Lífið

10 fjölskylduvænir hlutir til að gera um helgina!

Föstudagur og helgin framundan. Nú hafa afþreyingar möguleikar okkar aðeins minnkað og ekki eins auðvelt að hafa ofan af fyrir börnunum. Hér koma nokkrar hugmyndir sem þið getið vonandi nýtt ykkur:

Tjörnin

Það er alltaf vinsælt að fara niður að tjörninni í Reykjavík og gefa öndunum brauð. Góð skemmtun fyrir foreldra og börn af öllum aldri. Bara muna að taka með nóg af brauði…þær geta verið ansi gráðugar. Einnig er hægt að fara upp að Elliðaárstíflu og andapollinum í miðbæ Hafnarfjarðar.

Jólaljósa-göngutúr

Göngutúr um hverfið að skoða hvernig jólaljósin eru að þjóta upp. Gaman gæti verið að hver fjölskyldumeðlimur velji sér uppáhalds hús eða götu. Skemmtilegast er að fara síðdegis svo jólaljósin njóti sín.

Lautarferð innandyra

Ef veðrið leikur ekki við okkur er hægt að útbúa lautarferð innandyra; færa sófaborðið frá, setja teppi á gólfið og ná sér í eitthvað kruðerí. Ekki er verra að setja kruðeríið í fallega körfu og fara með lautarferðar þemað alla leið.

Spilastund

Borðspil ættu að vera til á hverju heimili og eru fyrirtaks afþreying. Sum spil hafa meira að segja markmið falin í sér, t.d. að auka félagsfærni eða bæta stærðfræðihæfni. Að spila saman getur verið frábær fjölskyldustund á köldum vetrardegi.

Miðbæjarferð

Miðbærinn okkar hefur vissulega átt betri daga en það er þó gaman að koma þangað. Sérstaklega eftir að bærinn var skreyttur. Við mælum með göngutúr niður í bæ, síðdegis, til að skoða jólaskreytingarnar, kíkja í búðaglugga, kaupa heitt súkkulaði í göngumáli, kíkja upp á Arnarhól og drekka heita súkkulaðið á meðan horft er á ljósin í Hörpunni. Þegar við fórum í slíka ferð um daginn var verið að setja upp undirstöðurnar fyrir jólaköttinn á Lækjartorgi þannig að hann fer nú væntanlega að láta sjá sig.

Föndur

Photo by Sigmund on Unsplash

Það er hægt að finna ótal hugmyndir af flottu föndri á netinu og oftast góðar leiðbeiningar með. Pinterest er mjög góður byrjunarpunktur fyrir föndurstund en þar úir og grúir af alls kyns fallegum hugmyndum. Sláið bara inn í leit hvað þið viljið föndra og veljið eitthvað flott. Gott er að vera búin að velja viðfangsefnið áður og tína til það sem þarf í föndrið.

Bakstur

Photo by James Besser on Unsplash

Flestum börnum finnst gaman að baka með foreldrum. Passið bara að velja auðvelda uppskrift sem þau geta ráðið við og munið að anda rólega þó allt fari á hvolf. Það er samveran sem skiptir máli…og afraksturinn.

Gönguferð í náttúrunni

Það þarf ekki að fara langt til að finna náttúruperlur og útivistasvæði. Elliðaárdalurinn, Fossvogurinn, Öskjuhlíðin, Laugardalurinn, Víðistaðatún eru svo til í bakgarði okkar. Einnig er hægt að keyra í Heiðmörk, að Hafravatni eða ganga í kringum Hvaleyrarvatn. Gönguferð í náttúrinni er góð fyrir sálina og líkamann og yfirleitt hressast jafnvel mestu innipúkar í slíkri ferð.

Fjar-Bingó

Photo by Chris Montgomery on Unsplash

Notum tæknina og skellum upp Bingó stund með ættingjunum sem við getum ekki hitt núna. Forritið Zoom hentar vel í svona viðburð og allir ættu að geta skemmt sér vel.

Hæfileikakeppni fjölskyldunnar

Photo by Laura Fuhrman on Unsplash

Setjið upp hæfileikakeppni fjölskyldunnar þar sem óvæntir hæfileikar fjölskyldumeðlimir koma án efa í ljós. Hægt er að syngja, dansa, hafa brandarakeppni…jafnvel setja upp leikþátt. Og það þarf að sjálfsögðu að gefa heiðarlega dóma eftir hvert atriði.

Höfum það gaman saman.

Góða helgi!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *