Lífið

 • Bóndadagurinn
  Í dag er bónadagurinn en sá dagur er einnig fyrsti dagur Þorra. Þorranum lýkur svo þann 20. febrúar á Konudeginum. Á þessum degi er um aðgera að gera vel við bóndann sinn, vinnsælt er að gera vel við hann í mat og drykk. Svo er alltaf gaman að koma honum á óvart með smá glaðningum. Hérna koma nokkra hugmyndir af því hvað hægt er að gera til að gleðja bónda sinn: Smyrja handa honum nesti til að taka með sér í vinnuna og lauma með miða með fallegri orðsendingu. Vekja hann með morgunmati í rúmið. Fara í vinnuna til hans í kaffitíma eða hádeginu og annað hvort bjóða honum á veitingarstað eða kaffihús eða færa honum eitthvað girnilegt bakelsi í vinnuna. Vera búin að panta barnapíu og bjóða honum í óvisuferð; út að borða, í bíó eða á kaffihús  Búa til lagalista með uppáhalds lögunum hans/ykkar, jafnvel lögum sem minna ykkur á fyrstu árin ykkar saman. Í gamla daga var þetta nú bara kallað mix-teip. Gefa honum frí frá því að svæfa börnin í kvöld… Koma börnunum í rúmið snemma og útbúa síðbúin rómatískan kvöldverð yfir kertaljósi með honum. Hafa kósý kvöld með honum einum og vera búin að kaupa uppáhalds nammið hans. Flýta þér út á föstudagsmorguninn og skafa rúðurnar á bílnum, ef verðrið er þannig. Útbúa handa honum freyðibað þegar hann kemur heim úr vinnunni. Búa til mynda-slide-show með myndum af ykkur í gegnum tíðina, t.d. hægt að nota vef eins og Smilebox sem býður upp á skemmtilegt form á svona slæðusýningu. Það er sem sagt hægt að gera heilmikið…og það þarf ekki að kosta neitt 🙂 Svo bjóða einnig mörg fyrirtæki upp á tilboð í tilefni dagsins þannig að það ætti að vera auðvelt að gleðja þessar elskur. Eigið góðan bóndadag. Knúses S
 • Góða veislu gjöra skal
  Þrettándin er í dag og eflaust einhverjir sem halda þeim gamla góða sið að kveðja jólin með því að gera vel við sig. Hér koma nokkrar hugmyndir að smurbrauði sem við vorum með í einni af veislunni um jólin. Magn matarins var að sjálfsögðu ekki í samræmi við gestafjöldann…sem var langt undir sóttvarnarreglum 😉 Við eigum ekki heiðurinn af öllum snittunum en Kristín Skj. vinkona okkar á heiðurinn af nokkrum. Það vill bara oftast verða þannig að more is more reglan er í gildi í okkar veisluhöldum. Þemað var óumræðilega danskt eins og vill gerast með smurbrauð og öl 🙂 Hér koma nokkrar hugmyndir að einföldu smurbrauði og snittum sem fínt er að bjóða upp á kvöld eða um helgina. Mynd t.v. Smurbrauð með kjúklingasallati* og stökku beikoni og smurbrauð með roastbeef og remúlaði. Bæði á dönsku rúgbrauði sem fæst t.d. í Brauð & co. Roast beefið og remúlaðið er frá Kjöthöllinni en án efa hægt að fá í flestum kjötbúðum. Báðar tegundir af smurbrauði eru smurðar með smjöri. Uppkrift af kjúllasallati er fyrir neðan. Mynd t.h. Smurbrauð með majonesi reyktri skinku, kartöflusalati og rauðbeðum á dönsku rúgbrauði. Hitt er á snittubrauði og er smurt með philadephia rjómaosti og ofan á er hráskinka og avacado. Mynd t.v. Tómatar og basilka skorin niður, góð olívuolía yfir ásamt salti og látið standa í ísskáp í 2 klst. Snittubrauð, rautt pestó, mosarella kúlur skornar í sneiðar og settar yfir og tómata og basilukumaukið ofan á ostinn – má skreyta með basilikublöðum ef vill. Mynd í miðju Naanbrauð með stökku beikoni, camenbert osti og rifsberjahlaupi. Mynd t.h. Rúgbrauð með rauðsprettu og radísum, skreytt með radísu og graslauk. Rúgbrauðið er smurt með smjöri. Borið fram með ísköldu öli að dönskum sið og að sjálfsögðu var eftirrétturinn danskar eplaskífur með flórsykri og sultu. Danskara gerist það varla. Vessgú! Uppskrift af kjúklingasalatinu á fyrstu mynd: Það sem þú þarft: 600 gr. eldaður kjúklingur – t.d. keyptur tilbúinn 1 bolli kirsuberjatómatar, skornir í helminga 1/2 lítill rauðlaukur, skorinn í þunna strimla 1 avocado, skorið í litla teninga 6 sneiðar steikt beikon, saxið í litla bita 3 harðsoðinn egg, skorin í litla bita 1/3 bolli majónes 1 1/2 msk sýrður rjómi 1/2 tsk Dijon sinnep 2 msk ólívuolía 2 hvítlauksrif, söxuð smátt 1 tsk sítrónusafi 1/4 tsk salt 1/8 tsk pipar Majónesi, sýrðum rjóma, sinnepi, ólívuolíu, hvítlauk, sítrónusafa og salti + pipar hrært vel saman í skál. Kjúkling, tómatar, rauðlaukur, avocado , beikon og egg sett út í. Blandað vel saman og smakkað til. Þetta kjúklingasalat hentar vel á smurbrauð en einnig gott í samlokur og tilvalið til að taka með í nesti eða lautarferðina….þegar sumarið kemur 🙂 Vessgú! Magga og Stína
 • Vanillukransar
  Við systur ákváðum að prufa nýja uppskrift af vanillukrönsum þetta árið. Gamla uppskriftin frá mömmu stendur samt alltaf fyrir sínu en það er líka gaman að prufa eitthvað nýtt. Helsti munurinn er sá að í þessari eru hakkaðar möndlur og komu þær bara vel út. Uppskriftina fengum við á síðu Bo Bedre og þar er hún titluð sem hvorki meira né minna en heimsins bestu vanillukransar. Þið getið smellt á Bo Bedre linkinn ef þið viljið lesa dönsku uppskriftina. En hér kemur hún á íslensku: Þetta þarftu: 175 gr. sykur 200 gr. mjúkt smjör 1 egg 250 gr. hveiti 75 gr. möndlur 1 vanillustöng *** Svona gerir þú: Möndlurnar eru hakkaðar í matvinnsluvél og kornin í vanillustönginni skröpuð. Allt hært vel saman í hrærivél. Gott er að nota annað hvort sprautupoka með stjörnustút eða hakkavélina á Kitchen Aid-inu (og nota stjörnujárnið). Deiginu er sprautað í litla hringi á bökunarpappír. Passa að hafa bil á milli þar sem kransarnir geta runnið aðeins út. Bakað við 200 ° í ca. 6 mínútur eða þar til þeir eru orðnir gylltir. Gott að kæla þá á rist. Það er ekki tekið fram í dönsku uppskriftina að gott sé að kæla deigið í allavega 2 klst. áður en bakað er en það er eitthvað sem við höfum alltaf gert við svona bakstur. Þannig að við mælum með því 🙂 Njótið! Magga & Stína
 • Mömmukökur
  Þetta er ein af mínum uppáhalds jólasmáköku uppskriftum og fátt minnir mig meira á æskujólin, heima á Þingeyri. Þá fékk maður alltaf að smakka nýbakaðr smákökur og síðan var þeim pakkað niður í box og geymdar til jóla, þetta fannst mér mjög erfiður siður sem gerði samt smáköku baksturinn svo hátíðlegan. Uppskrift 125 gr sykur250 gr sýróp125 gr smjör1 egg500 gr hveiti2 tsk matarsódi½ tsk engifer1 tsk negull1 tsk kanill Hitið sýrópið aðeins, síðan er öllum innihaldsefnum blandað saman í hrærivél. Hnoðið og setjið í kæli yfir nótt. Fletjið deigið fremur þunnt út og stingið út kökur. Bakið við 190° þar til kökurnar verða millibrúnar eða í uþb 5-7 mínútur. Krem: 2 bollar flórsykur1 eggjarauða3 msk smjör 1 msk kaffi2 msk rjómi½ tsk vanillusykur Þeytið flórsykur og eggjarauðu saman. Blandið smjöri, rjóma og vanillusykri saman við. Þegar kökurnar eru orðnar kaldar eru þær lagðar saman tvær og tvær með kreminu á milli. Verði ykkur að góðu S
 • Listamaður að störfum
  Við erum afar stoltar af því að geta nú boðið upp á listaverk Galactic Deer til sölu. Galactic Deer er myndskreytir og grafískur hönnuður og hefur búið á Íslandi í þrjú ár. List Deer fókusar mikið á LGBTQ, fanart og einnig á allt sem tengist himingeimnum, stjörnunum og stjörnumerkjunum. Deer er sjálflærður listamaður og hefur listin alltaf verið stór hluti af lífi háns. Deer ætlar nú að selja myndirnar sínar í gegnum Skeggja. Deer tekur einnig við sérpöntunum og hafa sérpantaðar portrett- eða paramyndir háns verið vinsælar gjafir. Galactic Deer er með: heimasíðu instagramreikning youtube rás Nýjasta viðbótin eru svo stjörnumerkjamyndir Deer en þær eru nú fáanlegar í vefverslun Skeggja eða með því að hafa beint samband við Deer. Myndirnar eru unnar með vatns- og akríllitum og þegar þær eru fullunnar eru þær skannaðar inn og prentaðar út á hágæða pappír. Myndirnar eru fáanlegar í nokkrum stærðum og verða allar merktar af Deer. Flest af merkjunum eru nú þegar komin í sölu á vefsíðunni og fleiri væntanleg. Hér eru nokkur sýnishorn. Endilega kíkið á úrvalið, alltaf gaman að styðja flott ungt listafólk. Ást og friður Magga & Stína
 • Smoothies með döðlum og turmerik
  Ég var að prufa mig áfram með drykk og blandaði þá þennan ljúfenga smoothie. Ég samt aðeins að vandræðast með orðið smoothie er ekki eitthvað gott orði yfir það á íslensku ? Innihald í drykknum er: 1 bolli möndlumjólk 1/2 banani 1/2 bolli frosinn bláber helst íslensk aðalbláber 1/2 tsk. túrmerik 1/2 tsk. kanill 1 msk chiafræ 4 mjúkar döðlur Þessu er öllu blandað saman í matvinnsluvél og drukkinn helst ekki með röri samt. Ástæðan fyrir því að ég drekk ekki smoothie með röri er að ég las einhversstaðar að við það að drekka svona drykki fari meltingin framhjá 1. stigi í meltingarferlinu. Þar af leiðandi fer fæðan miklu hraðar og einnig sú að við það að drekka með röri þá eru meiri líkur á að loft komi með. En svo verður hver að meta fyrir sig hvað er best. Innihaldsefnin eru í miklu uppáhaldi hjá mér vegna heilsusamlegra áhrifa þeirra. Möndlumjólk: Er uninn úr möndlum og þær eru stútfullar af vítamínum og steinefnum. Þær innihalda  til dæmis kalk, E vítamín, magnesíum og B2 vítamín en það eru mikilvæg næringarefni fyrir líkamann. Þær eru ríkar af trefjum, innihalda góða og holla fitu og eru auk þess mjög próteinríkar, sjá meira um möndlur og heilsusamleg áhrif þeirra hér. Kanill hefur verið notað af mannkyninu í þúsundir ára, sem krydd og í læknisfræðilegum tilgangi.Núverandi rannsóknir er nú að leggja vísindin á bak við hlutverk kanils er sem náttúrulega andstæðingur-veiru, andstæðingur-gerla, blóðsykur og kólesteról háþrýstings og hugsanlega hjálp fyrir liðagigt og Alzheimer, sjá meira. Bananar: Þeir eru mjög trefjaríkir og fullir af vítamínum og steinefnum. Má þar helst nefna kalíum, B6-vítamín, C-vítamín og magnesíum. Hérna má sjá 25 góðar ástæður fyrir því að borða banana, sjá meira. Aðalbláber; þau eru stútt full af andoxunarefnum, góð fyrir meltinguna, sannköluð ofurfæða sem allir ættu að reyna að næla sér í, hérna er hægt að lesa heilmikið um aðalbláber og heilsusamleg áhrif þeirra. Turmerik: Er sagt allra meina bót og er meðal annars bólgueyðandi, verndar heila- og hjartastarfsemi og minnkar líkur á krabbameini, sjá meira hér. Chiafræ: Chia fræin eru sannkallaður ofurmatur sem fara sérlega vel í maga. Þau eru talin ein besta plöntu uppspretta omega-3 fitusýra sem vitað er um. Þau eru rík af andoxunarefnum og próteinum, innihalda allar lífsnauðsynlegu amínósýrurnar, eru rík af auðmeltum trefjum og því mjög góð fyrir hægðirnar. Chia fræ eru sömuleiðis sögð geta dregið úr bólgum í meltingarvegi og fita, prótein og góðar trefjar tempra einnig blóðsykurinn. Þá innihalda þau einnig gott magn af kalki, sinki, magnesíum og járni sjá meira um chiafræ. Döðlur: Þessi litli ávöxtur er troðfullur af vítamínum og öðrum nauðsynlegum efnum sem líkaminn þarfnast. Þú finnur A-vítamín, B1, E-Vítamín, riboflavin, niacin, fólín sýru, kopar, járn, zink og meira að segja magnesíum, sjá nánar hér. Njótið 🙂 S https://hollustaogheilsa.weebly.com/hugleiethingar-og-daglegt-liacutef/kanill
 • Dagbækur
  Ég hef í gegnum tíðina haldið dagbækur. Mér finnst gaman að skrifa í þær, stundum af því að lífið er svo skemmtilegt og stundum af því að það er svo erfitt og þá er gott að skrifa um erfiðleikana. Ég hef ekki skrifað hvern einasta dag en byrjaði að alvöru aftur að nota dagbækur þegar ég byrjaði í háskóla komin á fertugsaldur. Þá vildi ég hafa dagbók til að halda utan um það sem þurfti að gera í skólanum. En svo slæddist líka fullt af öðru skemmtilegu með. Ég átti mér uppáhalds dagbókarform, sem ekki fæst lengur. Ég var aðeins vængbrotin þegar þær dagbækur hættu að fást en tók gleði mína heldur betur á ný þegar þegar hún Magga mín sýndi mér dagbókina sína. Hún er ansi listræn hún vinkona mín og var með fallega bók með auðum síðum (eða síðum með punktum sem mynda kassa og auðvelda að teikna inn í bækurnar) þar sem hún teiknaði einfaldlega inn sína daga og skreytti að vild. Ég hef aldrei talið mig mjög listræna í þeim skilningi að teikna sjálf en ég er alveg ágæt í að setja eitt og annað saman og þó ég segi sjálf frá, þá kemur það ágætlega út. En sem sagt, árið 2019 fór ég að gera mínar dagbækur sjálf og skemmti mér mjög vel við það. Magga kynnti svo fyrir mér að á Pinterest er endalaust magn af hugmyndum til að gera fallega hluti í dagbækur ef maður slær inn leitarorðinu „bullet journal“ Fyrir meira en 10 árum datt mér í hug að skrifa niður nokkur orð um hverja utanlandsferð sem ég hafði farið í. Bæði langaði mig að finna út hvað ég væri búin að fara í margar utanlandsferðir og svo átti ég bara svo fallega bók sem var vel til þess fallinn. Ég var mjög glöð núna í haust að eiga allt það efni þegar ég ákvað að uppfæra hana og gera hana í „bullet journal“ formi. Til dagsins í dag hef ég farið í 33 utanlandsferðir. Mér finnst það bara þó nokkuð því þegar ég var ung voru þær ekki eins algengar og sjálfsagðar og þær eru í dag.  Ég er því búin að dunda mér við að skrifa eftir gömlu bókinni og endurgera minningarnar mínar. Ég skrifa ekki meira en blaðsíðu um hverja ferð og skreyti svo. Þannig að ein opna er fyrir hverja ferð, texti hægra megin og skreyting vinstra megin.  Ég hef sett límmiða með korti af hverju landi fyrir sig og svo skreyti ég með teikningum, límmiðum og ýmsu öðru sem ég hef viðað að mér. Ég keypti mér stórskemmtilegan prentara fyrr á árinu þar sem hægt er að prenta út litlar myndir á límmiða og svo líka á hvíta og litaða renninga. Læt mynd af honum fylgja með en ég fékk hann á paperang.com. Ég hef líka sett „ferðaquote“ inn á milli, eitthvað sem mér finnst fallegt og stemma við mig. Eins og ég sagði í upphafi, er ég ekki mjög listræn við að teikna og svoleiðis, en ég hef látið vaða í dagbækurnar mínar og þið fáið að sjá eitthvað að því. Þetta snýst líka bara um að ég sé sátt og ánægð, ég er ekki að þessu fyrir neina aðra. Það hefur ekki verið auðvelt að fá hérlendis fallega límmiða, blöð eða annað til að skreyta bækurnar með og því hef ég aðeins verið að panta á netinu. Svo er líka komið skemmtilegt verkefni í næstu utanlandsferðum: að leita að skreytingaefni til að fylla inn í bækurnar. Núna er ég semsagt með mína dagbók þar sem ég skrifa inn í hverjum mánuði og svo ferðadagbókina. Alltaf gott að hafa hobbý. Vona að þið fáið einhverjar hugmyndir og farið að leyfa ykkar listagyðju að njóta sín ef ykkur finnst þetta áhugavert. Kristín Sk.
 • Stokkhólmur
  Stuttur pistill um Stokkhólm sem átti að koma hér inn um daginn. En hér kemur hann og vonandi getum við nú haldið áfram að ferðast áfram þrátt fyrir ástandið :/ Stokkhólmur er ein af mínum uppáhaldsborgum. Það er þægilegt að komast þangað, ekki nema tæpir þrír tímar, og auðvelt að komast inn í borgina frá Arlanda flugvell, ca. 20 mín. með lest. Þetta voru m.a. ástæður fyrir því að við völdum þessa borg í fyrstu utanlandsferðina á covid-tímum. Við dvöldum á Radison Waterfront hótelinu sem er mjög vel staðsett, alveg við hliðina á lestarstöðinni og stutt frá Drottningatan og Ahlens City (sem er svokölluð department store). Hótelið var til fyrirmyndar í alla staði og morgunverðarhlaðborð fjölbreytt og gott. Það er margt hægt að gera í Stokkhólmi og þessi árstími er fallegur í borginni. Við vorum heppin með veður þannig að það var gaman að rölta þarna um. Ég mæli með: heimsókn á Gamla Stan, elsta hluta Stokkhólms. Þröngar og sjarmerandi götur og litlar krúttlegar búðir. Algert möst að fara inn á Stortorget sem er elsta torgið í borginni. Djurgarden, sem er ein af eyjunum sem borgin er byggð á. Þarna er m.a. Gröna Lund tívolíið, Skansen (dýragarður og nokkurs konar Árbæjarsafn), Nordiska Museet (norræna safnið) ásamt fleiri áhugaverðum stöðum. Einnig er fallegt að rölta þarna um á góðum degi. Drottninggatan, aðal verslunargatan. Þar finnurðu fjölbreyttar búðir og einnig er Ahlens City þarna á horninu. Þar er að finna flest merki og snyrtivörur. Biblioteksgatan, þar eru fínni merkin; Michael Kors, Hugo Boss og fleira. Einnig ein af mínum uppáhalds: & Other stories. Södermalm, bóhem og krúttlegt hverfi með fallegum litlum búðum og krúttlegum kaffihúsum. Við reyndar náðum ekki að skoða þennan hluta Stokkhólms í þetta sinn. Pottþétt í næstu ferð! bátsferð um skerjagarðinn. Gott úrval af ferðum um fallegan skerjagarðinn, flestar taka um 50 mínútur. Gaman að sjá borgina frá öðru sjónarhorni. Við borðuðum á: Vapiano – alþjóðleg keðja veitingahúsa sem bíður upp á ítalskan mat. Fljótlegt og gott. Eataly, La Piazza – dásamlegur ítalskur veitingastaður, fínni en Vapiano. Frábær stemming á staðnum, gullfallegt rými og geggjaður matur. Einnig hægt að versla ítalskar sælkeravörur á neðri hæðinni. Cafe Schweizer – kaffihús á Gamla Stan. Rabarbarakakan með vanillusósunni var æði! Stenugns bageriet – kaffihús/bakarí rétt hjá Ahlens City. Bestu kardamommuhnútar sem ég hef smakkað, mæli svo með. Ég sé að við höfum verið svolitið mikið í ítölskum mat í sjálfri Svíþjóð en það er í lagi…ég bætti það upp með að gera hinu sænska bakkelsi eða Fika eins og þeir kalla það, góð skil. Ferðin var frábær í alla staða og það gerði mikið fyrir andann að komast aftur út í hinn stóra heim. M
 • Að ferðast eða ekki ferðast…
  “We travel not to escape life, but for life not to escape us.” Síðasta eina og hálfa árið hefur verið skrítið fyrir okkur öll og fyrir flesta lítið um ferðalög. Ég elska að ferðast, að sjá nýja staði og upplifa nýja hluti. Að “týnast” í stórborg og rápa um er eitt að skemmtilegasta sem ég veit. Það er bara eitthvað svo gott að sjá lífið fyrir utan Ísland. En þar sem ég hef líka tilhneigingu til að ofhugsa hlutina og mikla fyrir mér hafa ferðalög á þessum tíma ekki virkað spennandi. Fyrr en núna. Ofhugsarinn ég fór nefnilega loks í sína fyrstu utanlandsferð á covid tímum. Það var vissulega erfitt að taka þessa ákvörðun og auðvelt að sannfæra sig um að það væri bara best að vera heima. Ofhugsarar höndla nefnilega ekki mikla óvissu og eiga auðvelt með að fara í “hvað-ef” pakkann. Ég hef fylgst með fólki skottast út í heim og smátt og smátt sannfærst um að kannski væri þetta bara í lagi. Þegar ég sé svo mynd af fyrrverandi vinnufélaga komna lengst suður í álfu, verandi þó nokkrum árum eldri en ég, ákvað ég að nú væri nóg komið. Eftir að hafa velt nokkrum borgum fyrir okkur (Edinborg, Kaupmannahöfn, Amsterdam, Stokkhólmur) varð Stokkhólmur fyrir valinu. Við höfum komið þarna áður og borgin er bæði falleg og þægileg. Stór hluti af ákvarðannatökunni var hversu auðvelt væri að komast þangað, hverjar innkomukröfurnar í landið væru og einnig að borgin krefðist ekki mikilla ferðalaga með almenningssamgöngum. Það er gott að gefa sér góðan tíma á flugvellinum þar sem allt tekur lengri tíma. Við vorum búin að tékka okkur inn online og þegar við komum á völlinn var röðin frekar löng. Við gátum hins vegar farið í self-service kassana og klárað innritunina, þ.e. prentað út töskumiðana og brottfararspjöldin. Því næst var farangrinum skilað og þar var engin röð. Ekki er gerð krafa um að vera með grímur á flugvellinum en það eru þó vinsamleg tilmæli. Það er hins vegar skylda að vera með grímu um borð í vélinni. Þó er leyfilegt að taka hana af til að drekka og borða. Þetta reyndist hið minnsta mál og flugið var hið ánægjulegasta. Að komast inn í Svíþjóð er ekkert mál. Engar kröfur eru gerðar á ferðamenn sem koma frá Íslandi og þú í raun og veru gengur bara inn í landið. Og eftir að komið er inn í borgina var ósköp lítið sem minnti á faraldurinn. Einstaka skilti sem minnti á að halda fjarlægð við næsta mann. Að sama skapi gekk heimferðin vel. Bara muna að hafa bólusetningaskírteinið í símanum og vera búin að skrá þig inn í landið (pre-registration). Við þurftum að sýna þetta tvennt við innritunina á Arlanda og innritunin var eins og gefur að skilja frekar hæg, það þarf jú að yfirfara fleiri atriði hjá hverjum farþega en áður. Arlanda er ótrúlega þægilegur völlur og ekkert stress í gangi þar. Þegar til Íslands var komið var allt ósköp svipað og áður, þ.e. ef þú ert að koma frá löndum sem eru á svipuðum stað og Svíþjóð. Þú þarft að fara í covid próf en getur ráðið hvort þú gerir það á vellinum eða innan tveggja daga frá heimkomu. Við völdum að leysa þetta af á flugvellinum og það gekk hratt fyrir sig. Rétt fyrir miðnætti á heimkomudeginum fengu allir úr hópnum niðurstöðurnar. Í þessum 10 manna hóp fengu allir neikvætt úr prófinu 🙂 Allt í allt vel heppnuð ferð og ofhugsarinn hefði getað sleppt nokkrum lotum af ofhugsunum við undirbúning ferðarinnar. Magga meira um Stokkhólm í næsta pósti 🙂
 • Hrekkjavökupósturinn
  Hér kemur hann…árlegi hrekkjavökupósturinn. Við höfum nefnilega gaman af hvers kyns stússi og því að gera lífið skemmtilegra, finna tilefni til að gleðjast. Þess vegna höldum við hrekkjavöku. Við höfum áður komið inn á þetta málefni, þetta með að vera að halda upp á þennan sið. Árlega heyrum við fólk kvarta undan því að vera að herma eftir Bandaríkjunum en það er bara ekki rétt…þetta er nefnilega keltneskur siður í grunninn og dýpri pælingar á bak við hann eins og hún Þórunn fór í gegnum fyrir okkur í pistli sínum hér. Síðustu árin höfum við systur skipst á að halda hrekkjavökuboð fyrir okkar nánustu. Húsið er skreytt að tilheyrandi sið og fólk fer í sína skelfilegustu búninga, krakkarnar skjótast út um hverfið og krækja í sælgæti. Sumar götur og hverfi fara “all in” og þar er gaman að labba með gríslingum. Það gladdi mig sérlega mikið þegar ég fór með yngri syninum í eina af þessum götum fyrir tveimur árum. Gatan var mjög skemmtilega skreytt og flestir íbúanna tóku þátt, stigagangarnir litu út eins og draugahús og alls staðar var flott skraut. Þegar við vorum að halda heim á leið vildi hann stoppa í einu húsi enn. Þar var lítið um skreytingar en grasker á tröppum gaf til kynna að þarna væri hægt að fá eitthvað gott. Ég stóð á gangstéttinni og horfið á soninn berja dyra. Eftir smástund opnuðust dyrnar löturhægt, og drungaleg tónlist barst úr rökkvuðu andyrinu. Ég sá minn mann taka eitt skref til baka og ekki var laust við að ég fengi hroll þar sem ég stóð í öruggri fjarlægð, þegar vera stígur fram úr myrkrinu. Veran teygir hægt fram loppuna, réttir barninu sælgæti, hverfur aftur inn í myrkrið og dyrnar lokast. Frábær endapunktur á flottu kvöldi og sonurinn vildi flýta sér heim eftir þetta 😉 Við leyfum hér að fljóta með nokkrum myndum af hrekkjavökugleði okkar í gegnum árin… Hrekkjavakan er sem sagt fínindis afsökun til að halda góða veislu, grípið tækifærið! Stína og Magga