Lífið

Dagbækur

Ég hef í gegnum tíðina haldið dagbækur. Mér finnst gaman að skrifa í þær, stundum af því að lífið er svo skemmtilegt og stundum af því að það er svo erfitt og þá er gott að skrifa um erfiðleikana.

Ég hef ekki skrifað hvern einasta dag en byrjaði að alvöru aftur að nota dagbækur þegar ég byrjaði í háskóla komin á fertugsaldur. Þá vildi ég hafa dagbók til að halda utan um það sem þurfti að gera í skólanum. En svo slæddist líka fullt af öðru skemmtilegu með. Ég átti mér uppáhalds dagbókarform, sem ekki fæst lengur. Ég var aðeins vængbrotin þegar þær dagbækur hættu að fást en tók gleði mína heldur betur á ný þegar þegar hún Magga mín sýndi mér dagbókina sína. Hún er ansi listræn hún vinkona mín og var með fallega bók með auðum síðum (eða síðum með punktum sem mynda kassa og auðvelda að teikna inn í bækurnar) þar sem hún teiknaði einfaldlega inn sína daga og skreytti að vild.

Ég hef aldrei talið mig mjög listræna í þeim skilningi að teikna sjálf en ég er alveg ágæt í að setja eitt og annað saman og þó ég segi sjálf frá, þá kemur það ágætlega út. En sem sagt, árið 2019 fór ég að gera mínar dagbækur sjálf og skemmti mér mjög vel við það. Magga kynnti svo fyrir mér að á Pinterest er endalaust magn af hugmyndum til að gera fallega hluti í dagbækur ef maður slær inn leitarorðinu „bullet journal“

Fyrir meira en 10 árum datt mér í hug að skrifa niður nokkur orð um hverja utanlandsferð sem ég hafði farið í. Bæði langaði mig að finna út hvað ég væri búin að fara í margar utanlandsferðir og svo átti ég bara svo fallega bók sem var vel til þess fallinn. Ég var mjög glöð núna í haust að eiga allt það efni þegar ég ákvað að uppfæra hana og gera hana í „bullet journal“ formi.

Til dagsins í dag hef ég farið í 33 utanlandsferðir. Mér finnst það bara þó nokkuð því þegar ég var ung voru þær ekki eins algengar og sjálfsagðar og þær eru í dag.  Ég er því búin að dunda mér við að skrifa eftir gömlu bókinni og endurgera minningarnar mínar. Ég skrifa ekki meira en blaðsíðu um hverja ferð og skreyti svo. Þannig að ein opna er fyrir hverja ferð, texti hægra megin og skreyting vinstra megin.  Ég hef sett límmiða með korti af hverju landi fyrir sig og svo skreyti ég með teikningum, límmiðum og ýmsu öðru sem ég hef viðað að mér. Ég keypti mér stórskemmtilegan prentara fyrr á árinu þar sem hægt er að prenta út litlar myndir á límmiða og svo líka á hvíta og litaða renninga. Læt mynd af honum fylgja með en ég fékk hann á paperang.com. Ég hef líka sett „ferðaquote“ inn á milli, eitthvað sem mér finnst fallegt og stemma við mig.

Eins og ég sagði í upphafi, er ég ekki mjög listræn við að teikna og svoleiðis, en ég hef látið vaða í dagbækurnar mínar og þið fáið að sjá eitthvað að því. Þetta snýst líka bara um að ég sé sátt og ánægð, ég er ekki að þessu fyrir neina aðra.

Það hefur ekki verið auðvelt að fá hérlendis fallega límmiða, blöð eða annað til að skreyta bækurnar með og því hef ég aðeins verið að panta á netinu. Svo er líka komið skemmtilegt verkefni í næstu utanlandsferðum: að leita að skreytingaefni til að fylla inn í bækurnar. Núna er ég semsagt með mína dagbók þar sem ég skrifa inn í hverjum mánuði og svo ferðadagbókina. Alltaf gott að hafa hobbý.

Vona að þið fáið einhverjar hugmyndir og farið að leyfa ykkar listagyðju að njóta sín ef ykkur finnst þetta áhugavert.

Kristín Sk.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *