Spilajól – Síðari hluti

Nú fer heldur betur að styttast í jólin og ekki seinna vænna en að fara að ganga frá jólagjöfunum, ef það er ekki nú þegar búið. Í fyrri hluta þessa jólaspilalista safnaði ég saman nokkrum barna- og fjölskylduspilum en hér held ég áfram að bæta í sarpinn og þyngja spilin aðeins. Vonandi finna allir hér eitthvað við sitt hæfi.

L.A.M.A. er einfalt kortaspil sem hefði eiginlega átt heima á fyrri listanum hjá mér. Spilið er fyrir 2-6 leikmenn, 8 ára og eldri. Í L.A.M.A. eru leikmenn að reyna að losna við öll spil af hendi á undan öðrum leikmönnum. Spil á hendi í lok umferðar teljast sem mínus og verst er að vera með lamadýr á hendi því þau gefa 10 í mínus.

L.A.M.A. hefur slegið í gegn í mínum spilavinahópum, sem er að vissu leyti skondið þar sem L.A.M.A. myndi seint teljast sem strategíuspil. Samt er eitthvað heillandi við þetta og dásamlega upplífgandi að losna við öll spilin af hendi.


Spicy er einfalt kortaspil fyrir 2-6 leikmenn, 10 ára og eldri. Spilið gengur út á að klára öll spil af hendi, líkt og L.A.M.A. hér að ofan, nema hvað að Spicy gengur einnig út á að blekkja. Leikmenn spila út spilum á grúfu og geta logið til um hverju þeir séu að spila út. Það er svo annarra leikmanna að véfengja eða ekki.

Spicy er fallega myndskreytt og einfalt. Of einfalt myndu einhverjir segja en okkur fannst þetta skemmtilegt og svo sakar ekki að hægt er að spila það með allt að 6 leikmönnum (eins og L.A.M.A.) sem er kostur.


The Crew, The Quest for Planet Nine er samvinnukortaspil fyrir 2-5 leikmenn, 10 ára og eldri. Spilið hefur hlotið góða dóma og vann m.a. Kennerspiel des Jahres í Þýskalandi á þessu ári.

Í The Crew eru leikmenn geimfarar sem þurfa að leysa verkefni, með mismunandi númeruðum og lituðum spjöldum á meðan ferðast er um sólkerfið. Hljómar háfleygt, en The Crew er svokallað trick taking spil með nýjum vinkli. Samskipti milli leikmanna eru lykilatriði, en trikkið er að leikmenn mega ekki tala saman, enda geta samskipti verið erfið í geimnum.

Með spilinu eru 50 “þrautir” sem leikmenn leysa eina af annarri, þannig að best er að spila spilið alltaf með sama hópnum þó svo að það sé ekki endilega nauðsynlegt. Þrautirnar þyngjast hins vegar eftir því sem á spilið líður og því getur verið gott að vera alltaf með sama hóp geimfara, sem eru farnir að þekkja hvern annan og þöglu samskiptin sem þarf til að vinna.


Just One er samvinnu-selskapsspil fyrir 3-7 leikmenn, 7 ára og eldri. Spilið vann Spiel des Jahres verðlaunin árið 2019 og hefur nú verið gefið út í íslenskri útgáfu.

Leikmenn vinna saman til að ná eins mörgum orðum og þeir geta. Einn leikmaður dregur spjald með orðum sem sýnd eru hinum leikmönnunum. Þeir eiga svo að gefa leikmanninum sem dró spjaldið vísbendingu með einu orði (“Just One”) þannig að hann átti sig á hvaða orð er á hans spjaldi. Vandamálið er bara það að allar vísbendingar sem eru eins (sama orðið) núllast út og eru ekki sýndar. Þannig er eins gott að reyna að vera nógu sérstakur með vísbendinguna, en ekki um of þannig að of erfitt sé að giska á rétta orðið.

Stutt og einfalt spil, sem hentar vel í lítil fjölskylduboð þessi jólin … og ekki verra að hafa þetta allt á íslensku.


Decrypto er eitt af mínu uppáhalds partýspilum. Decrypto er fyrir 3-8 leikmenn, 8 ára og eldri. Leikmenn skipta sér í tvö lið sem sitja á móti hvort öðru við borðið. Dregin eru fjögur orðaspjöld á hvort lið og gengur spilið út á að reyna að koma þriggja stafa tölukóða, byggðan á orðunum á spjöldunum, til leikmanna í sínu liði án þess að hitt liðið geti komist að tölukóðanum. Decrypto er sem sagt njósnaspil þar sem galdurinn er að búa til sem bestan orðaleikjakóða. Þetta er flókið að útskýra á prenti og því ætla ég að láta hér staðar numið, enda byrjar spilið með nýju fólki hjá mér yfirleitt á því að segja “prófum þetta bara, þið áttið ykkur á því hvernig þetta virkar um leið og fyrsta umferð er búin” … og viti menn, það virkar alltaf 🙂

Ég get ekki mælt nógu mikið með þessu spili, með rétta hópnum er þetta eitt besta partýspil sem ég hef spilað.


Runir er íslenskt teningaspil fyrir 2-4 leikmenn, 8 ára og eldri, sem kom út fyrir skömmu. Íslensk spilaútgáfa hefur verið að sækja í sig veðrið síðustu ár, en það sem mér finnst helst há henni er hversu fastir íslenskir spilahönnuður eru í spurningaspilum, einföldum “roll and move” spilum eða bara að taka áður útgefin erlend partýspil og gefa út sem íslensk. Runir brýtur sig frá fjöldanum og því vert að veita því athygli.

Í Runir eru leikmenn rúnameistarar á víkingatímum sem skera út rúnir í steina með aðstoð teninga. Spilið byggir á íslenska Fuþark rúnaletrinu en inniheldur einnig tilvísanir í vestfirskar galdrarúnir. Leikmenn kasta teningum sem sýna rúnatákn og finna samsvarandi tákn á steinum sem eru á spilaborðinu. Gull, silfur og kopar fæst fyrir rúnirnar og markmiðið er að safna sem flestum stigum, m.a. með heimsókn í hásal jarlsins.

Þarna er að mínu mati metnaðarfull íslensk spilahönnun, en Svavar sem hannaði spilið hefur áður gefið út m.a. Mythical Island.


Azul þríleikurinn eru spil fyrir 2-4 leikmenn, 8 ára og eldri. Fyrsta Azul kom út árið 2017 og varð strax mjög vinsælt en spilið hefur unnið til fjölmargra verðlauna þ.á.m. Spiel des Jahres (spil ársins 2018 í Þýskalandi).

Í Azul eru leikmenn að sækja keramikflísar og raða upp í veggskreytingu. Hljómar kannski ekki spennandi, en spilið er mjög gott og ekki verra hvað það er litríkt og fallegt. Óhætt að mæla með Azul fyrir mjög breiðan aldurshóp.

Í kjölfarið á Azul komu svo Azul: Stained Glass of Sintra og Azul: Summer Pavilion. Af þessum tveimur er ég nú hrifnari af Summer Pavilion, en þar sem ég er djúpt sokkin í heim borðspilanna varð ég náttúrulega að eignast öll þrjú. Við höfum meira segja gengið svo langt að halda Azul spilamót þar sem öll spilin eru spiluð og sá sem nær hæstum stigum samanlagt úr öllum er sigurvegari.

Falleg og góð spil.


My City er nýjasta spilið frá Reiner Knizia sem er einn þekktasti borðspilahönnuður samtímans. My City er fyrir 2-4 leikmenn, 10 ára og eldri. Spilið er hægt að spila sem svokallað Legacy spil, þar sem spilaðir eru 24 kaflar og leikborðinu breytt og nýjir hlutir bætast við í gegnum spilið. Leikmenn byggja upp borgir með byggingum sem eru í formi Tetris kubba og þurfa að raða borginni sinni upp á sem skynsamlegastan máta.

Ég er svolítið spenntur fyrir My City þar sem þarna er komið stutt Legacy spil, hægt er að spila það á um 30 mínútum í hvert skipti. Svo er ég alltaf smá forvitinn þegar Dr. Knizia gefur út nýtt spil 🙂


Mariposas er gullfallegt fiðrildaspil frá sama hönnuði og hannaði spilið Wingspan sem hefur hlotið mikið lof og fjölmörg verðlaun. Mariposas er fyrir 2-5 leikmenn, 14 ára og eldri. Leikmenn stýra flokki fiðrilda sem fljúga frá Mexíkó norður á bóginn á vorin, dreifa sér yfir sumarið og snúa svo aftur til suðurs á haustin.

Ég veit ekki mikið meira um þetta spil, nema hvað það lítur virkilega vel út og á víst að vera gott miðað við þá gagnrýni sem ég hef séð. Alltaf gaman að sjá eitthvað nýtt viðfangsefni í spilahönnun.


The Isle of Cats er nýtt spil fyrir 1-4 leikmenn, 8 ára og eldri. Í spilinu eru leikmenn að reyna að bjarga sem flestum köttum frá Kattarey áður en hinn illi Lord Vesh mætir á svæðið og fangar kettina. Kettirnir eru af mismunandi stærðum og gerðum (mismunandi Tetris flísar) sem leikmenn verða að raða á skipið sitt á sem snjallastan hátt.

Flott og skemmtilegt spil. Svo er hægt að bæta við viðbótinni Late Arrivals og með því stækka spilið upp í 6 manna.


Pandemic Legacy – Season 0 er nýjasta Pandemic spilið og þar er farið aftur í tímann til kalda stríðsins þar sem leikmenn eru njósnarar fyrir CIA og eiga að reyna að koma í veg fyrir “Project MEDUSA” sem er efnavopnaverkefni Sovétmanna. Spilið byggir að mestu á svipuðum grunni og Pandemic en með aðeins öðruvísi snúningi. Við vorum búin að klára Pandemic Legacy – Season 1 og mig langar hrikalega mikið að komast í þetta. Hef heyrt vel ef því látið.


Að lokum verð ég svo að minna á nokkur af mínum eldri uppáhaldsspilum, spil sem eiga heima í jólapökkunum þó þau séu nokkurra ára gömlu. Þetta eru Splendor, Ticket to Ride serían með öllum sínum viðbótum, Pandemic gamla og góða og svo Codenames sem nú er komið út í íslenskri útgáfu.

Gleðilega hátíð!

Arnar


Published by

Leave a Reply

Your email address will not be published.