Við áttum erindi til Akureyrar um þar síðustu helgi og hefðum ekki getað hitt á betri helgi. Veðrið var dásamlegt; sól og blíða og bærinn fullur af lífi. Sannarlega kærkomin tilbreyting frá súldinni fyrir sunnan…og reyndar því leiðindaveðri sem herjar á allt landið þessa dagana.
Það var ekki laust við að útlanda tilfinning lægi í loftinu. Alls staðar var fólk að spóka sig og kaffihús og veitingastaðir smekkfullir af fólki, sérstaklega útisvæðin.
Akureyri hefur alltaf heillað mig og hvað þá í svona blíðu. Bærinn er einstaklega fallegur og margt skemmtilegt hægt að gera. Sundlaugin klikkar ekki, ferð á Grænu könnuna er möst og svo þarf auðvitað að kíkja í nokkrar búðir.
Listagilið er skemmtilegt svæði en þar er fallegt að labba um. Ég lét loks verða af því að kíkja inn á Listasafnið á Akureyri og hitti þar á mjög flotta samsýningu í Ketilhúsinu og einnig var flott sýning á verkum Errós á fjórðu hæðinni. Þá heilluðu verk Lilýar Erlu Adamsdóttir mig mikið.
Á svona sólardögum er líka tilvalið að kíkja í Lystigarðinn og spóka sig þar…leggjast jafnvel niður í grasið og sóla sig um stund.
Að lokum er varla hægt að minnast á Akuryeri án þess að tala um Brynjuís…en það er ekki hægt að fara til Akureyrar án þess að fá sér einn…jafnvel tvo Brynjuísa 🙂
Ég mæli svo sannarlega með ferðalagi til Akureyrar. Við komum til baka endurnærð og eilítið sólbrunnin á nefinu.
Magga
Published by