Myndaveggur

Þegar vel tekst til setja svona myndaveggir heilmikinn svip á heimili og gera fólki sem hefur gaman af hvers kyns list, kleift að koma sem mestu fyrir. Svona veggir eru svo sannarlega ekki fyrir minimalíska og ég telst víst seint minimalísk. Hvers kyns myndi og list, plaköt og myndskreytingar hafa alltaf virkað eins og segull á mig. Það getur hins vegar verið kúnst að raða myndunum saman svo vel sé og kannski fælir það einhverja frá.

Eitt ráðið til þess að setja velheppnaðann vegg upp er að klippa út pappír í þeim stærðum sem myndirnar eru og máta á vegginn. Leika sér með þetta og púsla saman. Svo er auðvitað líka hægt að nota bara augað og tilfinninguna. Um að gera að vera djarfur og leyfa alls kyns myndum að flæða saman.

Hér kemur smá innblástur….

Persónulega finnst mér fallegast þegar veggurinn felur í sér fjölbreytni. List þarf ekki að kosta heilan helling og oft er hægt að fá mjög falleg og vönduð plaköt. Einnig er fallegt að setja ljósmyndir með og jafnvel eins og eitt listaverk frá börnunum.

Nú er bara um að gera að vera skapandi og leyfa hugmyndafluginu að njóta sín.

*myndirnar eru allar fengnar á pinterest.com

Föstudagsinnblástur

Litríkt, fallegt, hlýlegt, hrátt og töff. Heimili Andreu de Groot frá Hollandi er allt þetta og meira til. Andrea vinnur sem bloggari, instagrammari og eitthvað sem kallast “content creator”. Hér með er óskað eftir góðri þýðingu á því orði.

Stíll Andreu er persónulegur og ber þess merki að hún elti ekki trendin heldur fylgi hjartanu í því sem henni finnst fallegt. Nokkuð ber á vintage munum og fallegum myndum á veggjum. Plönturnar eru einnig ríkjandi og saman myndar þetta allt fallega og heimilislega heild.

Andrea de Groot er með instagram reikning og hægt er að smella hér til að fara beint á hann. Einnig er hún með heimasíðuna Living hip, smellið hér til að skoða hana.

Gleðilegan föstudag!

Make-over

Það er alltaf gott þegar hægt er að endurnýta hluti í stað þess að fara og kaupa nýtt. Þó hægt sé að fara með gamla hlutinn í Góða hirðirinn (Sorpu) þá skilst mér að það sé orðið yfirfullt þar og þeir stundum farnir að velja hluti inn. Þannig var það allavega um jólin þegar ég ætlaði að gefa fullt af barnadóti, þá var starfsmaður að velja inn í gáminn.

Mig er búið að langa í svarta blómapotta, en ég á blómapotta í nokkrum litum. Ég fór því í Slippfélagið og keypti mér svart sprey. Þar fékk ég mjög góð ráð um hvernig best væri að gera þetta.

Gamli eldhús stigakollurinn okkar var líka orðinn frekar sjúskaður svo hann var bara líka spreyjaður.

Litli potturinn á myndinni er reyndar nýr, úr Söstrene, en mig vantaði pott í þessari stærð og hafði ekki fundið neinn svartan sem mig langaði í.

  • Þetta tók um 1 klst með tíma sem fór í að bíða á milli umferða.
  • Kostnaðurinn var 1598 kr.
  • Ég átti fínan sandpappír, ég fór létt yfir pottana og þvoði þá svo með sápuvatni til að losna við alla fitu.

Svo er bara um að gera að reyna að laga og breyta því sem maður á fyrir í stað þess að kaupa alltaf nýtt.

Stína