Jólin eru tíminn til að njóta samveru með fjölskyldunni og vinum. Í ár verður örugglega minna um vini og meira um „bara“ fjölskylduna, enda hafa Almannavarnir mælt með litlum og þéttum jólakúlum þetta árið. Því verða án efa færri hittingar og lítið af jólaboðum og því upplagt að hreiðra um sig með nærfjölskyldunni, hafa notalegt og grípa í spil.
Hér hef ég tekið saman lista yfir spil sem henta vel yfir jólin eða í jólapakkana. Í þessum fyrri hluta eru tekin saman fjölskyldu- og barnaspil.


Dinosaur Tea Party er skemmtilegt fjölskylduspil fyrir 3-5 leikmenn, 7 ára og eldri. Leikmenn eru risaeðlur í teboði, sem muna ekki nöfnin á hinum gestunum í boðinu. Spilið gengur því út á að reyna að giska á hver er hvaða risaeðla með því að spyrja hvern annan spurninga um einkenni (“Ertu með hatt?”, “Ertu í græna herberginu?” o.s.frv.). Sykurmolar fást að launum fyrir að giska á rétt nafn og sá fyrsti til að fá þrjá sykurmola vinnur. Þetta spil hefur slegið í gegn hjá minni fjölskyldu og verður án efa á borðinu um jólin.

Spilið fæst m.a. í vefverslun Spilavina.


Karuba Junior er samvinnuspil fyrir 1-4 leikmenn, 4 ára og eldri. Leikmenn eru á eyjnni Karuba að leita að fjársjóði með þremur hugrökkum ævintýrakrökkum. Lagðar eru niður flísar til að bjarga fjársjóði áður en sjóræningjar ná til eyjunnar.

Karuba Junior er einfölduð barnaútgáfa af spilinu Karuba sem kom út árið 2015, en óhætt er að mæla einnig með því spili. Það spil er fyrir 2-4 leikmenn, 8 ára og eldri. Við spiluðum Karuba alveg í hengla hér um árið og ef ég ætti yngri börn þá myndi ég klárlega bæta Karuba Junior í safnið.

Spilið fæst m.a. í vefverslun Spilavina.


Outfoxed er samvinnuspil fyrir 2-4 leikmenn, 5 ára og eldri. Í spilinu ferðast leikmennirnir um borðið til að safna vísbendingum og komast að því hver stal verðlaunabökunni hennar frú Plumpert. Leikmenn verða að vera snöggir til að leysa málið því refurinn seki er að flýta sér í holuna sína. Markmiðið er að ná að grípa refinn áður en hann sleppur. Samvinnuspil eru mjög sniðug, sérstaklega fyrir börn sem eiga erfitt með að sjá aðra vinna. Í spilinu verður að deila sigrinum, sem sumir eiga stundum erfitt með 🙂

Spilið fæst m.a. í vefverslun Spilavina.


Dragomino er barnaútgáfa af spilinu Kingdomino sem kom út árið 2016. Dragomino er fyrir 2-4 leikmenn, 5 ára og eldri. Í spilinu eru leikmenn drekaþjálfarar á eyju sem keppast um að uppgötva eyjuna og finna sem flesta drekaunga. Spilið er mjög fallegt og einfalt í spilun. Þrátt fyrir að það byggi í raun og veru mikið á heppni, þar sem leikmenn draga úr bunka af risaeðlueggjum, þá snýst spilið einnig um að átta sig á hvernig best er að raða upp eyjaflísunum til að ná sem flestum eggjum.

Spilið fæst m.a. í vefverslun Spilavina.


Junior Scrabble er einfölduð barnaútgáfa af hinu gríðarvinsæla Scrabble, en þessi útgáfa er fyrir 2-4 leikmenn 5 ára og eldri.
Junior Scrabble kennir börnum að stafa orð eftir forskrift og mynda orð eftir eigin minni og skilningi. Spilið inniheldur reglur sem henta tveimur mismunandi aldurshópum. Scrabble er klassískt spil og ég á von á að þessi útgáfa sé sniðug til að auka orðaforða barna og kenna þeim stafsetningu. Ekki slæmt að lauma inn kennslu á meðan spilað er skemmtilegt spil.

Spilið fæst m.a. í vefverslun Spilavina.


HiLo er stutt og einfalt kortaspil fyrir 2-4 leikmenn 8 ára og eldri. Í spilinu er hver leikmaður með 9 spil fyrir framan sig raðað upp í 3×3 ramma. Markmiðið er að enda með sem lægsta heildarsummu spila í lok umferðar. Það er gert með því að skipta út háum spilum fyrir lægri spil úr sameiginlegum dragbunkum. En liturinn skiptir líka máli og hvaða spil þú skilur eftir handa leikmanninum sem á leik á eftir þér.

Spilaðar eru nokkrar umferðir þangað til einhver hefur rofið 100 stiga múrinn, en þá sigrar sá sem hefur fæst stigin. Enn og aftur, spil sem “kennir” um leið og spilað er, en er engu að síður skemmtilegt.

Spilið fæst m.a. í vefverslun Spilavina.


Metro X er spil fyrir 1-6 leikmenn, 8 ára og eldri. Spilið gengur út á að byggja neðanjarðarlestarkerfi með því að krossa í reiti sem tákna stoppistöðvar á spjaldi. Í hverri umferð er einu spili snúið við sem sýnir hversu margar stoppistöðvar megi fylla upp í. Leikmenn verða að vera útsjónasamir til að ná að klára leiðirnar sínar, því mínusstig fást fyrir ókláraðar stoppistöðvar.

Við höfum spilað þetta nokkrum sinnum og það verður að segjast að spilið býður upp á dágóða heilaleikfimi. Svo er hægt að spila þetta einn með sjálfum sér ef manni leiðist eða langar til að reyna á heilasellurnar og ná sem hæstum stigum.

Spilið fæst m.a. í vefverslun Spilavina.

Þetta er fyrri hluti listans yfir spil sem ég mæli með í jólapakkana, nú eða sem möndlugjöf þessi jólin. Í seinni hlutanum verða svo spil fyrir eldri fjölskyldumeðlimina og þá sem lengra eru komnir … af nógu er að taka 🙂

Bestu kveðjur og góða skemmtun,

Arnar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *