Hrekkjavökuhugmyndir

Í dag hefjast vetrarfrí í flestum skólum í höfuðborginni og svo vill svo skemmtilega til að hrekkjavaka er á næsta leyti. Hér koma tvær góðar hugmyndir fyrir þá sem vilja byrja þjófstarta hrekkjavökugleðinni.

Hauskúpa

Hér þarf bara stórt brauðbretti og fullt af hvítu nammi eða snakki. Við notuðum litlar hrískökur, poppkorn, djúpur, krítar, hvítar fílakúlur og bara það sem okkur datt í hug…bara ef það var hvítt. Í augu,nef og munninn notuðum við svo súkkulaði. Svo er bara að raða þessu upp svo hauskúpa myndist. Best er að byrja á augunum, nefinu og munninnum og raða hinu svo í kring. Einföld og skemmtileg hugmynd á hrekkjavöku-veisluborðið.

jkjkjkj

Nornakústar

Þessir krúttlegu nornakústar eru einfaldir í framkvæmd og setja svip á veisluborðið. Það sem þarf eru pappírsrör, saltstangir og sellófanpappír, einnig límband og band. Við klipptum út passlegan bút af sellófanpappírnum og límdum hliðarnar þannig að úr varð nokkurs konar poki. Þá skárum við saltstangirnar í tvennt, settum helminginn ofan í pokann, stungum rörinu ofan í, límdum og bundum fyrir. Og úr varð lítill nornakústur 🙂

Njótið vel og eigið skelfilega góða helgi…

M&S

Helgarplönin

Fimmtudagur og ekki seinna vænna að byrja að plana helgina. Um síðustu helgi fórum við í bíltúr upp í Hvalfjörð og stoppuðum við Hvalfjarðareyri. Þar er frábært að stoppa og ganga út að vitanum, skoða krabba, tína steina og vonast jafnvel til að sjá eins og einn Baggalút.

Við eyddum góðri stund á eyrinni og héldum svo áfram för okkar inn fjörðin. Hvalfjörðurinn er stundum svolítið gleymdur en þar eru fullt af fallegum perlum sem vert er að skoða. Í þetta sinnið stefndum við að sundlauginni á Hlöðum. Fyrirtakssundlaug sem er í sama húsi og Hernámssetrið. Þangað væri gaman að koma í næstu fjölskylduferð, kíkja á safnið og fá sér vöfflu á kaffihúsinu.

Mælum með Hvalfirðinum fyrir helgarrúntinn 🙂

Rútínan

Það er eitthvað notalegt við það þegar rútínan dettur í gang aftur eftir sumarfrí. Og þetta segi ég eiginlega mér þvert um geð…af því að ég er fyrst og fremst sumar manneskja og elska sumarfríin. Að þurfa ekki að láta klukkuna stjórna og jafnvel gleyma hvaða vikudagur er. En allt hefur sinn tíma og kannski er það einmitt það góða við þetta; að þetta er takmarkaður tími og svo dettum við aftur í gömlu góðu rútínuna. Reglulegur svefn, hollara mataræði….börnin farin að sofa fyrir miðnætti og allt það 🙂

Photo by Matt Ragland on Unsplash

Þessi tími hefur ákveðin sjarma og fullt af tækifærum. Nú er tíminn til að dusta rykið af dagbókinni og setja sér markmið fyrir veturinn. Hvort sem það eru heilsumarkmið eða önnur markmið. Þá eru einnig fullt af námskeiðum í boði sem gaman er að skella sér og efla færni sína….í bókfærslu eða jóga? Einnig hef ég alltaf gaman af því þegar hausttískan mætir á svæðið í búðirnar…hef aldrei fundið mig í stuttbuxum og ermalausum bol 😉

Photo by Cinthia Becher on Unsplash

Og að lokum, fyrir ykkur sem eiga lítil börn sem eru að hefa skólagönguna eða eru á yngsta stigi. Það er bara eitthvað svo óendanlega krúttlegt við skólatöskurnar og ritföngin, nestiboxin og allt það. Og fyrir þá sem ætla all in í nestis undirbúningnum er hægt að fá fullt af hugmyndum á pinterest.

Fögnum rútínunni og sjáum hið jákvæða við árstíðaskiptin.

Eigið góðan dag!

M

Snjókarlar í baði

Það er svo notalegt að koma heim eftir að hafa verið úti í vetrarkuldanum og fá sér heitt súkkulaði. Það kemur mörgum á óvart hversu auðvelt það er að útbúa ekta heitt súkkulaði. Áður fyrir fannst mér það vera svo flókið ferli og gerði það ekki oftar en einu sinni eða tvisvar á ári. Núna er það hinsvegar gert einu sinni til tvisvar í mánuði að meðaltali.

Um daginn fékk dóttir mín að hafa kósíkvöld með nokkrum bekkjarsystrum sínum. Þegar þær voru búnar að vera úti í garði að leika um stund komu þær inn kátar en kaldar. Þær báðu því um heitt súkkulaði og vildu svo að föndra. Einhverra hluta vegna varð úr þessu sykurpúða snjókarlaföndur, en ég hafði oft dáðst að skemmtilegum myndum af sætum snjókörlum í heitum súkkulaði bolla á Pinterest. Stelpurnar gerðu sér svo sæta sykurpúða snjókarla sem fengu að skella sér í heitt og notalegt bað ofan í súkkulaðibollanum.

Mjög skemmtileg stund þar sem slegnar voru tvær flugur í einu höggi; föndur og saddur magi.

Það sem þú þarft til að gera sykurpúða snjókarla:

  • sykurpúða
  • saltstangir
  • hlaup sem við klipptum til svo það líktist nefi
  • brætt suðusúkkulaði til að teikna munn, augu og hnappa á snjókarlana

Hér fylgir svo með uppskrift af heitu súkkulaði sem er afar gott:

Heitt súkkulaði

1 lítri mjólk, mér finnst það mjög gott í nýmjólk en ef ég er að fá mér rjóma út í þá er betra finnst mér að hafa það létt mjólk.

100 gr suðusúkkulaði, sumir vilja hafa meira af suðusúkkulaði en þetta magn finnst okkur í fjölskuldunni fullkomin blanda.

1-2 msk. sykur

1-2 tsk. íslenskt smjör

smá salt, bara rétt framan á hnífsodd

1 tsk. vanilludropar

Aðferð

Allt innihald sett í pott og hitað að suðu en samt ekki látið sjóða, bara þangað til súkkulaðið er alveg bráðnað. Súkkuðlaðinu er síðan hellt í bolla og borðið fram með þeyttum rjóma eða sykurpúða eða bara bæði 🙂

Verði ykkur að góðu!

Stína

Samvera

Þau geta verið mörg verkin sem dúkka upp í desember og kona getur óvart endað í geymslutiltekt…þegar hún í sakleysi sínu álpaðist inn í geymsluna til að ná í smá jólaskraut. Og verandi sú sem hún er endaði þetta með því að kjallarinn er á hvolfi; geymsludót á rúi og stúi, stafli af dóti sem er á leið á í Sorpu/Góða hirðinn og búið að rífa upp úr jólakössunum. Þegar staðan er svona læðist stressið aðeins að, þrátt fyrir yfirlýst markmið um stresslausan mánuð. Jólin koma nú samt og allt það….en þegar heimilið er svona er erfitt að finna friðinn.

Sunnudagurinn stefndi því í að fyrrnefnd kona yrði með hausinn ofan í kössunum og yngri unglingurinn yrði bara að hafa ofan af sér sjálfur. En sem betur fer bankaði skynsemin upp á og plönunum var breytt í skyndi. Annar sunnudagur í aðventu á miklu frekar að fara í notalega samveru og upplifun.

Hafnarfjörðurinn varð fyrir valinu og ömmu kippt með. Fyrsta stopp var jólaþorpið, en þar var eiginlega aðeins of mikið af fólki fyrir okkur þannig að við römbuðum inn í Hellisgerði.

Það var eins og að ganga inn í annan heim; upplýstur garðurinn og alls konar skuggsælli krókaleiðir þar sem börn hlupu um með vasaljós. Litla tjörnin í miðju garðsins var gegnfrosin og þar renndu sér bæði börn og fullorðnir. Sannkölluð töfraveröld sem endurnærði andann.

Sækjum í svona samverustundir og látum geymslutiltektina bara bíða.

Magga

Að vera einkabarn

Sonur minn er einkabarn. Ég hef oft velt fyrir mér kostum og göllum þess að vera einkabarn. Kostirnir eru svo sannarlega margir, næg athygli, hægt að leyfa meira en þegar mörg systkini eru. Meira í boði ferðalagatengt og ýmislegt í þá veru. Einkabörn þroskast líka oft hraðar og athygli og orka foreldranna fer í að sýna þeim og kenna ýmsa hluti sem ekki gefst alltaf tími til þegar mörg systkini eru.

En geta verið neikvæð áhrif við að vera einkabarn? Ég held að það geti verið mjög erfitt að vera einkabarn. Vonir og væntingar foreldranna eru á þessu einu barni. Það þarf svolítið að vera fullkomið. Ganga vel í skóla, ganga vel í vinnu, ekki leiðast út í óreglu eða óknytti. Standa sig vel í svo til flestu til að foreldrarnir geti nú verið stoltir af barninu sínu. Það er foreldrum mikilvægt að börnin þeirra komist til manns.

Öll börn þurfa ást, umhyggju og hlýju. Einhver sem er þeirra aðili. Það getur verið erfitt að deila athyglinni á milli margra barna en svo getur athyglin líka orðið of mikil þegar barnið er eitt og allra augu á því. Það er vandrataður meðalvegur að sýna rétt magn af umhyggju og ást til barnsins síns. Þá þarf líka að muna að þó við viljum vera vinir barnanna okkar, þurfum við líka að vera foreldrarnir og taka þá ábyrgð og ákvarðanir sem því fylgja.

Ég held að það geti oft verið ansi erfitt að vera einkabarn um leið og það er örugglega undurljúft á stundum líka.

Kristín Sk.

Beðið eftir jólunum

Nú styttist í aðventuna og tilvalið að minnast aðeins á jóladagatalið okkar Beðið eftir jólunum. Við erum afar stoltar af þessu dagatali sem við hönnuðum fyrir nokkrum árum og seljum fyrir hver jól.

Beðið eftir jólunum er aðventudagatal sem telur niður til jóla og býður upp á skemmtilega afþreyingu fyrir alla fjölskylduna á hverjum degi. Í dagatalinu eru föndurhugmyndir, uppskriftir, þrautir, fróðleikur og ýmislegt fleira.

Hægt er að kaupa dagatalið á vefverslun Skeggja.