Mánudags

Mánudagur í september. Haustlægð að sækja í sig veðrið, ekki sú fyrsta og alveg örugglega ekki sú síðasta. En þetta þarf ekki að vera slæmt. Það má líka sjá þetta á þennan veg; rigning og rok úti, hlýtt og notalegt inni. Notaleg tónlist í bakgrunni, heitt te í bolli. Og netráp…rápað um veraldarvefinn, leitað að innblæstri, afslöppun í hámarki. Það má. Svona á milli þess sem við hugleiðum, þrífum, hreyfum okkur og sinnum móðurhlutverkinu.

Á þessum mánudegi mælum við með Skanelangan á instagram. Fallegt heimili frá því sjötíuogeitthvað sem búið er að gera upp. Það sem vakti athygli mína sérstaklega eru grænu billy hillurnar…venjulegar billy hillur úr Ikea sem búið er að poppa upp.

Eigið ljúfan mánudag.

Föstudagsinnblástur

Litríkt, fallegt, hlýlegt, hrátt og töff. Heimili Andreu de Groot frá Hollandi er allt þetta og meira til. Andrea vinnur sem bloggari, instagrammari og eitthvað sem kallast “content creator”. Hér með er óskað eftir góðri þýðingu á því orði.

Stíll Andreu er persónulegur og ber þess merki að hún elti ekki trendin heldur fylgi hjartanu í því sem henni finnst fallegt. Nokkuð ber á vintage munum og fallegum myndum á veggjum. Plönturnar eru einnig ríkjandi og saman myndar þetta allt fallega og heimilislega heild.

Andrea de Groot er með instagram reikning og hægt er að smella hér til að fara beint á hann. Einnig er hún með heimasíðuna Living hip, smellið hér til að skoða hana.

Gleðilegan föstudag!

Heimsókn

Sænski bloggarinn Janniche Kristoferssen býr í fallegu húsi í Bagarmossen í Stokkhólmi. Stíllinn hennar er dásamlegur; hlýlegur og litríkur og listaverkin njóta sín vel. Sjálf segir Janniche að henni líki best við hlutlausan grunn og að leyfa aukahlutunum að bæta við litum og áferð. Það sem heillar mig mest við heimilið eru einmitt þessir aukahlutir sem skapa þessa fallegu heild…og allr myndirnar á veggjunum. Það eru akkúrat þessir hlutir sem setja punktinn yfir i-ið.

Janniche heldur úti blogginu Blogga i Bagis og er einnig með vinsælan instagramreikning.

Mæli með að þið kíkið á hana!

Magga

Net-rúnturinn

Föstudagur er fínn dagur til að henda “shout-out” eða hrósi á fallegar síður eða instagram sem við elskum að fylgjast með.

Studio McGee er rekið af hjónunum Syd og Shea og taka að sér að hanna heimili fyrir fólk. Mjög fallegur stíll og gaman að fylgjast með þeim. Þættirnir þeirra, Dream home makeover, eru á Netflix. Mæli með að kíkja á þá. Einnig hægt að finna þau á instagram.

Lovely life er sænsk síða uppfull af fallegum innlitum, góðum ráðum, uppskriftum og ýmsu öðru. Síðan er rekin af nokkrum bloggurum sem sameina krafta sína á fjölbreyttan hátt. Lovely life er líka á instagram.

What decorates my day er rekin af einum af bloggurunum á Lovely life, ljósmyndaranum og stílistanum Emmu Johansson. Instagram síðan hennar er ævintýralega falleg og sumar myndanna gætu verið beint úr sögu eftir Astrid Lindgren.

Bríet Ósk er íslenskur stílisti og hönnuður með mjög fallegan stíl. Gaman að skoða síðuna hennar og instagrammið til að fá innblástur.

Elisabeth býr í gömlu húsi (1947) á vesturströnd Noregs. Búið er að gera húsið afar fallega upp. Mæli með að kíkja á instagrammið hennar.

Látið fara vel um ykkur í uppáhaldsstaðnum og takið smá netráp….það er hvort eð er varla hundi út sigandi.

Magga

* forsíðumynd: elisabethsidyll