Spilafjör í gegnum Teams í Covid19 ástandi

Við fjölskyldan erum moldrík af góðum og kærum vinum. Við finnum það best í dag eins og svo margir aðrir hversu dýrmætir vinir eru og hversu miklu máli þeir skipta í lífinu. Það er hinsvegar svo að útaf dotlu erum við ekki að hitta vini okkar eins oft og mikið og við vildum. Við erum að reyna að vera skynsöm og hugsa um okkar heilsu og hagsmuni ásamt nánustu ættingja okkar. Við höfum því valið að vera í litlum hópum og halda þeim eins og þeir hafa verið í nokkuð margar vikur núna til að minnka áhættu á smiti á milli fjölskyldna.

En þetta er ekki skemmtilegt og okkur langar að hittast og spila eins og við erum vön og það gerðum við um síðustu helgi, að vísu ekki í eigin persónu heldur á Teams og spiluðum borðspil, sem við spilum mjög gjarnan, í gegnum símana okkar.

Spilið sem um ræðir heitir Partners. Við erum búin að ferðast með það um landið og til útlanda þegar við erum saman. Við skiptum yfirleitt í lið, eiginkonur á móti eiginmönnum og þar sem Partners snýst bæði um að hjálpa sjálfum sér og þeim sem er með þér í liði, snýst það ekki síður um að skemma fyrir hinu liðinu. Það verður því oft fjör þegar hiti er kominn í spilið og einhver er sendur heim, honum skipt út fyrir annan og settur í verri stöðu og þess háttar. Við semsagt söknuðum þess að hafa ekki spilafjörið okkar og leystum það á þennan hátt.

Partners appið fæst í Playstore og Appstore. Það kostar tæpar 700 krónur per síma (á gengi desember mánaðar 2020). Það tekur smá stund að hlaða því niður og svo þarf í gegnum kennslu á appinu áður en hægt er að spila leikinn. Síðan er hægt að spila við símann eða bjóða vinum sem eru einnig með appið og spila hvert við annað.

Við gerðum þetta semsagt og vorum á Teams á meðan og skemmtum okkur konunglega. Að sjálfsögðu skiptum við liðum eins og venjulega og náðum að kýta og skammast hvert í öðru mátulega mikið. Þá var hlegið og spjallað eins og við vorum vön.

Við skelltum veitingum á borð beggja heimila og áttum skemmtilega kvöldstund saman. Þá erum við búin að plana næsta Partners spilakvöld og munum án efa “hittast” svona um jólin en það er hefð hjá okkur að borða saman og spila svo í kjölfarið í jólafríinu.

Við mælum með að fólk kynni sér þessa leið til að eiga góða skemmtun og kvöldstund saman. Það er ekkert mál að spila svona “online” spil þó þið hafið ekki spilað það sem borðspil áður. Mælum með fullhlöðnum símum því að þegar við vinkonurnar fórum að tapa fyrir drengjunum vildum við bæta við einu enn og einu enn til að reyna að jafna leikinn 😉 Best að láta svo hér staðar numið og gefa ekki upp hverjar lokatölurnar voru þegar ákveðið var að segja góða nótt 😊

Kristín Sk.

Published by

Leave a Reply

Your email address will not be published.