Jólaísinn

Ég dreif mig í að gera jólaísinn, gott að nýta allar rauðurnar úr lakkrístoppa gerðinni. Ég hef nú ekki gert ís öll jól, það stendur misvel á hvað varðar tíma og annað og mér hefur sem betur fer lærst á síðustu jólum að þau koma þau ekki sé allt fullkomið og þó að ekki hafi náðst að þrífa eða baka það sem hefðin krefur. Reyndar fer ég ekki í stórþrif á innréttingum og veggjum og fleiru eins og mæður okkar og ömmur gerðu hér á árum áður heldur nota allt árið í það að þrífa það sem þarf hverju sinni.

En aftur að jólaísnum. Ég sendi út í kosmósið fyrir mörgum árum spurningu um hvað væri hægt að gera úr 6 eggjarauðum, fannst svo mikil synd að henda þeim og hafði ekki lært að gera bernais sósu frá grunni þá 😉 Fékk í kjölfarið uppskrift af Toblerone ís og hefur sú uppskrift verið grunnur af jólaísnum okkar síðustu ár. Ég held ég hafi náð að gera Toblerone ís í eitt skipti en svo prófað hitt og þetta síðan.

Ég hef notað Daim, bæði kúlur og niðurbrytjað súkkulaðið sjálft. Mér finnst ísinn betri með súkkulaðinu en kúlunum. Þá hef ég brytjað niður karamellufyllt súkkulaði og fyrir mintu fólkið væri nú fínt að brytja niður pipp eða álíka. Karamellufyllt súkkulaði er það sem oftast hefur verið fyrir valinu og ég valdi það í ár. Breytti nú samt aðeins útaf vananum og ákvað að prófa að bræða súkkulaðið í rjóma og hella svo saman við ísinn. Kemst svo væntanlega að því á jóladag hvort það var góð hugmynd 😊

Jólaís

6 eggjarauður

200 gr púðursykur

½ líter rjómi (þarf að þeyta)

1 tsk vanilludropar

Súkkulaði að eigin vali, t.d. Toblerone, daim eða karamellufyllt súkkulaði.

Byrjið á að þeyta rjómann. Ég stífþeyti hann ekki en hef hann nokkuð vel þeyttann. Takið rjómann úr hrærivélaskálinni og setjið eggjarauður og púðursykur og þeytið í smá stund.

Bætið saman við vanilludropum og þeyttum rjómanum og  blandið vel. Niðurbrytjuðu súkkulaðinu er svo bætt við með sleif. Sett í form og fryst. Ég keypti mér íshring frá Tupperware fyrir nokkrum árum. Uppskriftin passar í að sléttfylla þannig form. Mér finnst afar gaman að bera íshring á borð á jólunum en að sjálfsögðu er hægt að nota hvaða form sem er og fyrst notaði ég alltaf formtertuform. Mamma var með braggalaga form í gamla daga, ég væri örugglega með minn ís þannig ef ég hefði fundið svoleiðis 😉

Eins og ég sagði áðan, þá tók ég lögg af rjómanum (botnfylli í minnsta pottinn minn) og bræddi tvö karamellufyllt súkkulaði saman við. Ég passaði að kæla súkkulaðiblönduna áður en ég setti hana saman við ísblönduna.

Okkur finnst best að bera jólaísinn fram með heitri súkkulaðisósu og Lindu ískexi. Oftast set ég botnfylli af rjóma í pott og bræði 2-3 mars saman við. Ískexið var alltaf á borðum á æskuheimilum okkar beggja og því finnst okkur það ómissandi og bæta við hátíðleikann.

Kristín Sk.

Published by

Leave a Reply

Your email address will not be published.