Heima-jóga

Ég hef mjög lengi haft áhuga á jóga og hugleiðslu…en ekki verið mjög virk í iðkun. Það hljómar kannski mjög vel að segjast hafa áhuga á þessum málefnum…verra að gera ekkert í því 😉

Þó svo að tíðafarið síðastliðið ár hafi kannski ekki boðið upp á að henda sér á jóganámskeið má finna fullt af flottu efni á netinu….og setja bara upp sitt eigið jóga/hugleiðslu stúdíó. Eins og mín er von og vísa þarf ég alltaf að taka langa atrennu á því að byrja á einhverju en loks hafðist það. Við systur ákváðum að hittast hér heima og taka einn jógatíma saman. Við fundum efni á youtube og notuðumst svo við jógaflæði sem við kunnum síðan “wayback” (þegar ég í raun og veru fór á námskeið). Að lokum tókum við leidda hugleiðslu sem við sömuleiðis fundum á netinu.

Eins og alltaf þegar ég geri eitthvað svona finn ég ávinninginn strax. Bara við það að setja slakandi tónlist á, kveikja á reykelsi og kerti, deyfa ljósin og setja sig í þennan gír, róast hugurinn og leitar inn á við. Jógað sjálft er svo auðvitað bara dásamlegt fyrirbæri og reynir vel á, þrátt fyrir rólegt flæðið. Það er líka bara eitthvað við það að hreyfa sig með meðvitund, finna fyrir líkamnum og anda inn í krankleikana…mæli með því 🙂

Ég get ekki mælt nógu mikið með hugleiðslunni sem við fórum í en hún er á vegum hjóna sem kalla sig Boho Beautiful. Þau eru með rás á youtube og bjóða upp á bæði hugleiðslur og jóga. Þessi tiltekna hugleiðsla heitir “15 Minute Guided Meditation To Find Peace In Uncertain Times”. Og hverjum vantar ekki að finna frið á þessum óvissutímum?

Það var svo extra bónus og kannski viðskiptahugmynd fyrir einhvern að hafa hundana með í jóganu….en kannski ekki í hugleiðslunni 😉

Magga

Hollustuhornið : Basilíka

Vissir þú að áður fyrr var basilíka merki ástarinnar á Ítalíu? Og að ef pottur með basilíku var settur út í glugga var það merki um að eigandi plöntunnar væri til í ástarfund. Einnig hefur því verið fleygt að basilíkan sé kynörvandi og nafnið yfir plöntunar í Tuscany er einmitt Amorino….eða ástin litla. Ég sel þetta með kynörvandi áhrifin dýrara en ég keypti það en kannski gæti basilíka í innkaupakerru komið í stað ananasins á Seltjarnarnesi?

Photo by freestocks on Unsplash

Lækningamáttur basilíkunnar þykir augljós og hún notuð til þess að hreinsa hugann. Hún er rík af andoxunarefnum sem og k vítamíni og kalsíumi. Basilíkan styrkir lifrina og getur haft fyrirbyggjandi áhrif á krabbamein. Þá hefur hún jákvæð áhrif á öldrun húðarinnar og getur minnkað blóðsykur.

Það er því ekki spurning að basilíkan er nauðsynleg í mataræðið okkar. Að ekki sé minnst á hversu dásamlega og sem betur fer passar hún vel í flesta rétti; frábær í pastaréttina, fiskrétti, út á sallatið, pestóið…og svo er bara gott að stinga einu og einu blaði upp í sig.

Drífið ykkur út í búð og kaupið basilikíu, stingið nefinu ofan í og andið ilminum að ykkur og þið eruð komin til Ítalíu.

Ég minni svo á að Valentínusardagur nálgast, spurning um að úða í sig basilíku 😉

Magga