Jólaísinn

Ég dreif mig í að gera jólaísinn, gott að nýta allar rauðurnar úr lakkrístoppa gerðinni. Ég hef nú ekki gert ís öll jól, það stendur misvel á hvað varðar tíma og annað og mér hefur sem betur fer lærst á síðustu jólum að þau koma þau ekki sé allt fullkomið og þó að ekki hafi náðst að þrífa eða baka það sem hefðin krefur. Reyndar fer ég ekki í stórþrif á innréttingum og veggjum og fleiru eins og mæður okkar og ömmur gerðu hér á árum áður heldur nota allt árið í það að þrífa það sem þarf hverju sinni.

En aftur að jólaísnum. Ég sendi út í kosmósið fyrir mörgum árum spurningu um hvað væri hægt að gera úr 6 eggjarauðum, fannst svo mikil synd að henda þeim og hafði ekki lært að gera bernais sósu frá grunni þá 😉 Fékk í kjölfarið uppskrift af Toblerone ís og hefur sú uppskrift verið grunnur af jólaísnum okkar síðustu ár. Ég held ég hafi náð að gera Toblerone ís í eitt skipti en svo prófað hitt og þetta síðan.

Ég hef notað Daim, bæði kúlur og niðurbrytjað súkkulaðið sjálft. Mér finnst ísinn betri með súkkulaðinu en kúlunum. Þá hef ég brytjað niður karamellufyllt súkkulaði og fyrir mintu fólkið væri nú fínt að brytja niður pipp eða álíka. Karamellufyllt súkkulaði er það sem oftast hefur verið fyrir valinu og ég valdi það í ár. Breytti nú samt aðeins útaf vananum og ákvað að prófa að bræða súkkulaðið í rjóma og hella svo saman við ísinn. Kemst svo væntanlega að því á jóladag hvort það var góð hugmynd 😊

Jólaís

6 eggjarauður

200 gr púðursykur

½ líter rjómi (þarf að þeyta)

1 tsk vanilludropar

Súkkulaði að eigin vali, t.d. Toblerone, daim eða karamellufyllt súkkulaði.

Byrjið á að þeyta rjómann. Ég stífþeyti hann ekki en hef hann nokkuð vel þeyttann. Takið rjómann úr hrærivélaskálinni og setjið eggjarauður og púðursykur og þeytið í smá stund.

Bætið saman við vanilludropum og þeyttum rjómanum og  blandið vel. Niðurbrytjuðu súkkulaðinu er svo bætt við með sleif. Sett í form og fryst. Ég keypti mér íshring frá Tupperware fyrir nokkrum árum. Uppskriftin passar í að sléttfylla þannig form. Mér finnst afar gaman að bera íshring á borð á jólunum en að sjálfsögðu er hægt að nota hvaða form sem er og fyrst notaði ég alltaf formtertuform. Mamma var með braggalaga form í gamla daga, ég væri örugglega með minn ís þannig ef ég hefði fundið svoleiðis 😉

Eins og ég sagði áðan, þá tók ég lögg af rjómanum (botnfylli í minnsta pottinn minn) og bræddi tvö karamellufyllt súkkulaði saman við. Ég passaði að kæla súkkulaðiblönduna áður en ég setti hana saman við ísblönduna.

Okkur finnst best að bera jólaísinn fram með heitri súkkulaðisósu og Lindu ískexi. Oftast set ég botnfylli af rjóma í pott og bræði 2-3 mars saman við. Ískexið var alltaf á borðum á æskuheimilum okkar beggja og því finnst okkur það ómissandi og bæta við hátíðleikann.

Kristín Sk.

Lakkrístoppar

Ég baka toppa á hverri aðventu. Ég er búin að prófa allskonar útgáfur af þeim en enda alltaf aftur í lakkrís toppunum. Mér finnst þeir bestir og verð minnst leið á þeim þegar líður á að skammturinn klárist. Ég hef prófað tromp toppa, þrista toppa, turkispebber toppa og toppa með piparfylltum lakkrísreimum. Ég er alltaf með sömu grunn uppskriftina nema í þrista toppunum, þá sleppti ég rjómasúkkulaðinu.

Ég hef alltaf verið í vandræðum með að fá toppana mína til að vera eiginlega toppa, þeir verða alltaf flatir að minnsta kosti síðustu tvær plöturnar. Fyrstu árin mín (sennilega alveg 15) sem ég var í búskap bræddi ég líka úr nokkrum handþeyturum  við að reyna að þeyta þá nóg en gamla góða KitchenAid drottningin hennar mömmu sem ég er með í langtíma láni hefur nú heldur betur bjargað. Ég pirraði mig samt alltaf svo mikið á flötu toppunum, þangað til ég ákvað að hafa þá bara alla flata og engan eiginlega topp. Síðan þá skelli ég í tvöfalda uppskrift og borða flata toppa með mikilli gleði 😉

Þar sem ég geri alltaf tvöfalda uppskrift, á ég alltaf til rauður í jólaísinn og fínt að gera hann næsta dag eða samdægurs ef ég er í stuði.

Aldrei að vita nema að sú uppskrift slæðist hér inn 😊

Lakkrís toppar – einföld uppskrift

3 eggjahvítur

200 gr púðursykur

150 gr rjómasúkkulaði

300 gr lakkrískurl (tveir pokar)

Setja eggjahvítur og sykur saman í hrærivélaskál og þeyta þar til er orðið svo stíft að það lekur ekki úr skálinni þó henni sé snúið á hvolf.

Bæta niðurskornu rjómasúkkulaði og lakkrískurli saman við, best að gera með sleifinni.

Setja á bökunarplötur og baka við 170°C í 11-13 mínútur.

Verði ykkur að góðu!

Kristín Sk.

Snjókarlar í baði

Það er svo notalegt að koma heim eftir að hafa verið úti í vetrarkuldanum og fá sér heitt súkkulaði. Það kemur mörgum á óvart hversu auðvelt það er að útbúa ekta heitt súkkulaði. Áður fyrir fannst mér það vera svo flókið ferli og gerði það ekki oftar en einu sinni eða tvisvar á ári. Núna er það hinsvegar gert einu sinni til tvisvar í mánuði að meðaltali.

Um daginn fékk dóttir mín að hafa kósíkvöld með nokkrum bekkjarsystrum sínum. Þegar þær voru búnar að vera úti í garði að leika um stund komu þær inn kátar en kaldar. Þær báðu því um heitt súkkulaði og vildu svo að föndra. Einhverra hluta vegna varð úr þessu sykurpúða snjókarlaföndur, en ég hafði oft dáðst að skemmtilegum myndum af sætum snjókörlum í heitum súkkulaði bolla á Pinterest. Stelpurnar gerðu sér svo sæta sykurpúða snjókarla sem fengu að skella sér í heitt og notalegt bað ofan í súkkulaðibollanum.

Mjög skemmtileg stund þar sem slegnar voru tvær flugur í einu höggi; föndur og saddur magi.

Það sem þú þarft til að gera sykurpúða snjókarla:

  • sykurpúða
  • saltstangir
  • hlaup sem við klipptum til svo það líktist nefi
  • brætt suðusúkkulaði til að teikna munn, augu og hnappa á snjókarlana

Hér fylgir svo með uppskrift af heitu súkkulaði sem er afar gott:

Heitt súkkulaði

1 lítri mjólk, mér finnst það mjög gott í nýmjólk en ef ég er að fá mér rjóma út í þá er betra finnst mér að hafa það létt mjólk.

100 gr suðusúkkulaði, sumir vilja hafa meira af suðusúkkulaði en þetta magn finnst okkur í fjölskuldunni fullkomin blanda.

1-2 msk. sykur

1-2 tsk. íslenskt smjör

smá salt, bara rétt framan á hnífsodd

1 tsk. vanilludropar

Aðferð

Allt innihald sett í pott og hitað að suðu en samt ekki látið sjóða, bara þangað til súkkulaðið er alveg bráðnað. Súkkuðlaðinu er síðan hellt í bolla og borðið fram með þeyttum rjóma eða sykurpúða eða bara bæði 🙂

Verði ykkur að góðu!

Stína

Samvera

Þau geta verið mörg verkin sem dúkka upp í desember og kona getur óvart endað í geymslutiltekt…þegar hún í sakleysi sínu álpaðist inn í geymsluna til að ná í smá jólaskraut. Og verandi sú sem hún er endaði þetta með því að kjallarinn er á hvolfi; geymsludót á rúi og stúi, stafli af dóti sem er á leið á í Sorpu/Góða hirðinn og búið að rífa upp úr jólakössunum. Þegar staðan er svona læðist stressið aðeins að, þrátt fyrir yfirlýst markmið um stresslausan mánuð. Jólin koma nú samt og allt það….en þegar heimilið er svona er erfitt að finna friðinn.

Sunnudagurinn stefndi því í að fyrrnefnd kona yrði með hausinn ofan í kössunum og yngri unglingurinn yrði bara að hafa ofan af sér sjálfur. En sem betur fer bankaði skynsemin upp á og plönunum var breytt í skyndi. Annar sunnudagur í aðventu á miklu frekar að fara í notalega samveru og upplifun.

Hafnarfjörðurinn varð fyrir valinu og ömmu kippt með. Fyrsta stopp var jólaþorpið, en þar var eiginlega aðeins of mikið af fólki fyrir okkur þannig að við römbuðum inn í Hellisgerði.

Það var eins og að ganga inn í annan heim; upplýstur garðurinn og alls konar skuggsælli krókaleiðir þar sem börn hlupu um með vasaljós. Litla tjörnin í miðju garðsins var gegnfrosin og þar renndu sér bæði börn og fullorðnir. Sannkölluð töfraveröld sem endurnærði andann.

Sækjum í svona samverustundir og látum geymslutiltektina bara bíða.

Magga

Óskalistinn minn

Það er alltaf gaman að láta sig dreyma og það breytist ekkert með aldrinum. Alveg síðan ég man fyrst eftir mér hefur mér fundist svo gaman að skoða bæklinga, búðarglugga og síðar að vafra um í netheimum. Að láta mig dreyma um fallega hluti. Núna þegar jólin nálgast er stundum verið að spyrja út í gjafahugmyndir og þá er sniðugt að hafa bara listann tilbúinn og láta sig svo deyma um að það komi kannski eitthvað af því upp úr pakkanum á aðfangadag.

1. Blómapottur frá Evita / 2. Söngfuglinn Ruth, fæst t.d. í Epal / 3. Vitra High Tray, fæst t.d. í Pennanum / 4. Svartur glerskápur úr Línunni
5. Flowerpot ljós úr Epal / 6. Skutla frá Systur og makar / 7. Bioeffect EGF serum, fæst t.d. í Hagkaup / 8. Zafu hugleiðslupúði úr Systrasamlaginu
9. Kjóll úr Cocos / 10. Stafamen, fæst t.d. í Hrím / 11. Flowerpot loftljós, fæst í Epal /
12. Hitateppi úr Eirberg

Látum okkur dreyma

Stína

*forsíðumynd: Photo by Mel Poole on Unsplash

Tilboðshelgi

Skeggi tekur þátt í svörtum föstudegi og rafrænum mánudegi og hvetur fólk til að versla heima í stað þess að fara í búðirnar…út af doltnu…þið vitið 😉 Á meðan ástandið er svona er langbest að klára innkaupin öruggur heima.

Við bjóðum 20% afslátt á öllum plakötum í vefverslunni okkar og einnig af jóladagatalinu okkar Beðið eftir jólunum. Og svo bjóðum við upp á fría heimsendingu á höfuðborgarsvæðinu.

Tilboðin gilda út mánudaginn 30. nóvember.

Sýnishorn af plakötunum okkar, þau koma í nokkrum stærðum. Smelltu hér til að fara í vefverslunina.

Jóla- og aðventudagatalið Beðið eftir jólunum kom fyrst út fyrir fimm árum og vakti mikla lukku. Dagatalið býður upp á ýmiskonar afþreyingu fyrir hvern dag desember mánaðar og styttir vonandi biðina eftir jólunum.

Verslum heima og styðjum litlu fyrirtækin!

Ást og friður

Stína, Steinunn og Magga

Beðið eftir jólunum

Nú styttist í aðventuna og tilvalið að minnast aðeins á jóladagatalið okkar Beðið eftir jólunum. Við erum afar stoltar af þessu dagatali sem við hönnuðum fyrir nokkrum árum og seljum fyrir hver jól.

Beðið eftir jólunum er aðventudagatal sem telur niður til jóla og býður upp á skemmtilega afþreyingu fyrir alla fjölskylduna á hverjum degi. Í dagatalinu eru föndurhugmyndir, uppskriftir, þrautir, fróðleikur og ýmislegt fleira.

Hægt er að kaupa dagatalið á vefverslun Skeggja.