Haustverkin í garðinum

Haustverkin í garðinum geta verið þó nokkur og mig langar til þess að deila með ykkur eitthvað af því sem ég geri bæði til þess að njóta uppskerutímans sem haustið er og einnig til að undirbúa garðinn minn fyrir veturinn.

Gróðursetning haustlauka. Mér finnst mjög gaman að setja niður haustlauka, en í stað þess að setja þá niður í beð eins og ég gerði alltaf áður, þá finnst mér skemmtilegast að setja þá þétt í blómapott. Það kemur mjög fallega út á vorin.

Fræsöfnun, ég safna allskonar fræjum, t.d. af vatnsberum, trjám og þeim sumarblómum sem mig langar að rækta næsta ár. Þær tegundir sumarblóma sem auðvelt er að safna fræjum af eru fjólur, stjúpur og morgunfrú.

Þurrkun blóma og kryddjurta. Ég klippi af opnuðum nýlegum morgunfrúarblómum og þurrka til að nota í te í vetur, þetta er í miklu uppáhaldi hjá mér. Þetta er mjög heilsubætandi og bragð gott te en Morgunfrúin( Calendula officinalis ) hefur lengi verið notuð til að meðhöndla margs konar húðvandamál og sýkingar. Einnig er hún talin verkjastillandi og bólgueyðandi.

Svo er ég myntu og oregano sem ég klippi og þurrka.

Einnig er sniðugt að klippa strá, alpaþyrnir eða önnur blóm sem gaman er að prufa að þurrka í skreytingar og vasa.

Ég sting svo upp rósmarínið mitt og steinseljuna og færi þær inn í gróðurhús. Stundum teki ég líka smá rótarskot af myntu til að koma til inni gróðurhúsi til að geta fengið mér ferska myntu í teið í vetur.

Gott er að raka laufin af grasflötinni og jafnvel bera sand á grasið ef þú ert að berjast við mosa.

Ég dreifi laufunum í beðin hjá mér til að láta þau brotna niður í vetur og bæta þannig jarðveginn. Afganginn set ég svo í safnhauginn

Svo ætlaði ég að reyna að ná að bera á pallinn, þar sem lítill tími gafst til þess í sumar, en til þess að það geti gerst þarf hann að ná að þorna en slíkt hefur ekki verið í boði í Reykjavík í haust.

Sveppatínsla. Mig langaði mikið til þess að fara í sveppaleiðangur í Heiðmörk en ekki er mælt með að tína sveppi í bleytu svo sennilega verð ég að bíða eitthvað með það.

Svo er alltaf gaman að safna könglum og laufum til þess að pressa/þurrka og nota í skreytingar. Bara að passa upp á að láta lofta vel um það á meðan það er að þorrna.

Dalíur og viðkvæmir laukar. Ég er mikill Dalíu aðdáandi, hef það frá foreldrum mínum, þetta er dásamlega falleg blóm sem blómstar allt sumarið , mér finnst skemmtilegast að hafa lauka en einnig er hægt að sá þeim með fræjum. Laukurinn getur lifað í mörg ár og verður bara stærri og blómin flottari með aldrinum, en það þarf að passa upp á að hann frjósi ekki. Ég tek alltaf þessar plöntur inn og læt þær þorna upp í köldu gróðurhúsi sem ég held frostlausu og þá geymast þeir vel yfir veturinn og byrja svo að vökva aftur í mars. Einnig er hægt að taka laukinn upp og geyma hann t.d. í sagi eins og notað er fyrir nagdýr og geyma í köldu dimmu rými.

Góða skemmtun í garðinum

Kveðja

Stína

Published by

Leave a Reply

Your email address will not be published.