Paris

I love Paris in the springtime söng einhver einhvern tímann og það er nú bara þannig að ég elska París á hvaða tíma sem er. Hef reyndar ekki verið þar um hávetur en um sumar, haust og nú; um vor. Og vorið er komið í París. Útsprungnar páskaliljur og sumarblóm í beðum og það sem betra var: Kirsuberjatréin og Magnolíutréin í fullum blóma. Yndisleg tilfinning að geta um stutta stund um snjólaust höfuð strokið.

Eins og vanalega var ég með langan lista af things to do og eins og vanalega er margt eftir á listanum. En það er nokkuð víst að ég fer aftur og saxa þá meira á listann. Í þetta sinn voru það aðallega fallegar og fótógenískar götur og kaffihús sem ég var á höttunum eftir. Það og jafnvel að lauma eins og einu eða tveimur söfnum inn í ferðina. En þar sem ég var með tvo unglinga með í för fór slatti af tímanum í að kíkja í búðir. Og það má 🙂

Ég ætla að leyfa myndunum að tala en hápunktarnir fyrir mig voru:

 • Gallerie Lafayetta verslunarhúsið – vegna fegurðar byggingarinnar. Hvolfþakið er guðdómlegt og frábært að fara upp á þak þar sem útsýnið yfir borgina er dásamlegt
 • L´Atelier des Lumieres – svokallað immersive listasafn, þ.e. þú situr inni í sýningunni. Verkum listamannanna er varpað á gólf og veggi. Mögnuð upplifun. Mæli svo með!
 • Cafe Carette – yndislegt kaffihús síðan 1927. Það er á nokkrum stöðum í París en við fórum á Place des Vosges sem er torg/garður sem gaman er að skoða.
 • Rölt um borgina – framhjá Notre Dame og svo framhjá Eiffel turninum…alltaf jafn dásamlegt að sjá þau 🙂
 • Lúxemborgargarðurinn – sérstaklega að sjá Medici gosbrunninn
 • Shakespeare & Company – dásamleg bókabúð sem gaman er að kíkja í
 • Samvera með köllunum mínum í þessari fallegu borg

A bientot!

Njótið dagins 🙂

M

Mars er mættur

…tveimur dögum of seint en hér er það; útprentanlegt dagatal fyrir þig. Við höfðum það svolítið grænt í þetta skiptið. Kannski af því að sálin er farin að þrá að heimurinn grænki. Þessi endalausi snjór og slabb er ekki að gera mikið fyrir okkur 😉

Þannig að það er grænt þema í dag. Græni liturinn er litur gróanda og vaxtar, litur sjálfs-sáttar og vellíðunar. Hann er líka sagður auka innri frið, ást og frið…og ekki veitir nú af því þessa dagana.

Eigið grænan og vænan dag 🙂

Allt fyrir ástina …

Í dag er Valentínusardagurinn og þrátt fyrir að við höfum kannski ekki haldið mikið upp á þann dag hingað til er alltaf gaman að gera sér dagamun. Og hvað er betra en að fagna ástinni á þessu síðustu og verstu… að beina kastljósinu að kærleikanum sem gerir lífið svo miklu, miklu bærilegra.

Það að fagna þessum degi þarf ekki að þýða fjárútlát … ástin kostar jú ekki neitt. Það er nóg að vera til staðar, að sýna væntumþykju og gefa nærveru. Og þessi dagur er ekki endilega bara dagur elskenda, hann má líka vera dagurinn sem við sýnum fólkinu okkar að við elskum það.

Hér fyrir neðan finnur þú nokkrar útgáfur af útprentanlegum gjafamiðum sem gætu glatt þann sem þú elskar. Eina sem þú þarft að gera er að prenta út. Athugaðu að til að prenta út þarftu að ýta á þar sem stendur download – ekki á myndina sjálfa 🙂

Njótið dagsins … í nafni ástarinnar!

M&S

Vinnurými

Ég hef unnið heima síðastliðið eitt og hálft ár. Tók þá ákvörðun að fylgja draumunum og vera einyrki. Það þýðir að stórum hluta af vinnudeginum eyði ég heima, í vinnuherberginu … eða L´Atelier-inu eins og ég kýs að kalla það 😉 Það er ákveðin áskorun fólgin í því að ráða tíma sínum sjálf og eitt af áhyggjuefnum mínum var hvort ég myndi ná að vera nógu öguð í þetta. Hvort ég myndi ekki bara liggja í sófanum og horfa á Netflix allan daginn. En svo er ekki. Ég vakna alla daga með hinum fjölskyldumeðlimum, fer svo út með hundinn og mæti svo á skrifstofuna. Og vinn og brasast. Mismikið suma dagana og misgáfulegt. En ég vinn og legg sprek á eld framtíðardraumanna. Svo kemur bara í ljós hversu glatt hann á eftir að loga. Ég er ánægð með þessa ákvörðun þó svo að ég sakni gömlu vinnufélaganna og skrafsins á kaffistofunni. Það skal líka viðurkennt að hluti af draumnum í upphafi var að fara oftar út á kaffihús og vinna þar … en þau plön voru stoppuð af veiruvöldum. Vonandi stendur það til bóta.

Fyrir mig, sem eyði lunganum úr deginum í vinnuherberginu, skiptir miklu máli að rýmið sé skapandi og aðlaðandi. Ég er aðeins búin að flakka á milli herbergja hér heima, verandi með ungling sem þurfti stærra rými o.þ.h. En eftir áramómt flutti ég mig (aftur) yfir í minnsta herbergið og eftirlét unglingnum stærra herbergið … sem ég var nýbúin að standsetja sem vinnuhergbergi. Hvað gerir maður ekki fyrir þessar elskur.

Og hér er það, L´Atelier-ið. Herbergið þar sem allskonar skrýtið dót og litríkir hlutir fá að vera. Bækur, blöð, penslar, babúskur og blóm. Óstíliserað og allskonar. Rými til að skapa og dreyma. Verk í vinnslu og hver veit nema ég verði búin að breyta eftir viku.

Eigið ljúfan laugardag!

M

Sjálfsrækt

Það hefur sjaldan verið eins mikilvægt og nú að leggja vinnu í sjálfsrækt … að vinna í okkur sjálfum, andlega og líkamlega. Að þeim orðum slepptum skal það tekið fram að það að stunda sjálfsrækt eða að vinna í sjálfum sér þýðir ekki að við séum gölluð. Eða að við séum ekki nóg. Við erum nóg. Og allt sem við þrufum er innra með okkur. Tré sem stendur þráðbeint og fagurt út í náttúrunni er fullkomið eins og það er, jafnvel þó það sé ekki þráðbeint ;). Það þarf samt að fá næringu og raka. Það þarf rétt skilyrði til þess að halda áfram að dafna.

Á sama hátt þurfum við næringu og rétt skilyrði til þess að dafna. Þrátt fyrir að vera nóg …

Ég lenti í heilsufarslegri krísu fyrir nokkrum árum. Þetta var í fyrsta skiptið sem svona ógn steðjaði að mér persónulega og það hristi upp í grunnstoðunum mínum. Ég leyfði því að fella mig, varð of upptekin af vandamálinu og sá ekkert annað. Í nokkra mánuði leyfði ég þessari ógn, sem var í raun alls ekki eins mikil ógn og ég hélt, að stjórna mér. Ég missti matarlystina, svaf illa og leið illa. En allt tengdist þetta mínu hugarfari og því hvernig ég tókst á við þetta, ekki hinu líkamlega vandamáli. Þegar upp var staðið var líkamlega vandamálið leyst með lítilli aðgerð og ég var laus allra mála. Það sem eftir stendur er hins vegar þessi lífsreynsla, þessi lexía. Að lífið er í raun 10% það sem við lendum í og 90% hvernig við bregðumst við því. Í dag er ég þakklát fyrir þessa lífsreynslu því hún kenndi mér að vinna í sjálfri mér … að leggja rækt við sjálfa mig.

Farvegurinn fyrir svona vinnu er grösugur í dag. Sjálfsrækt, eða self-care, er “trending” svo við slettum aðeins. Auðvelt er að finna hvers kyns efni á netinu sem tengist slíkri vinnu. Sumum hentar ítarlegri vinna á meðan öðrum nægir að fá jákvæðar möntrur inn í daginn sinn. Nokkrus konar stef sem fær búsetu í huga okkar þann daginn. Sumum hentar vel að fara inn á við og stunda hugleiðslu á meðan aðrir fá sitt fix úr náttúrunni.

Fyrir mig er það blanda af þessu. Ég er orðaperri, afsakið orðalagið. Ég elska orð og tungumál. Daglegar möntrur, tilvitnanir, ljóð, textar. Það virkar fyrir mig. Stokkar með spilum, hvort sem það eru möntrur eða samfelldur texti með boðskap. Stuttar hugleiðslur (nenni ekki löngum) og jóga hér og þar. Þetta er mín remedía. Það ásamt því að hreyfa mig út í náttúrunni daglega … í sama hvaða veðri. Með hundinum mínum mér við hlið. Það er minn lyfseðill. Hundurinn sjálfur er hinn besti sálfræðingur. Hans aðferð er reyndar sú að draga hugann frá sjálfri mér og að honum … það er jú miklu skemmtilegra að leika við hann eða gefa honum nammi heldur en að hugsa um eitthvað leiðinlegt. Hann verður seint talinn efni í svona meðferðarhund, þið vitið, þessi sem fer í heimsóknir á elliheimili. Hann er sérlundaður og knúsar þegar honum hentar. En hann er samt æði. Að fara með hann út að labba í snjóbyl og sjá hann stinga nefinu ofan í snjóinn eins og Al Pacino ofan í kókaínhrúgu fær mann til að brosa og gleyma öllu öðru. Allt ofantalið ásamt hressilegri göngu með dúndrandi rapp frá 90ogeitthvað í eyrunum er það sem fær mig til að höndla lífið betur. Að ógleymdri samveru með fólkinu mínu.

Boðskapur þessa pistils er sem sagt:

 • Þú ert nóg
 • En þú þarf samt að næra þig andlega
 • Finndu hvað virkar fyrir þig og stundaðu það, sama hvað lítið eða hversu mikið
 • Fáðu þér hund 🙂

Í næsta sjálfsræktarpósti ætlum við svo að deila með ykkur góðum bókum sem leggja rækt við andann. Ef þú ert með ábendingu eða leggja orð í belg um málefnið má alltaf senda okkur línu í gegnum facebook eða instagram. Svo minnum við á eldri velferðarpósta hér á Skeggja. T.d. um morgunrútínu – hér -, heimajóga – hér – , þakklæti – hér – og guasha – hér – .

Ást og friður

M

Bóndadagurinn

Í dag er bóndadagurinn en sá dagur er einnig fyrsti dagur Þorra. Þorranum lýkur svo þann 20. febrúar á Konudeginum.

Á þessum degi er um aðgera að gera vel við bóndann sinn, vinnsælt er að gera vel við hann í mat og drykk. Svo er alltaf gaman að koma honum á óvart með smá glaðningum.

Hérna koma nokkra hugmyndir af því hvað hægt er að gera til að gleðja bónda sinn:

 • Smyrja handa honum nesti til að taka með sér í vinnuna og lauma með miða með fallegri orðsendingu.
 • Vekja hann með morgunmati í rúmið.
 • Fara í vinnuna til hans í kaffitíma eða hádeginu og annað hvort bjóða honum á veitingarstað eða kaffihús eða færa honum eitthvað girnilegt bakelsi í vinnuna.
 • Vera búin að panta barnapíu og bjóða honum í óvisuferð; út að borða, í bíó eða á kaffihús 
 • Búa til lagalista með uppáhalds lögunum hans/ykkar, jafnvel lögum sem minna ykkur á fyrstu árin ykkar saman. Í gamla daga var þetta nú bara kallað mix-teip.
 • Gefa honum frí frá því að svæfa börnin í kvöld…
 • Koma börnunum í rúmið snemma og útbúa síðbúin rómatískan kvöldverð yfir kertaljósi með honum.
 • Hafa kósý kvöld með honum einum og vera búin að kaupa uppáhalds nammið hans.
 • Flýta þér út á föstudagsmorguninn og skafa rúðurnar á bílnum, ef verðrið er þannig.
 • Útbúa handa honum freyðibað þegar hann kemur heim úr vinnunni.
 • Búa til mynda-slide-show með myndum af ykkur í gegnum tíðina, t.d. hægt að nota vef eins og Smilebox sem býður upp á skemmtilegt form á svona slæðusýningu.

Það er sem sagt hægt að gera heilmikið…og það þarf ekki að kosta neitt 🙂

Svo bjóða einnig mörg fyrirtæki upp á tilboð í tilefni dagsins þannig að það ætti að vera auðvelt að gleðja þessar elskur.

Eigið góðan bóndadag.

Knúses

S

Góða veislu gjöra skal

Þrettándin er í dag og eflaust einhverjir sem halda þeim gamla góða sið að kveðja jólin með því að gera vel við sig. Hér koma nokkrar hugmyndir að smurbrauði sem við vorum með í einni af veislunni um jólin. Magn matarins var að sjálfsögðu ekki í samræmi við gestafjöldann…sem var langt undir sóttvarnarreglum 😉 Við eigum ekki heiðurinn af öllum snittunum en Kristín Skj. vinkona okkar á heiðurinn af nokkrum.

Það vill bara oftast verða þannig að more is more reglan er í gildi í okkar veisluhöldum.

Þemað var óumræðilega danskt eins og vill gerast með smurbrauð og öl 🙂

Hér koma nokkrar hugmyndir að einföldu smurbrauði og snittum sem fínt er að bjóða upp á kvöld eða um helgina.

Mynd t.v.

Smurbrauð með kjúklingasallati* og stökku beikoni og smurbrauð með roastbeef og remúlaði. Bæði á dönsku rúgbrauði sem fæst t.d. í Brauð & co. Roast beefið og remúlaðið er frá Kjöthöllinni en án efa hægt að fá í flestum kjötbúðum. Báðar tegundir af smurbrauði eru smurðar með smjöri.

 • Uppkrift af kjúllasallati er fyrir neðan.

Mynd t.h.

Smurbrauð með majonesi reyktri skinku, kartöflusalati og rauðbeðum á dönsku rúgbrauði. Hitt er á snittubrauði og er smurt með philadephia rjómaosti og ofan á er hráskinka og avacado.

Mynd t.v.

Tómatar og basilka skorin niður, góð olívuolía yfir ásamt salti og látið standa í ísskáp í 2 klst. Snittubrauð, rautt pestó, mosarella kúlur skornar í sneiðar og settar yfir og tómata og basilukumaukið ofan á ostinn – má skreyta með basilikublöðum ef vill.

Mynd í miðju

Naanbrauð með stökku beikoni, camenbert osti og rifsberjahlaupi.

Mynd t.h.

Rúgbrauð með rauðsprettu og radísum, skreytt með radísu og graslauk. Rúgbrauðið er smurt með smjöri.

Borið fram með ísköldu öli að dönskum sið og að sjálfsögðu var eftirrétturinn danskar eplaskífur með flórsykri og sultu.

Danskara gerist það varla.

Vessgú!

Uppskrift af kjúklingasalatinu á fyrstu mynd:

Það sem þú þarft:

600 gr. eldaður kjúklingur – t.d. keyptur tilbúinn

1 bolli kirsuberjatómatar, skornir í helminga

1/2 lítill rauðlaukur, skorinn í þunna strimla

1 avocado, skorið í litla teninga

6 sneiðar steikt beikon, saxið í litla bita

3 harðsoðinn egg, skorin í litla bita

1/3 bolli majónes

1 1/2 msk sýrður rjómi

1/2 tsk Dijon sinnep

2 msk ólívuolía

2 hvítlauksrif, söxuð smátt

1 tsk sítrónusafi

1/4 tsk salt

1/8 tsk pipar

Majónesi, sýrðum rjóma, sinnepi, ólívuolíu, hvítlauk, sítrónusafa og salti + pipar hrært vel saman í skál. Kjúkling, tómatar, rauðlaukur, avocado , beikon og egg sett út í. Blandað vel saman og smakkað til.

Þetta kjúklingasalat hentar vel á smurbrauð en einnig gott í samlokur og tilvalið til að taka með í nesti eða lautarferðina….þegar sumarið kemur 🙂

Vessgú!

Magga og Stína

Vanillukransar

Við systur ákváðum að prufa nýja uppskrift af vanillukrönsum þetta árið. Gamla uppskriftin frá mömmu stendur samt alltaf fyrir sínu en það er líka gaman að prufa eitthvað nýtt. Helsti munurinn er sá að í þessari eru hakkaðar möndlur og komu þær bara vel út. Uppskriftina fengum við á síðu Bo Bedre og þar er hún titluð sem hvorki meira né minna en heimsins bestu vanillukransar. Þið getið smellt á Bo Bedre linkinn ef þið viljið lesa dönsku uppskriftina. En hér kemur hún á íslensku:

Þetta þarftu:

175 gr. sykur

200 gr. mjúkt smjör

1 egg

250 gr. hveiti

75 gr. möndlur

1 vanillustöng

***

Svona gerir þú:

Möndlurnar eru hakkaðar í matvinnsluvél og kornin í vanillustönginni skröpuð. Allt hært vel saman í hrærivél. Gott er að nota annað hvort sprautupoka með stjörnustút eða hakkavélina á Kitchen Aid-inu (og nota stjörnujárnið).

Deiginu er sprautað í litla hringi á bökunarpappír. Passa að hafa bil á milli þar sem kransarnir geta runnið aðeins út.

Bakað við 200 ° í ca. 6 mínútur eða þar til þeir eru orðnir gylltir. Gott að kæla þá á rist.

Það er ekki tekið fram í dönsku uppskriftina að gott sé að kæla deigið í allavega 2 klst. áður en bakað er en það er eitthvað sem við höfum alltaf gert við svona bakstur. Þannig að við mælum með því 🙂

Njótið!

Magga & Stína

Mömmukökur

Þetta er ein af mínum uppáhalds jólasmáköku uppskriftum og fátt minnir mig meira á æskujólin, heima á Þingeyri. Þá fékk maður alltaf að smakka nýbakaðr smákökur og síðan var þeim pakkað niður í box og geymdar til jóla, þetta fannst mér mjög erfiður siður sem gerði samt smáköku baksturinn svo hátíðlegan.

Uppskrift

125 gr sykur
250 gr sýróp
125 gr smjör
1 egg
500 gr hveiti
2 tsk matarsódi
½ tsk engifer
1 tsk negull
1 tsk kanill

Hitið sýrópið aðeins, síðan er öllum innihaldsefnum blandað saman í hrærivél. Hnoðið og setjið í kæli yfir nótt. Fletjið deigið fremur þunnt út og stingið út kökur.

Bakið við 190° þar til kökurnar verða millibrúnar eða í uþb 5-7 mínútur.

Krem:

2 bollar flórsykur
1 eggjarauða
3 msk smjör 1 msk kaffi
2 msk rjómi
½ tsk vanillusykur


Þeytið flórsykur og eggjarauðu saman. Blandið smjöri, rjóma og vanillusykri saman við. Þegar kökurnar eru orðnar kaldar eru þær lagðar saman tvær og tvær með kreminu á milli.

Verði ykkur að góðu

S