landsvæði og kæft annan gróður. Við þurfum kannski ekki að hafa áhyggjur af Pampas stráunum í okkar náttúru en falleg eru þau.

Fyrir þá sem vilja fá falleg strá í vasa er líka bara sniðugt að ná í þau sjálf úti í náttúruna…og fá skemmtilega dagsferð í kaupbæti.