Í framhaldi af póstinum okkar um síðdegisteið kemur hér uppskriftin af skonsunum sem við buðum upp.
Það var búið að vera lengi á listanum að baka ekta enskar skonsur en einhvern veginn hafði aldrei orðið úr því. Þetta var því fínt tilefni til að spreyta sig í skonsubakstri. Útkoman lukkaðist svona líka vel og ég held ég haldi mig bara við þessa uppskrift; skonsurnar eru mjög léttar og loftkenndar og afar bragðgóðar.

Innihald
2 bollar hveiti
2/3 bollar mjólk
1/4 bollar sykur
85 gr. ósaltað smjör
4 tsk. lyftiduft
1/2 tsk salt
1 stórt egg

Aðferð
Stilltu ofninn á 210 gr.
Blandaðu hveiti, lyftidufti, sykri og salti saman í skál.
Skerðu smjörið í litla bita og myldu út í deigið. Best er að nota hendurnar og nudda hveitið og smjörið saman, þar til þetta líkist kexmylsnu.
Blandaðu egginu og mjólkinni saman í aðra skál. Gott að hræra það létt saman.
Helltu blöndunni út í þurrblönduna en geymdu ca. 2 msk. af eggjablöndunni til að smyrja yfir skonsurnar. Hrærðu vel saman.

Hnoðaðu deigið létt saman á hveitistráðri borðplötu. Ekki hnoða of mikið.
Flettu deigið svo út í ca. 4 cm þykkt. Stingdu svo út skonsurnar, annað hvort með glasi eða skonsujárni.
Smurðu eggjablöndunni yfir og bakaðu í ca. 13-15 mín. eða þar til þær eru gullnar og hafa ca. tvöfaldast í hæð.
Samkvæmt hefðinni eru skonsurnar bornar fram með rjóma sem kallast “clotted” rjómi og sultu. Ég hef aldrei lagt í að gera svoleiðis rjóma en læt smjör, ost og sultu duga. Enda er ég svo sem ekki aðalskona heldur sjómannsdóttir að vestan 🙂
Njótið!
Published by