Fjölskyldan,  Lífið

Samskiptamiðlar

Samskiptamiðlar hafa heldur betur komið að góðum notum þetta árið. Þegar það gerist svo mánuðum skiptir að ekki er hægt að hittast í eigin persónu er gaman að geta heyrst í gegnum facetime, skype og fleiri slíka miðla. Snapchat er líka miðill sem margir nota og virðist hafa fest sig í sessi fyrir flestan aldur.

Facebook var ótrúlega skemmtileg uppfinning en við misstum notkunina á þeim miðli kannski svolítið úr böndunum en upphaflega hugsunin um að nemendur gætu haft samband sín á milli á auðveldan hátt var góð. Facebook hefur nýst mjög vel fyrir foreldra held ég sé óhætt að segja enda flestir foreldrar í allskyns hópum sem tengjast skólum og tómstundum barna sinna. Skilaboð komast fljótt og þægilega á milli og minni hætta á að ruglingur verði á milli skilaboða eins og áður gerðist oft í tölvupóstum sem margir voru að svara.

Youtube er forrit sem gaman er að nota og endalaust til af efni þar. Fylgist samt með notkuninni þar, því menn eru svo ósvífnir að nektarauglýsingar og fleira óæskilegt er farið að sjást innan um barnamyndbönd sem foreldrar telja yfirleitt saklaus en reyndin er svo stundum allt önnur.

Instagram er miðillinn sem að flestir eru farnir að hallast að í dag og áður en að Instagram varð vinsælast kom Snapchat. Í dag er Snapchat með því vinsælasta hjá unglingum. En af hverju að fara í þessa fortíðarupprifjun? Jú það eru nefnilega ansi margir aðrir samskiptamiðlar sem að fullorðnir hafa ekki endilega mikla vitneskju um en börnin okkar og unglingarnir nota ansi mikið.

Mig langar til að nefna örfá öpp sem sem gott er fyrir foreldra að fylgjast með hvort börnin eru að nota og þá jafnvel ræða um ábyrga notkun samfélagsmiðla.

Það er gott að byrja á Instagram. Það hefur verið mikið í umræðunni undanfarið að þar er mikið af hópum sem tengjast slagsmálum unglinga. Instagram er miðill sem þau nota til að koma skilaboðum um hvern þarf að berja og hvar það mun fara fram. Lögreglan gerir reglulegar rassíur og reynir að fá þessum síðum lokað en þær spretta upp undir nýju nafni um leið aftur. Á þessum síðum hafa oft sést verulega ljót slagsmál og mikilvægt að ræða við börnin okkur um að taka ekki þátt í þessu og ef þau vita af því að eitthvað þessu líkt á að fara fram, láti þau vita þannig að hægt sé að tilkynna lögreglu um slagsmálin.

Omegle er líka app sem getur verið varhugavert. Þar er hægt að fara inn og gefa ókunnugum einstaklingum færi á að spyrja mann um hvað sem er. Þar fer oft eitthvað ljótt fram og ljót skilaboð send. Dæmi eru um eineltis skilaboð og skilaboð um að börn/unglingar eigi að fyrirfara sér.

Ask.fm er svipað forrit og Omegle og var ansi mikið notað fyrir 2-3 árum. Mig grunar að það sé aðeins farið að kólna enda margt annað nýtt komið á radarinn.

Telegram er forrit sem við villjum alls ekki að börnin okkar séu með í símunum sínum. Telegram er samskiptaforrit sem notað er til að selja vímuefni. Notendur þurfa að fá boð frá öðrum til að geta notað appið. Ef þið finnið það hjá börnunum ykkar er mjög mikilvægt að setjast niður og ræða alvarlega við þau. Ef þið teljið börnin ykkar í neyslu er gott að leita til barnverndar í ykkar sveitarfélagi eftir aðstoð.

Kik er forrit sem var afar vinsælt fyrir tveimur árum. Þar fór mikið fram af samskiptum og beiðnum um myndsendingar. Það er eitthvað um að það sé enn notað, en snapchat virðist vera sá miðill sem unglingarnir sækjast helst eftir.

Tiktok er eitt af heitari samskiptamiðlum í dag. Það er til í óteljandi útgáfum, allt frá saklausum barnadönsum og upp í tiktok sem er bannað innan 18 ára vegna þess sem þar fer fram. Mikilvægt er að fylgjast með því hvað börnin ykkar eru að nota tiktok í og hvaða útgáfu þau eru með.

Að lokum er Life360 er app sem þið hinsvegar viljið hafa í símum ykkar og barna ykkar og gott að reyna að semja við börnin ykkur að fá að hafa í símunum. Það er app til að sjá hvar fjölskyldumeðlimir eru staddir og getur skipt miklu máli í dag þar sem börn og unglingar eru duglegir að koma sér á milli hverfa með strætó, vespum og rafskutlum.

Það er mikilvægt fyrir foreldra að gera sér grein fyrir því að á samskiptamiðlum í dag er mjög mikið um að börn séu beðin um að senda af sér myndir, ýmist í fötum eða án þeirra. Þá er mun algengara en flestir gera sér grein fyrir að börn fái sendar “dickpic” eða myndir af karlmannslimum. Þau eru mjög berskjölduð fyrir þessum sendingum og mikilvægt að fá þau til að segja frá slíkum sendingum og í það minnsta að þau blokki viðkomandi og séu ekki í frekari samskiptum við viðkomandi einstaklinga. Þá þarf að ræða við þau að verði þeim á að senda myndir af sér nöktum eða fáklæddum að þau segi frá því og mögulega eru það mál sem þarf að kæra til lögreglu. Reynið að fá að skoða sem mest af samskiptum og notkun barna ykkar á samskiptamiðlum.

Minnið börnin ykkar líka á að það sem fer á netið lifir þar yfirleitt af eilífu og hægt er að finna ýmislegt um hvern og einn sem hefur sett eitthvað þangað. Ég held að við þurfum að fara að setja grunn reglur um notkun samskiptamiðla sem miða að aldri og þroska hvers og eins. Ef foreldrar og forráðamenn taka sig saman um að fara eftir einföldum reglum þá er það auðveldara fyrir alla.

Að biðja börnin okkar um að hafa skjátæki frammi í alrými íbúðar frá klukkan 23 á kvöldin og þangað til að morgni er góð regla. Líka fyrir okkur foreldrana. Að venja börnin okkar á að við höfum aðgang að skjátækjunum þeirra og getum skoðað það sem fer fram er líka mikilvægt. Ef foreldrar byrja á að setja þessar reglur og skilyrði áður en að börnin fá snjalltæki sem og fara eftir því frá byrjun, eykur líkur á að upp komist ef börn nota miðlana ekki rétt. Um leið fá foreldrar tækifæri til að kenna börnunum að nota tækin á réttan hátt.

Að kenna ábyrga notkun samskiptamiðla byrjar aldrei of snemma. Notkun snjalltækja getur verið af hinu góða en einnig af hinu illa. Sýnum ábyrgð og leiðbeinum og kennum börnunum okkar.

Kristín Sk.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *