Lífið

Að ferðast eða ekki ferðast…

“We travel not to escape life, but for life not to escape us.”

Síðasta eina og hálfa árið hefur verið skrítið fyrir okkur öll og fyrir flesta lítið um ferðalög. Ég elska að ferðast, að sjá nýja staði og upplifa nýja hluti. Að “týnast” í stórborg og rápa um er eitt að skemmtilegasta sem ég veit. Það er bara eitthvað svo gott að sjá lífið fyrir utan Ísland. En þar sem ég hef líka tilhneigingu til að ofhugsa hlutina og mikla fyrir mér hafa ferðalög á þessum tíma ekki virkað spennandi. Fyrr en núna.

Ofhugsarinn ég fór nefnilega loks í sína fyrstu utanlandsferð á covid tímum. Það var vissulega erfitt að taka þessa ákvörðun og auðvelt að sannfæra sig um að það væri bara best að vera heima. Ofhugsarar höndla nefnilega ekki mikla óvissu og eiga auðvelt með að fara í “hvað-ef” pakkann.

Ég hef fylgst með fólki skottast út í heim og smátt og smátt sannfærst um að kannski væri þetta bara í lagi. Þegar ég sé svo mynd af fyrrverandi vinnufélaga komna lengst suður í álfu, verandi þó nokkrum árum eldri en ég, ákvað ég að nú væri nóg komið.

Eftir að hafa velt nokkrum borgum fyrir okkur (Edinborg, Kaupmannahöfn, Amsterdam, Stokkhólmur) varð Stokkhólmur fyrir valinu. Við höfum komið þarna áður og borgin er bæði falleg og þægileg. Stór hluti af ákvarðannatökunni var hversu auðvelt væri að komast þangað, hverjar innkomukröfurnar í landið væru og einnig að borgin krefðist ekki mikilla ferðalaga með almenningssamgöngum.

Það er gott að gefa sér góðan tíma á flugvellinum þar sem allt tekur lengri tíma. Við vorum búin að tékka okkur inn online og þegar við komum á völlinn var röðin frekar löng. Við gátum hins vegar farið í self-service kassana og klárað innritunina, þ.e. prentað út töskumiðana og brottfararspjöldin. Því næst var farangrinum skilað og þar var engin röð. Ekki er gerð krafa um að vera með grímur á flugvellinum en það eru þó vinsamleg tilmæli. Það er hins vegar skylda að vera með grímu um borð í vélinni. Þó er leyfilegt að taka hana af til að drekka og borða. Þetta reyndist hið minnsta mál og flugið var hið ánægjulegasta.

Að komast inn í Svíþjóð er ekkert mál. Engar kröfur eru gerðar á ferðamenn sem koma frá Íslandi og þú í raun og veru gengur bara inn í landið. Og eftir að komið er inn í borgina var ósköp lítið sem minnti á faraldurinn. Einstaka skilti sem minnti á að halda fjarlægð við næsta mann.

Að sama skapi gekk heimferðin vel. Bara muna að hafa bólusetningaskírteinið í símanum og vera búin að skrá þig inn í landið (pre-registration). Við þurftum að sýna þetta tvennt við innritunina á Arlanda og innritunin var eins og gefur að skilja frekar hæg, það þarf jú að yfirfara fleiri atriði hjá hverjum farþega en áður. Arlanda er ótrúlega þægilegur völlur og ekkert stress í gangi þar.

Þegar til Íslands var komið var allt ósköp svipað og áður, þ.e. ef þú ert að koma frá löndum sem eru á svipuðum stað og Svíþjóð. Þú þarft að fara í covid próf en getur ráðið hvort þú gerir það á vellinum eða innan tveggja daga frá heimkomu. Við völdum að leysa þetta af á flugvellinum og það gekk hratt fyrir sig. Rétt fyrir miðnætti á heimkomudeginum fengu allir úr hópnum niðurstöðurnar. Í þessum 10 manna hóp fengu allir neikvætt úr prófinu 🙂

Allt í allt vel heppnuð ferð og ofhugsarinn hefði getað sleppt nokkrum lotum af ofhugsunum við undirbúning ferðarinnar.

Magga

  • meira um Stokkhólm í næsta pósti 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *