Sjálfsrækt

Það hefur sjaldan verið eins mikilvægt og nú að leggja vinnu í sjálfsrækt … að vinna í okkur sjálfum, andlega og líkamlega. Að þeim orðum slepptum skal það tekið fram að það að stunda sjálfsrækt eða að vinna í sjálfum sér þýðir ekki að við séum gölluð. Eða að við séum ekki nóg. Við erum nóg. Og allt sem við þrufum er innra með okkur. Tré sem stendur þráðbeint og fagurt út í náttúrunni er fullkomið eins og það er, jafnvel þó það sé ekki þráðbeint ;). Það þarf samt að fá næringu og raka. Það þarf rétt skilyrði til þess að halda áfram að dafna.

Á sama hátt þurfum við næringu og rétt skilyrði til þess að dafna. Þrátt fyrir að vera nóg …

Ég lenti í heilsufarslegri krísu fyrir nokkrum árum. Þetta var í fyrsta skiptið sem svona ógn steðjaði að mér persónulega og það hristi upp í grunnstoðunum mínum. Ég leyfði því að fella mig, varð of upptekin af vandamálinu og sá ekkert annað. Í nokkra mánuði leyfði ég þessari ógn, sem var í raun alls ekki eins mikil ógn og ég hélt, að stjórna mér. Ég missti matarlystina, svaf illa og leið illa. En allt tengdist þetta mínu hugarfari og því hvernig ég tókst á við þetta, ekki hinu líkamlega vandamáli. Þegar upp var staðið var líkamlega vandamálið leyst með lítilli aðgerð og ég var laus allra mála. Það sem eftir stendur er hins vegar þessi lífsreynsla, þessi lexía. Að lífið er í raun 10% það sem við lendum í og 90% hvernig við bregðumst við því. Í dag er ég þakklát fyrir þessa lífsreynslu því hún kenndi mér að vinna í sjálfri mér … að leggja rækt við sjálfa mig.

Farvegurinn fyrir svona vinnu er grösugur í dag. Sjálfsrækt, eða self-care, er “trending” svo við slettum aðeins. Auðvelt er að finna hvers kyns efni á netinu sem tengist slíkri vinnu. Sumum hentar ítarlegri vinna á meðan öðrum nægir að fá jákvæðar möntrur inn í daginn sinn. Nokkrus konar stef sem fær búsetu í huga okkar þann daginn. Sumum hentar vel að fara inn á við og stunda hugleiðslu á meðan aðrir fá sitt fix úr náttúrunni.

Fyrir mig er það blanda af þessu. Ég er orðaperri, afsakið orðalagið. Ég elska orð og tungumál. Daglegar möntrur, tilvitnanir, ljóð, textar. Það virkar fyrir mig. Stokkar með spilum, hvort sem það eru möntrur eða samfelldur texti með boðskap. Stuttar hugleiðslur (nenni ekki löngum) og jóga hér og þar. Þetta er mín remedía. Það ásamt því að hreyfa mig út í náttúrunni daglega … í sama hvaða veðri. Með hundinum mínum mér við hlið. Það er minn lyfseðill. Hundurinn sjálfur er hinn besti sálfræðingur. Hans aðferð er reyndar sú að draga hugann frá sjálfri mér og að honum … það er jú miklu skemmtilegra að leika við hann eða gefa honum nammi heldur en að hugsa um eitthvað leiðinlegt. Hann verður seint talinn efni í svona meðferðarhund, þið vitið, þessi sem fer í heimsóknir á elliheimili. Hann er sérlundaður og knúsar þegar honum hentar. En hann er samt æði. Að fara með hann út að labba í snjóbyl og sjá hann stinga nefinu ofan í snjóinn eins og Al Pacino ofan í kókaínhrúgu fær mann til að brosa og gleyma öllu öðru. Allt ofantalið ásamt hressilegri göngu með dúndrandi rapp frá 90ogeitthvað í eyrunum er það sem fær mig til að höndla lífið betur. Að ógleymdri samveru með fólkinu mínu.

Boðskapur þessa pistils er sem sagt:

  • Þú ert nóg
  • En þú þarf samt að næra þig andlega
  • Finndu hvað virkar fyrir þig og stundaðu það, sama hvað lítið eða hversu mikið
  • Fáðu þér hund 🙂

Í næsta sjálfsræktarpósti ætlum við svo að deila með ykkur góðum bókum sem leggja rækt við andann. Ef þú ert með ábendingu eða leggja orð í belg um málefnið má alltaf senda okkur línu í gegnum facebook eða instagram. Svo minnum við á eldri velferðarpósta hér á Skeggja. T.d. um morgunrútínu – hér -, heimajóga – hér – , þakklæti – hér – og guasha – hér – .

Ást og friður

M

Heima-jóga

Ég hef mjög lengi haft áhuga á jóga og hugleiðslu…en ekki verið mjög virk í iðkun. Það hljómar kannski mjög vel að segjast hafa áhuga á þessum málefnum…verra að gera ekkert í því 😉

Þó svo að tíðafarið síðastliðið ár hafi kannski ekki boðið upp á að henda sér á jóganámskeið má finna fullt af flottu efni á netinu….og setja bara upp sitt eigið jóga/hugleiðslu stúdíó. Eins og mín er von og vísa þarf ég alltaf að taka langa atrennu á því að byrja á einhverju en loks hafðist það. Við systur ákváðum að hittast hér heima og taka einn jógatíma saman. Við fundum efni á youtube og notuðumst svo við jógaflæði sem við kunnum síðan “wayback” (þegar ég í raun og veru fór á námskeið). Að lokum tókum við leidda hugleiðslu sem við sömuleiðis fundum á netinu.

Eins og alltaf þegar ég geri eitthvað svona finn ég ávinninginn strax. Bara við það að setja slakandi tónlist á, kveikja á reykelsi og kerti, deyfa ljósin og setja sig í þennan gír, róast hugurinn og leitar inn á við. Jógað sjálft er svo auðvitað bara dásamlegt fyrirbæri og reynir vel á, þrátt fyrir rólegt flæðið. Það er líka bara eitthvað við það að hreyfa sig með meðvitund, finna fyrir líkamnum og anda inn í krankleikana…mæli með því 🙂

Ég get ekki mælt nógu mikið með hugleiðslunni sem við fórum í en hún er á vegum hjóna sem kalla sig Boho Beautiful. Þau eru með rás á youtube og bjóða upp á bæði hugleiðslur og jóga. Þessi tiltekna hugleiðsla heitir “15 Minute Guided Meditation To Find Peace In Uncertain Times”. Og hverjum vantar ekki að finna frið á þessum óvissutímum?

Það var svo extra bónus og kannski viðskiptahugmynd fyrir einhvern að hafa hundana með í jóganu….en kannski ekki í hugleiðslunni 😉

Magga

Haustið

Haustið er nýi uppáhalds tíminn minn. Þetta haust sem nú er senn að líða hefur opnað augu mín fyrir hveru frábær þessi árstími er. Sumarið og vorið hafa alltaf verið minn tími og ég hef talið niður dagana þar til ég get farið í ferðalög um landið, skipulagt lautarferði, gönguferðir og byrjað að sá fræjum og byrja að dúllast í sumarblómum. Enda veit ég fátt meira gefandi og skemmtilegt en rækta og stússast í blómum og gróðri almennt.

Hérna á Íslandi getur verið varasamt að setja miklar væntingar og plön á sumarið, sérstaklega ef gert er ráð fyrir sól og blíðu í þeim plönum. Sjálf hef ég stundum upplifað stress þegar góðveðurs dagar mæta, því ég er með svo mikið sem ég ætla að gera; bjóða vinum í grill, fara í langa gönguferð með nesti út úr bænum og svona mætti lengi telja.

Þetta haust hefur verið ótrúlega milt. Veðrið var mjög fallegt og bauð upp á skemmtilega útiveru á fallegum stöðum. Ég hef eignast fullt af uppáhaldstöðum við Hafravatn, í hrauninu við Hafnafjörð og í Heiðmörk. Sérstaklega hefur það verið gott að komast út í náttúruna á þessum sérstöku og erfiðu tímum sem við erum að lifa: Mér hefur fundist bæði mjög gott að rölta ein um með voffa mínum og tæma hugann, bara njóta fallegu náttúrunnar og vera algerlega i núinu eða hitta góðan vin eða ættingja sem annnars hefði ekki verið hægt að hitta í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu, þar sem margir þurfa að fara sérstaklega varlega. Þarna gefst þá tækifæri til að rölta um og spjalla,annað hvort með hæfilegri fjarlægð eða með grímur. Hlúa þannig að andlegu og líkamlegu heilbrigði.

Hluti af ástæðunni fyrir því hversu vel ég naut haustins, töluvert betur en sumarsins, er sú að ég var ekki með neinar væntingar. Ég tók bara hverjum góðviðrisdeginum fagnandi og naut hans í botn.

Það er sennilega ákveðin lærdómur falinn í þessu; að gera ekki of miklar væntingar og best er að geta bara notið hvers dags eins og hann kemur fyrir.

Njóttu dagsins!

Stína