Lakkrístoppar

Ég baka toppa á hverri aðventu. Ég er búin að prófa allskonar útgáfur af þeim en enda alltaf aftur í lakkrís toppunum. Mér finnst þeir bestir og verð minnst leið á þeim þegar líður á að skammturinn klárist. Ég hef prófað tromp toppa, þrista toppa, turkispebber toppa og toppa með piparfylltum lakkrísreimum. Ég er alltaf með sömu grunn uppskriftina nema í þrista toppunum, þá sleppti ég rjómasúkkulaðinu.

Ég hef alltaf verið í vandræðum með að fá toppana mína til að vera eiginlega toppa, þeir verða alltaf flatir að minnsta kosti síðustu tvær plöturnar. Fyrstu árin mín (sennilega alveg 15) sem ég var í búskap bræddi ég líka úr nokkrum handþeyturum  við að reyna að þeyta þá nóg en gamla góða KitchenAid drottningin hennar mömmu sem ég er með í langtíma láni hefur nú heldur betur bjargað. Ég pirraði mig samt alltaf svo mikið á flötu toppunum, þangað til ég ákvað að hafa þá bara alla flata og engan eiginlega topp. Síðan þá skelli ég í tvöfalda uppskrift og borða flata toppa með mikilli gleði 😉

Þar sem ég geri alltaf tvöfalda uppskrift, á ég alltaf til rauður í jólaísinn og fínt að gera hann næsta dag eða samdægurs ef ég er í stuði.

Aldrei að vita nema að sú uppskrift slæðist hér inn 😊

Lakkrís toppar – einföld uppskrift

3 eggjahvítur

200 gr púðursykur

150 gr rjómasúkkulaði

300 gr lakkrískurl (tveir pokar)

Setja eggjahvítur og sykur saman í hrærivélaskál og þeyta þar til er orðið svo stíft að það lekur ekki úr skálinni þó henni sé snúið á hvolf.

Bæta niðurskornu rjómasúkkulaði og lakkrískurli saman við, best að gera með sleifinni.

Setja á bökunarplötur og baka við 170°C í 11-13 mínútur.

Verði ykkur að góðu!

Kristín Sk.

Published by

Leave a Reply

Your email address will not be published.