Kanilhringur

…af því það er rok úti. Og blautt. Og faraldur…og af því að bökunarilmur í húsinu á svona degi gerir lífið bara miklu betra!

Þessi uppskrift dúkkaði bara allt í einu í uppskriftabunkanum mínum, á ljósrituðu blaði. Líklegast er að hún hafi komið heim úr heimilisfræði með öðrum stráknum mínum. Góð er hún og uppskriftin dugar í tvo kransa eða einn krans og kanilsnúðaköku. Eða bara fullt af stökum snúðum!

Klipptur krans eða lengja

50 gr. bráðið smjörlíki, látið kólna aðeins

1 dl. mjólk

1 dl. heitt vatn

4 tsk. þurrger

2 msk. sykur

1/4 tsk. salt

1 egg

6-7 dl. hveiti

  1. Bræðið smjörlíkið við lágan hita.
  2. Blandið mjólk, vatni, sykri, þurrgeri og salti saman í skál.
  3. Hellið brædda smjörlíkinu saman við og setjið eggið út í ásamt 5 dl. af hveitinu. Hrærið og bætið meira hveiti við eftir þörfum.
  4. Sláið deigið til og látið það lyfta sér í ca. 30 mínútur
  5. Takið til það sem á að vera í fyllingu. Það getur t.d. verið kanilsykur og brætt smjör, marsipan, , epli eða sultur.
  6. Hnoðið deigið saman fyrst í skálinni, og bætið við hveiti ef þarf, og svo á borðinu. Breiðið út í tvær aflangar kökur.
  7. Penslið með smjöri og setjið fyllinguna í.
  8. Rúllið deiginu upp eða brjótið saman yfir fyllinguna og setjið á plotu. Ef deigið er rúlla má setja það í hring á bökunarplötu og klippa mynstur (Klippið á ská niður í deigið og leggið deiglaufin til skiptis til hægri og vinstri undir botninn).
  9. Penslið með eggjablöndu og stráið grófum sykri, möndlum eða hnetum ofan á, ef vill.
  10. Setjið í miðjan 100 gráðu ofn (forhitaðann) og hækkið í 200 gráður. Bakið í 15-20 mín.

Verði ykkur að góðu!

Magga

Published by