Paris

I love Paris in the springtime söng einhver einhvern tímann og það er nú bara þannig að ég elska París á hvaða tíma sem er. Hef reyndar ekki verið þar um hávetur en um sumar, haust og nú; um vor. Og vorið er komið í París. Útsprungnar páskaliljur og sumarblóm í beðum og það sem betra var: Kirsuberjatréin og Magnolíutréin í fullum blóma. Yndisleg tilfinning að geta um stutta stund um snjólaust höfuð strokið.

Eins og vanalega var ég með langan lista af things to do og eins og vanalega er margt eftir á listanum. En það er nokkuð víst að ég fer aftur og saxa þá meira á listann. Í þetta sinn voru það aðallega fallegar og fótógenískar götur og kaffihús sem ég var á höttunum eftir. Það og jafnvel að lauma eins og einu eða tveimur söfnum inn í ferðina. En þar sem ég var með tvo unglinga með í för fór slatti af tímanum í að kíkja í búðir. Og það má 🙂

Ég ætla að leyfa myndunum að tala en hápunktarnir fyrir mig voru:

 • Gallerie Lafayetta verslunarhúsið – vegna fegurðar byggingarinnar. Hvolfþakið er guðdómlegt og frábært að fara upp á þak þar sem útsýnið yfir borgina er dásamlegt
 • L´Atelier des Lumieres – svokallað immersive listasafn, þ.e. þú situr inni í sýningunni. Verkum listamannanna er varpað á gólf og veggi. Mögnuð upplifun. Mæli svo með!
 • Cafe Carette – yndislegt kaffihús síðan 1927. Það er á nokkrum stöðum í París en við fórum á Place des Vosges sem er torg/garður sem gaman er að skoða.
 • Rölt um borgina – framhjá Notre Dame og svo framhjá Eiffel turninum…alltaf jafn dásamlegt að sjá þau 🙂
 • Lúxemborgargarðurinn – sérstaklega að sjá Medici gosbrunninn
 • Shakespeare & Company – dásamleg bókabúð sem gaman er að kíkja í
 • Samvera með köllunum mínum í þessari fallegu borg

A bientot!

Njótið dagins 🙂

M

Stokkhólmur

Stuttur pistill um Stokkhólm sem átti að koma hér inn um daginn. En hér kemur hann og vonandi getum við nú haldið áfram að ferðast áfram þrátt fyrir ástandið :/

Stokkhólmur er ein af mínum uppáhaldsborgum. Það er þægilegt að komast þangað, ekki nema tæpir þrír tímar, og auðvelt að komast inn í borgina frá Arlanda flugvell, ca. 20 mín. með lest. Þetta voru m.a. ástæður fyrir því að við völdum þessa borg í fyrstu utanlandsferðina á covid-tímum.

Við dvöldum á Radison Waterfront hótelinu sem er mjög vel staðsett, alveg við hliðina á lestarstöðinni og stutt frá Drottningatan og Ahlens City (sem er svokölluð department store). Hótelið var til fyrirmyndar í alla staði og morgunverðarhlaðborð fjölbreytt og gott.

Það er margt hægt að gera í Stokkhólmi og þessi árstími er fallegur í borginni. Við vorum heppin með veður þannig að það var gaman að rölta þarna um.

Ég mæli með:

 • heimsókn á Gamla Stan, elsta hluta Stokkhólms. Þröngar og sjarmerandi götur og litlar krúttlegar búðir. Algert möst að fara inn á Stortorget sem er elsta torgið í borginni.
 • Djurgarden, sem er ein af eyjunum sem borgin er byggð á. Þarna er m.a. Gröna Lund tívolíið, Skansen (dýragarður og nokkurs konar Árbæjarsafn), Nordiska Museet (norræna safnið) ásamt fleiri áhugaverðum stöðum. Einnig er fallegt að rölta þarna um á góðum degi.
 • Drottninggatan, aðal verslunargatan. Þar finnurðu fjölbreyttar búðir og einnig er Ahlens City þarna á horninu. Þar er að finna flest merki og snyrtivörur.
 • Biblioteksgatan, þar eru fínni merkin; Michael Kors, Hugo Boss og fleira. Einnig ein af mínum uppáhalds: & Other stories.
 • Södermalm, bóhem og krúttlegt hverfi með fallegum litlum búðum og krúttlegum kaffihúsum. Við reyndar náðum ekki að skoða þennan hluta Stokkhólms í þetta sinn. Pottþétt í næstu ferð!
 • bátsferð um skerjagarðinn. Gott úrval af ferðum um fallegan skerjagarðinn, flestar taka um 50 mínútur. Gaman að sjá borgina frá öðru sjónarhorni.

Við borðuðum á:

 • Vapiano – alþjóðleg keðja veitingahúsa sem bíður upp á ítalskan mat. Fljótlegt og gott.
 • Eataly, La Piazza – dásamlegur ítalskur veitingastaður, fínni en Vapiano. Frábær stemming á staðnum, gullfallegt rými og geggjaður matur. Einnig hægt að versla ítalskar sælkeravörur á neðri hæðinni.
 • Cafe Schweizer – kaffihús á Gamla Stan. Rabarbarakakan með vanillusósunni var æði!
 • Stenugns bageriet – kaffihús/bakarí rétt hjá Ahlens City. Bestu kardamommuhnútar sem ég hef smakkað, mæli svo með.

Ég sé að við höfum verið svolitið mikið í ítölskum mat í sjálfri Svíþjóð en það er í lagi…ég bætti það upp með að gera hinu sænska bakkelsi eða Fika eins og þeir kalla það, góð skil.

Ferðin var frábær í alla staða og það gerði mikið fyrir andann að komast aftur út í hinn stóra heim.

M

Að ferðast eða ekki ferðast…

“We travel not to escape life, but for life not to escape us.”

Síðasta eina og hálfa árið hefur verið skrítið fyrir okkur öll og fyrir flesta lítið um ferðalög. Ég elska að ferðast, að sjá nýja staði og upplifa nýja hluti. Að “týnast” í stórborg og rápa um er eitt að skemmtilegasta sem ég veit. Það er bara eitthvað svo gott að sjá lífið fyrir utan Ísland. En þar sem ég hef líka tilhneigingu til að ofhugsa hlutina og mikla fyrir mér hafa ferðalög á þessum tíma ekki virkað spennandi. Fyrr en núna.

Ofhugsarinn ég fór nefnilega loks í sína fyrstu utanlandsferð á covid tímum. Það var vissulega erfitt að taka þessa ákvörðun og auðvelt að sannfæra sig um að það væri bara best að vera heima. Ofhugsarar höndla nefnilega ekki mikla óvissu og eiga auðvelt með að fara í “hvað-ef” pakkann.

Ég hef fylgst með fólki skottast út í heim og smátt og smátt sannfærst um að kannski væri þetta bara í lagi. Þegar ég sé svo mynd af fyrrverandi vinnufélaga komna lengst suður í álfu, verandi þó nokkrum árum eldri en ég, ákvað ég að nú væri nóg komið.

Eftir að hafa velt nokkrum borgum fyrir okkur (Edinborg, Kaupmannahöfn, Amsterdam, Stokkhólmur) varð Stokkhólmur fyrir valinu. Við höfum komið þarna áður og borgin er bæði falleg og þægileg. Stór hluti af ákvarðannatökunni var hversu auðvelt væri að komast þangað, hverjar innkomukröfurnar í landið væru og einnig að borgin krefðist ekki mikilla ferðalaga með almenningssamgöngum.

Það er gott að gefa sér góðan tíma á flugvellinum þar sem allt tekur lengri tíma. Við vorum búin að tékka okkur inn online og þegar við komum á völlinn var röðin frekar löng. Við gátum hins vegar farið í self-service kassana og klárað innritunina, þ.e. prentað út töskumiðana og brottfararspjöldin. Því næst var farangrinum skilað og þar var engin röð. Ekki er gerð krafa um að vera með grímur á flugvellinum en það eru þó vinsamleg tilmæli. Það er hins vegar skylda að vera með grímu um borð í vélinni. Þó er leyfilegt að taka hana af til að drekka og borða. Þetta reyndist hið minnsta mál og flugið var hið ánægjulegasta.

Að komast inn í Svíþjóð er ekkert mál. Engar kröfur eru gerðar á ferðamenn sem koma frá Íslandi og þú í raun og veru gengur bara inn í landið. Og eftir að komið er inn í borgina var ósköp lítið sem minnti á faraldurinn. Einstaka skilti sem minnti á að halda fjarlægð við næsta mann.

Að sama skapi gekk heimferðin vel. Bara muna að hafa bólusetningaskírteinið í símanum og vera búin að skrá þig inn í landið (pre-registration). Við þurftum að sýna þetta tvennt við innritunina á Arlanda og innritunin var eins og gefur að skilja frekar hæg, það þarf jú að yfirfara fleiri atriði hjá hverjum farþega en áður. Arlanda er ótrúlega þægilegur völlur og ekkert stress í gangi þar.

Þegar til Íslands var komið var allt ósköp svipað og áður, þ.e. ef þú ert að koma frá löndum sem eru á svipuðum stað og Svíþjóð. Þú þarft að fara í covid próf en getur ráðið hvort þú gerir það á vellinum eða innan tveggja daga frá heimkomu. Við völdum að leysa þetta af á flugvellinum og það gekk hratt fyrir sig. Rétt fyrir miðnætti á heimkomudeginum fengu allir úr hópnum niðurstöðurnar. Í þessum 10 manna hóp fengu allir neikvætt úr prófinu 🙂

Allt í allt vel heppnuð ferð og ofhugsarinn hefði getað sleppt nokkrum lotum af ofhugsunum við undirbúning ferðarinnar.

Magga

 • meira um Stokkhólm í næsta pósti 🙂

Helgarferðin

Við áttum erindi til Akureyrar um þar síðustu helgi og hefðum ekki getað hitt á betri helgi. Veðrið var dásamlegt; sól og blíða og bærinn fullur af lífi. Sannarlega kærkomin tilbreyting frá súldinni fyrir sunnan…og reyndar því leiðindaveðri sem herjar á allt landið þessa dagana.

Það var ekki laust við að útlanda tilfinning lægi í loftinu. Alls staðar var fólk að spóka sig og kaffihús og veitingastaðir smekkfullir af fólki, sérstaklega útisvæðin.

Akureyri hefur alltaf heillað mig og hvað þá í svona blíðu. Bærinn er einstaklega fallegur og margt skemmtilegt hægt að gera. Sundlaugin klikkar ekki, ferð á Grænu könnuna er möst og svo þarf auðvitað að kíkja í nokkrar búðir.

Listagilið er skemmtilegt svæði en þar er fallegt að labba um. Ég lét loks verða af því að kíkja inn á Listasafnið á Akureyri og hitti þar á mjög flotta samsýningu í Ketilhúsinu og einnig var flott sýning á verkum Errós á fjórðu hæðinni. Þá heilluðu verk Lilýar Erlu Adamsdóttir mig mikið.

Á svona sólardögum er líka tilvalið að kíkja í Lystigarðinn og spóka sig þar…leggjast jafnvel niður í grasið og sóla sig um stund.

Að lokum er varla hægt að minnast á Akuryeri án þess að tala um Brynjuís…en það er ekki hægt að fara til Akureyrar án þess að fá sér einn…jafnvel tvo Brynjuísa 🙂

Ég mæli svo sannarlega með ferðalagi til Akureyrar. Við komum til baka endurnærð og eilítið sólbrunnin á nefinu.

Magga

París

Hvenig væri að bregða sér í smá ferðalag….hugrænt ferðalag að vísu. Það er víst ekki margt annað í boði þessa dagana. En það styttist vonandi í að hægt sé að ferðast aftur og þangað til er allt í lagi að láta sig dreyma.

Place de Vosges er elsti skipulagði garðurinn/torgið í París og er í Le Marais hverfinu.

Ein af mínum uppáhaldsborgum…jafnvel sú sem vermir fyrsta sætið…er París. Ég kom fyrst til Parísar í brúðkaupsferð árið 2001 og hef verið svo heppin að komast þangað nokkrum sinnum eftir það. Maðurinn minn hefur átt vinnutengt erindi einu sinni á ári síðustu árin og tilvalið að bregða sér stundum með 🙂

Notre Dame í viðgerð en samt tignarleg

París er dásamleg borgin. Hún er þægileg, ekki alltof stór og þrátt fyrir alræmda mýtu hef ég ekki orðið vör við að frakkar séu eins dónalegir og af er látið. Þvert á móti eru þeir vinalegir og hjálplegir. Ég hef gist í nokkrum hverfum í þessum ferðum mínum. Í fyrstu ferðinni vorum við í Mont Martre, rétt hjá rauðu myllunni. Það var ágætt enda líflegt og skemmtilegt hverfi og algerlega ómissandi að skoða Sacre Cour kirkjuna. Það er líka mjög fínt að gista í hverfinu í kringum Sigurbogann, stutt að fara að mörgum merkilegum stöðum…og auðvitað í búðirnar.

Uppáhaldshverfið mitt er þó Le Marais, stundum kallað Mýrin. Þar má finna gamlan sjarma í húsum og hinum þröngu götu, fullt af kaffihúsum og veitingastöðum. Le Marais er frekar miðsvæðis og stutt að ganga niður að Signu og skoða Notre Dame sem nú er í yfirhalningu eftir brunann skelfilega.

En hvað er það sem gerir París svona ómótstæðilega? Ég veit það ekki….það er bara eitthvað við hana. Andrúmsloftið og byggingarnar, öll sagan og arkiterktúrinn…maturinn og fólkið. Það er algert möst að fara á eitthvað af listasöfnunum þegar dvalið er í borginni og má þá kannski helst nefna Louvre og Museé d´Orsay. En einnig er fullt af öðrum söfnum sem vert er að athuga og ég er þegar kominn með nokkur á listann fyrir næstu ferð.

Le Louvre hýsir marga ómetanlega gripi.

Sigling á Signu er líka eitthvað sem vert er að gera og hægt er að finna stoppistöð fyrir bátana stutt frá Eiffel turninum. Og það er auðvitað eitthvað sem allir ættu að gera; að fara upp í Eiffel turninn….magnað fyrirbæri og eitthvað svo “íkonískt”. Þegar við fórum til Parísar með strákana okkar tvo var það efst á óskalistanum að fara upp í Parísarturninn (eins og sá yngri kallaði hann). Sú ósk rættist og var hann hæst ánægður með það.

Ómissandi að kíkja á þennan þegar farið er til Parísar.

Að vera í París með börn er mjög þægilegt og okkar drengir elskuðu borgina jafn mikið og við….og geta ekki beðið eftir að komast aftur.

Það er sennilega hægt að skrifa töluvert lengri pistil en þennan um þessa einstöku borg en ég læt staðar numið hér…í bili 😉 Nú er bara um að gera að setja Edit Piaff á “fóninn”, elda eitthvað franskt og gott og fara til Parísar í huganum…það verður að duga í bili.

Au revoir

Magga