Föstudagspizzan

Pizza í matinn á föstudögum er hefð hjá minni fjölskyldu eins og svo mörgum öðrum. Þessari hefð höfum við haldið alveg síðan við bjuggum í Danmörku en þá fengum við okkur alltaf pizzu á föstudögum, ýmist heimagerða eða pantaða. Ég sakna alltaf uppáhalds pizzunnar minnar frá Danmörku en hún var með kebab, salati og sýrðum rjóma ofan á.

Pizzurnar sem eru bakaðar á mínu heimili eru mjög mismunandi og hafa breyst mikið eftir því sem börnin fullorðnast. Núna erum við orðin sex á heimilinu eftir að kærasti bættist í fjölskylduna og allir eiga sína uppáhalds pizzu.

Sonur minn og eiginmaður vilja hafa sína með mikið af sósu og osti, pepperoní, skinku, beikon, rjómaost, pipar og svo bætir eiginmaðurinn alltaf döðlum á sína. Eldri dóttir mín og kærasti hennar eru grænmetisætur. Þau setja því sósu, ost, rjómaost, ananas, sveppi og papriku oftast á sína pizzu. Svo er það yngsta barnið sem hefur einfaldan smekk og fær sér oftast bara sósu og ost. Sjálf er ég þessa daganna hrifnust af því að fá mér sveppi, ananas og skinku.

Pizzabotninn sem ég nota hefur fylgt mér mjög lengi og hef ég prufað margar aðrar uppskriftir en alltaf komið aftur að mínum gamla góða. Hann er ótrúlega einfaludur og þægilegur í notkun. Ég held að aðal trixið við hann sé að vera með akkúrat rétt hitastig á vatninu. Ég hef smá yl á vatninu, alls ekki of heitt því það er verra heldur en að hafa það of kalt. Svo læt ég gerið leysast upp í vatninu í ca. 5 mín og svo er öllu blandað saman. Ég passa mig alltaf á því að hræra aðeins í skálinni þegar allt er komið í hana með sleikju svo það myndist ekki þurrir kekkir í botninum. Svo læt ég bara hrærivélina um rest.

Pizzubotn:
25 gr pressuger eða 2 1/2 tsk þurrger
1 1/2 d volgt vatn
1 msk matarolía
4 dl hveiti
1/2 tsk salt

Verði ykkur að góðu og góða helgi!

Stína

Published by

Leave a Reply

Your email address will not be published.