Vinnurými

Ég hef unnið heima síðastliðið eitt og hálft ár. Tók þá ákvörðun að fylgja draumunum og vera einyrki. Það þýðir að stórum hluta af vinnudeginum eyði ég heima, í vinnuherberginu … eða L´Atelier-inu eins og ég kýs að kalla það 😉 Það er ákveðin áskorun fólgin í því að ráða tíma sínum sjálf og eitt af áhyggjuefnum mínum var hvort ég myndi ná að vera nógu öguð í þetta. Hvort ég myndi ekki bara liggja í sófanum og horfa á Netflix allan daginn. En svo er ekki. Ég vakna alla daga með hinum fjölskyldumeðlimum, fer svo út með hundinn og mæti svo á skrifstofuna. Og vinn og brasast. Mismikið suma dagana og misgáfulegt. En ég vinn og legg sprek á eld framtíðardraumanna. Svo kemur bara í ljós hversu glatt hann á eftir að loga. Ég er ánægð með þessa ákvörðun þó svo að ég sakni gömlu vinnufélaganna og skrafsins á kaffistofunni. Það skal líka viðurkennt að hluti af draumnum í upphafi var að fara oftar út á kaffihús og vinna þar … en þau plön voru stoppuð af veiruvöldum. Vonandi stendur það til bóta.

Fyrir mig, sem eyði lunganum úr deginum í vinnuherberginu, skiptir miklu máli að rýmið sé skapandi og aðlaðandi. Ég er aðeins búin að flakka á milli herbergja hér heima, verandi með ungling sem þurfti stærra rými o.þ.h. En eftir áramómt flutti ég mig (aftur) yfir í minnsta herbergið og eftirlét unglingnum stærra herbergið … sem ég var nýbúin að standsetja sem vinnuhergbergi. Hvað gerir maður ekki fyrir þessar elskur.

Og hér er það, L´Atelier-ið. Herbergið þar sem allskonar skrýtið dót og litríkir hlutir fá að vera. Bækur, blöð, penslar, babúskur og blóm. Óstíliserað og allskonar. Rými til að skapa og dreyma. Verk í vinnslu og hver veit nema ég verði búin að breyta eftir viku.

Eigið ljúfan laugardag!

M

Published by

Leave a Reply

Your email address will not be published.