Vanillukransar

Við systur ákváðum að prufa nýja uppskrift af vanillukrönsum þetta árið. Gamla uppskriftin frá mömmu stendur samt alltaf fyrir sínu en það er líka gaman að prufa eitthvað nýtt. Helsti munurinn er sá að í þessari eru hakkaðar möndlur og komu þær bara vel út. Uppskriftina fengum við á síðu Bo Bedre og þar er hún titluð sem hvorki meira né minna en heimsins bestu vanillukransar. Þið getið smellt á Bo Bedre linkinn ef þið viljið lesa dönsku uppskriftina. En hér kemur hún á íslensku:

Þetta þarftu:

175 gr. sykur

200 gr. mjúkt smjör

1 egg

250 gr. hveiti

75 gr. möndlur

1 vanillustöng

***

Svona gerir þú:

Möndlurnar eru hakkaðar í matvinnsluvél og kornin í vanillustönginni skröpuð. Allt hært vel saman í hrærivél. Gott er að nota annað hvort sprautupoka með stjörnustút eða hakkavélina á Kitchen Aid-inu (og nota stjörnujárnið).

Deiginu er sprautað í litla hringi á bökunarpappír. Passa að hafa bil á milli þar sem kransarnir geta runnið aðeins út.

Bakað við 200 ° í ca. 6 mínútur eða þar til þeir eru orðnir gylltir. Gott að kæla þá á rist.

Það er ekki tekið fram í dönsku uppskriftina að gott sé að kæla deigið í allavega 2 klst. áður en bakað er en það er eitthvað sem við höfum alltaf gert við svona bakstur. Þannig að við mælum með því 🙂

Njótið!

Magga & Stína

Toblerone smákökur

Þessar smákökur með ísköldu mjólkurglasi er bara kombó sem erfitt er að hafna. Þær eru tilvaldar í helgarbaksturinn eða til að henda í eftir skóla með svöngu smáfólki. Framkvæmdin er líka svo einföld að smáfólkið getur hjálpað til 🙂

Það sem þú þarft:

 • 120 gr. mjúkt smjör
 • 125 gr. sykur
 • 150 gr. púðursykur
 • 1 tsk. vanillusykur
 • 1/2 tsk. salt
 • 1 egg
 • 175 gr. hveiti
 • 1 tsk. hveiti
 • 1/2 tsk. matarsódi
 • 150 gr. toblerone, saxað

Aðferð:

 • Hrærðu saman smjör við sykur, púðursykur, vanillusykur og salt.
 • Bættu egginu við og hrærðu vel saman.
 • Settu hveitið, lyftiduftið og matarsódann saman við. Fínt að nota krókinn hér.
 • Að lokum seturðu toblerone-ið saman við og hrærir aðeins saman.
 • Leyfðu deiginu að bíða í ísskáp í ca. 1 klst.
 • Stilltu ofninn á 180 gr.
 • Búðu til litlar kúlur úr deiginu ( gott að miða við að kúlurnar séu aðeins stærri en valhnetur) og passaðu að hafa bil á milli þeirra á plötunni þar sem kökurnar renna út við baksturinn.
 • Bakaðu kökurnar í ca. 12 mínútur og leyfðu þeim að k´´ólna aðeins áður en þú gæðir þér á þeim.

Þær eru æðislegar með ískaldri mjólk eða uppáhaldsteinu úr uppáhaldsbollanum. Þó að þessar kökur séu ekki endilega hugsaðar í jólabaksturinn…enda langt í hann…grunar mig að þær eigi eftir að vera bakaðar í desember.

Njótið!

Magga

 • Uppskriftin kemur úr tímaritinu Mad og Bolig

Enskar skonsur

Í framhaldi af póstinum okkar um síðdegisteið kemur hér uppskriftin af skonsunum sem við buðum upp.

Það var búið að vera lengi á listanum að baka ekta enskar skonsur en einhvern veginn hafði aldrei orðið úr því. Þetta var því fínt tilefni til að spreyta sig í skonsubakstri. Útkoman lukkaðist svona líka vel og ég held ég haldi mig bara við þessa uppskrift; skonsurnar eru mjög léttar og loftkenndar og afar bragðgóðar.

Innihald

2 bollar hveiti

2/3 bollar mjólk

1/4 bollar sykur

85 gr. ósaltað smjör

4 tsk. lyftiduft

1/2 tsk salt

1 stórt egg

Aðferð

Stilltu ofninn á 210 gr.

Blandaðu hveiti, lyftidufti, sykri og salti saman í skál.

Skerðu smjörið í litla bita og myldu út í deigið. Best er að nota hendurnar og nudda hveitið og smjörið saman, þar til þetta líkist kexmylsnu.

Blandaðu egginu og mjólkinni saman í aðra skál. Gott að hræra það létt saman.

Helltu blöndunni út í þurrblönduna en geymdu ca. 2 msk. af eggjablöndunni til að smyrja yfir skonsurnar. Hrærðu vel saman.

Hnoðaðu deigið létt saman á hveitistráðri borðplötu. Ekki hnoða of mikið.

Flettu deigið svo út í ca. 4 cm þykkt. Stingdu svo út skonsurnar, annað hvort með glasi eða skonsujárni.

Smurðu eggjablöndunni yfir og bakaðu í ca. 13-15 mín. eða þar til þær eru gullnar og hafa ca. tvöfaldast í hæð.

Samkvæmt hefðinni eru skonsurnar bornar fram með rjóma sem kallast “clotted” rjómi og sultu. Ég hef aldrei lagt í að gera svoleiðis rjóma en læt smjör, ost og sultu duga. Enda er ég svo sem ekki aðalskona heldur sjómannsdóttir að vestan 🙂

Njótið!

Lungamjúkt og gómsætt döðlubrauð með kaffinu

Það var mikið að gera í framkvæmdum á heimilinu í vikunni sem er að líða. Maðurinn minn var í fríi eftir að hafa veriðð 4 vikur á Grænlandi svo við notuðum tækifærið til að reyna að saxa aðeins á framkvæmdalistan í húsinu. Efst á lista var rafmagnsvinna og að mæla fyrir nokkrum gluggum. Við fengum smið og rafvirkja til að koma og vinna hjá okkur og eins og alltaf þegar fólk er að vinna hjá okkur finnst mér nauðsynlegt að bjóða uppá eitthvað gott með kaffinu. Ég fann því þessa dásamlegu uppskrift af döðlubrauði inn á hun.is. Brauðið var virkilega gott og rann ljúft niður með kaffinu.

Innihald:

 • 2 bollar hveiti
 • 1 bolli sykur
 • 1 bolli döðlur
 • 1 bolli vatn
 • 1 tsk matarsódi
 • 1 msk smjör
 • 1 egg
 • Ofan á brauðið ákvað ég að setja kókosflögur og möndlur en mér finnst það passa vel við bananabrauð og það kom líka mjög vel út með döðlubrauðinu.

Aðferð

 1. Döðlur, smjör og vatn sett í pott og látið malla í 2-5 mín. Þessu er svo skellt í hrærivél og hrætt þar til það er orðð maukað.
 2. Síðan er restini af hráefnunum bætt í hrærivélaskálina og hrært létt, mér finnst best að hræra bara smá stund og nota svo sleikjuna til að deigið verði ekki seigt.
 3. Deigið er sett í smurt formkökuform eða bökunarpappír settur í formið Þar sem ég er með frekar gömul bökunarform nota ég frekar bökunarpappírinn.
 4. Brauðið er svo bakað við 180 gráður á undir- og yrirhita í ca 50 mín.

Verði ykkur að góðu

Knús

Stína

Hjónabandssæla

Þessi einfalda og þægilega uppskrift kemur upprunalega frá Eldhússögur og hef ég bakað hana nokkrum sinnum. Hún er bragðgóð, fljótlega og eggjalaus…sem hentar vel ef einhver í fjölskyldunni er með eggjaofnæmi eins og tilfellið er í minni fjölskyldu. Það er því stórfínt að hafa eina svona uppskrift í handraðanum til að bjóða upp á eggjalaust góðmeti.

Ég fylgi uppskriftinni frá Eldhússögum að mestu en þar sem hún átti það til að vera þurr hjá mér bætti ég smá dassi af Ab-mjólk til að fá meiri vökva. Þeir sem þurfa ekki að hafa áhyggjur af eggjaofnæmi gætu hæglega bætt eins og einu eggi út í. Einnig minnkaði ég aðeins sykurinn í uppskriftinni. Ekkert svakalega en samt aðeins….hænuskref þið vitið 😉

Hráefni

 • 220 g haframjöl
 • 250 g hveiti
 • 100 g kókosmjöl
 • 140 g púðursykur
 • 100 g sykur (má vera hrásykur eða muscovado sykur)
 • 250 g smjör
 • 1 -1.5 dl ca. rababarasulta, eða jarðaberjasulta

Aðferð

Ofninn hitaður í 200 gr. (undir- og yfirhiti). Hráefnunum er blandað í skál og hrært saman, ég nota krókinn en einnig er hægt að nota bara hendurnar. Kökuformið smurt, ég notaði hringform af stærri gerðinni. Meirihlutanum af deiginu, ca. 3/4 hluti, er þrýst ofan í botninn, sultunni smurt yfir og restinni af deiginum sáldrað yfir sultuna. Ég hef líka stundum flatt afganginn af deiginu út, skorið út í strimla og lagt yfir. Bakað í 20 – 26 mínútur.

Á þessum vota og vindasama mánudegi er tilvalið að henda í eina svona.

Magga

Þriðjudagsbaksturinn

Er ekki vel við hæfi að gæða sér á góðri köku á þessum blauta þriðjudegi? Á meðan maður heldur sér í borðbrúnina og bíður eftir næsta skjálfta.

Þessi kaka er í algjöru uppáhaldi hjá okkur og á að hafa verið uppáhalds kaka Viktoríu drottningar. Hún kunni víst vel að meta að gæða sér á henni með síðdegisteinu sínu.

Kakan er lítillát í útliti en leynir aldeilis á sér og er virkilega góð.

Victoria Spongecake

Botnar:

225 gr. mjúkt smjör

225 gr. sykur (eða hrásykur)

1 tsk. vanilludropar

4 egg

225 gr. hveiti

1 tsk. lyftiduft

4 msk. mjólk

“Bring me a cup of tea and the ‘Times.’”

— Queen Victoria

Aðferð:

Smjör og sykur hrært saman þar til ljóst og létt.

Eggjum bætt við og hrært vel á milli.

Vanilludropar settir saman við.

Að lokum er þurrefnum blandað varlega út í.

Krem

100 gr. ósaltað smjör

100 gr. flórsykur, sigtað

2 dropar vanilludropar

Hrært vel saman þar til orðið ljóst

Bakað í tveimur 21 cm formum með lausum botni í 180° í ca. 20 mínútur eða þar til losna frá brúnunum.

Smyrjið annan botninn með hindberjasultu og hinn með kreminu. Setjið svo botnana saman og njótið!

Það skemmir svo ekkert að leggja fallega á borð og setja sig í royal stellingar, það er nú einu sinni þriðjudagur.

Njótið!

Rabarbarasnittur

Veðrið í gær olli því að ég fékk algerlega ótímabæran vorfiðring og hvað er vorlegra heldur en rabarbari? Það er reyndar langt í vorið en styttist með hverjum deginum. Af hverju ekki að henda í þessar dásamlegu rabarbarasnittur og leyfa vorþráinni að dvelja um stund?

Það sem þú þarft:
125 g. smjör
220 g. hveiti
80 g. sykur
30 g. kókosmjöl
2 eggjarauður
ca. 200 g. rabarbarasulta

Fyrir glassúrinn:
200 g. flórsykur
ca. 1 eggjahvíta
Heitt vatn ef þarf
Kökuskraut

Aðferð:
1. Myldu smjörið í hveitið. Mér finnst best að setja það út í í litlum bitum og setja svo vel hreinar hendurnar í það og nudda hveitinu og smjörinu saman, þar til það líkist mylsnu. Bættu svo sykrinum og kókosmjölinu út í.
2. Settu eggjarauðurnar út í og hrærðu saman (ég notaði ká-ið). Ef deigið er of þurrt er í lagi að bæta einni eggjarauðu til viðbótar.
3. Pakkaðu deiginu inn í plastfilmu og geymdu í kæli í ca. klukkutíma.
4. Skiptu deiginu í tvær kúlur og flettu þær út, helst í tvö jafnstór stykki. Best er að fletja það út á bökunarpappírnum.
5. Smyrðu rabarbarasultunni á annan hlutann og legðu svo hinn hlutann ofan á. Þrýstu þessu aðeins saman.
6. Bakist í miðjum ofni við 175 g. hita í ca. 15 mínútur eða þar til deigið er farið að verða aðeins gullið. Ef kakan bólgnar aðeins upp þegar hún er tekin út er sniðugt að snúa henni á hvolf eða leggja eitthvað flatt ofan á hana í smástund (t.d. annarri bökunarplötu). Við þetta verður kakan alveg slétt.
7. Hrærið glassúrinn og skreytið kökuna (þegar hún er orðin köld).
8. Skerið hana í litla bita og njótið!

Ég ætla að leyfa hér að fljóta með fallegri mynd af frænkuskotti sem tekin var fyrir nokkrum árum en ungfrúin er einmitt að gæða sér á þessum rabarbarasnittum úti í guðsgrænni náttúrunni 🙂

Verði ykkur að góðu!


Magga

Madeleines

Ég hef nokkrum sinnum komið til París og er fyrir löngu kolfallin fyrir þessari borg. Þar sem lítið er um Parísarferðir um þessar mundir er um að gera að færa smá Parísarfiðring heim í eldhús.

Þessar dásamlegu litlu kökur smakkaði ég fyrst í einni af ferðum mínum til Parísar. Þær eru loftkenndar litlar svampkökur og bragðgóðar og passa ljómandi vel með kaffi- eða tebollanum. Athugið að sérstök Madeleineform eru nauðsynleg fyrir þennan bakstur.

2 egg

3/4 tsk. vanilludropar

1/8 tsk. salt

1/3 bolli sykur

1/2 bolli hveiti

1 msk. rifinn sítrónubörkur

1/4 bolli smjör, brætt og kælt í smástund

1/3 bolli flórsykur til skrauts

Ofn hitaður í 180 – 190 gr.

Smjörið er brætt og látið kólna aðeins.

Egg, salt og vanilludropar hrært saman þar til létt og ljóst.

Sykrinum bætt út í og hrært vel saman (í ca. 5-10 mín)

Hveitið sigtað út í, smáskammt í einu og hrært varlega saman með sleif.

Deigið sett í formin og bakað í 14 – 17 mín.

Gott er að setja kökurnar á bökunargrind og strá fljórsykri yfir. Þær eru bestar nýbakaðar með uppáhalds teinu eða kaffinu.

Verði ykkur að góðu!

Magga

Börn og bakstur

Flestum börnum finnst mjög skemmtilegt að fá að baka og stússast í eldhúsinu. Þau byrja flest í heimilisfræði þegar þau byrja í skóla og vilja því oft fá að æfa sig þegar heim er komið.

Mér hefur fundist það að lofa dóttir minni að baka með mér líka vera góð leið til að æfa lestur og stærðfræði. Hún þarf að lesa uppskriftirnar og spá í hvað tsk, msk og dl þýðir. Eitt sinn ætlaði hún að útbúa kókoskúlur alveg sjálf og það gekk bara mjög vel, þar til í lokin. Þá kemur til mín með deigið sitt en það var greinilega of mikið af vökva í því. Hún hafði ekki áttað sig á að það skipti máli hvort maður notar matskeið eða desilítra mál og notaði því bara alltaf desilítra málið til að spara sér uppvask. Þetta var góð reynsla og hún lærði heilmikið af þessu.

Um daginn lofaði ég dóttur minni og frænku okkar að baka og þær fengu nokkuð frjálsar hendur um meðferðina á deiginu svo úr varð hin skemmtilegasta föndurstund. Stundum skiptir bara mestu máli að hafa gaman, fá að vera í flæðinu og leika sér með deigið.

Við styðjumst við nokkrar skemmtilegar uppskriftar bækur í okkar bakstursstundum. Þetta eru bækur sem við erum búin að eiga lengi og hafa verið mikið notaðar. Best þykir mér danska bókin Börnenes beste fester. Hún er auðveld og þægileg fyrir börnin til þess að fylgja sjálf skref fyrir skref.

Góða skemmtun í eldhúsinu með uppáhalds fólkinu ykkar 🙂

Stína

Einfalt og gott brauð við öll tækifæri

Það er fátt betra en nýbakað brauð. Dásamlegur ilmurinn í loftinu þegar maður kemur inn í eldhús fær flesta til að fá vatn í muninn. Við systur bökum mikið af brauð og því er mjög gott að eiga eina uppáhalds grunnuppskrift sem hægt er að grípa til við öll tækifæri. Í gær bauð ég upp á kjúklingasúpu og systir mín kom með nýbakað brauð.

Einnig hef ég gert snúða úr þessari uppskrift, bara bætt 1 tsk. af kardimommudropum við deigið. Þessi uppskrift hefur einnig verið notuð í pylsuhorn og skinkuhorn og allskonar útgáfur af brauð, bara láta hugmyndaflugið ráða.

Grunnuppskrift

4 tsk. þurrger

5 dl vatn eða mjólk við stofuhita

1 msk. sykur

1/2 tsk. gróft salt

2 msk. matarolía

600 gr. hveiti, gott að hafa 200 gr heilhveit og 400 gr hveiti eða bara það mjöl sem hentar þér best.

Gerinu er blandað saman við vökvan og sykurinn setur út í, þetta er látið bíða í 5 mín og hrætt aðeins á meðan svo allt blandist vel. Öllu blandað saman og hnoðað í vél. Síðan út bý ég þau brauð sem mig langar í hvert sinn, 2 stór, 4 lítill eða bollur. Ég er alveg hætt að láta hefast tvisvar sinnu, læt duga að brauðið hefist bara eftir að ég hef mótað það til og þá í 30-40 mín. Svo er brauðið bakað í ofni við 180-200 gr. þar til það er farið að lyfta sér vel og orðið gullið

Verði ykkur að góðu.

Stína