Haustið

Haustið er nýi uppáhalds tíminn minn. Þetta haust sem nú er senn að líða hefur opnað augu mín fyrir hveru frábær þessi árstími er. Sumarið og vorið hafa alltaf verið minn tími og ég hef talið niður dagana þar til ég get farið í ferðalög um landið, skipulagt lautarferði, gönguferðir og byrjað að sá fræjum og byrja að dúllast í sumarblómum. Enda veit ég fátt meira gefandi og skemmtilegt en rækta og stússast í blómum og gróðri almennt.

Hérna á Íslandi getur verið varasamt að setja miklar væntingar og plön á sumarið, sérstaklega ef gert er ráð fyrir sól og blíðu í þeim plönum. Sjálf hef ég stundum upplifað stress þegar góðveðurs dagar mæta, því ég er með svo mikið sem ég ætla að gera; bjóða vinum í grill, fara í langa gönguferð með nesti út úr bænum og svona mætti lengi telja.

Þetta haust hefur verið ótrúlega milt. Veðrið var mjög fallegt og bauð upp á skemmtilega útiveru á fallegum stöðum. Ég hef eignast fullt af uppáhaldstöðum við Hafravatn, í hrauninu við Hafnafjörð og í Heiðmörk. Sérstaklega hefur það verið gott að komast út í náttúruna á þessum sérstöku og erfiðu tímum sem við erum að lifa: Mér hefur fundist bæði mjög gott að rölta ein um með voffa mínum og tæma hugann, bara njóta fallegu náttúrunnar og vera algerlega i núinu eða hitta góðan vin eða ættingja sem annnars hefði ekki verið hægt að hitta í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu, þar sem margir þurfa að fara sérstaklega varlega. Þarna gefst þá tækifæri til að rölta um og spjalla,annað hvort með hæfilegri fjarlægð eða með grímur. Hlúa þannig að andlegu og líkamlegu heilbrigði.

Hluti af ástæðunni fyrir því hversu vel ég naut haustins, töluvert betur en sumarsins, er sú að ég var ekki með neinar væntingar. Ég tók bara hverjum góðviðrisdeginum fagnandi og naut hans í botn.

Það er sennilega ákveðin lærdómur falinn í þessu; að gera ekki of miklar væntingar og best er að geta bara notið hvers dags eins og hann kemur fyrir.

Njóttu dagsins!

Stína

Published by

Leave a Reply

Your email address will not be published.