Fjölskyldan,  Hrekkjavaka

Hrekkjavökupósturinn

Hér kemur hann…árlegi hrekkjavökupósturinn. Við höfum nefnilega gaman af hvers kyns stússi og því að gera lífið skemmtilegra, finna tilefni til að gleðjast. Þess vegna höldum við hrekkjavöku. Við höfum áður komið inn á þetta málefni, þetta með að vera að halda upp á þennan sið. Árlega heyrum við fólk kvarta undan því að vera að herma eftir Bandaríkjunum en það er bara ekki rétt…þetta er nefnilega keltneskur siður í grunninn og dýpri pælingar á bak við hann eins og hún Þórunn fór í gegnum fyrir okkur í pistli sínum hér.

Síðustu árin höfum við systur skipst á að halda hrekkjavökuboð fyrir okkar nánustu. Húsið er skreytt að tilheyrandi sið og fólk fer í sína skelfilegustu búninga, krakkarnar skjótast út um hverfið og krækja í sælgæti. Sumar götur og hverfi fara “all in” og þar er gaman að labba með gríslingum. Það gladdi mig sérlega mikið þegar ég fór með yngri syninum í eina af þessum götum fyrir tveimur árum. Gatan var mjög skemmtilega skreytt og flestir íbúanna tóku þátt, stigagangarnir litu út eins og draugahús og alls staðar var flott skraut. Þegar við vorum að halda heim á leið vildi hann stoppa í einu húsi enn. Þar var lítið um skreytingar en grasker á tröppum gaf til kynna að þarna væri hægt að fá eitthvað gott. Ég stóð á gangstéttinni og horfið á soninn berja dyra. Eftir smástund opnuðust dyrnar löturhægt, og drungaleg tónlist barst úr rökkvuðu andyrinu. Ég sá minn mann taka eitt skref til baka og ekki var laust við að ég fengi hroll þar sem ég stóð í öruggri fjarlægð, þegar vera stígur fram úr myrkrinu. Veran teygir hægt fram loppuna, réttir barninu sælgæti, hverfur aftur inn í myrkrið og dyrnar lokast. Frábær endapunktur á flottu kvöldi og sonurinn vildi flýta sér heim eftir þetta 😉

Við leyfum hér að fljóta með nokkrum myndum af hrekkjavökugleði okkar í gegnum árin…

Hrekkjavakan er sem sagt fínindis afsökun til að halda góða veislu, grípið tækifærið!

Stína og Magga

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *