Fjölskyldan,  Lífið

Ferming á tímum Covid

Það er kannski ekki eitt af stærstu vandamálum heimsins þegar heimsfaraldur geysar; hvort hægt sé að halda fermingarveislu. En í augum ungs fermingarbarns getur þetta verið mikið mál.

Yngri sonur okkur var fermdur á sumardaginn fyrsta og dagarnir, jafnvel vikurnar, á undan voru litaðar af stressi. Stressi yfir því hvort hægt væri að halda veislu, hvort barnið yrði yfirleitt fermt, hversu margir mega koma saman og fleira í þeim dúr. Hækkandi smittölur rétt fyrir fermingardag voru ekki að hjálpa til. Hvað ef Þórólfur skellir öllu í lás og við sitjum uppi með snittur sem duga í nokkrar vikur?

Niðurstaðan varð sú að hægt var að ferma með því að skipta hópnum í tvennt og einungis hægt að halda litla veislu fyrir allra nánustu. Hundrað manna salurinn var því afbókaður…

Við skiptum okkar allra nánustu í tvö holl og héldum tvær veislur hér heima. Pössuðum að hafa tíma á milli til að þrífa snertifleti og gæta fyllsta hreinlætis. Fermingarbarnið var alsælt og þó hann hefði viljað fagna með stórfjölskyldunni naut hann dagsins og fékk fallega veislu(r). Hann sá sjálfur um að baka aðra fermingartertuna og bakað kransakökuna með pabba sínum.

Að vanda vorum við með alltof mikið af veitingum, en það er bara okkar stíll 😉 og allir fóru saddir og sælir heim.

Það er ekki laust við að foreldrarnir á þessum bæ hafi andað léttara þegar fermingardagurinn var liðinn. Þetta hafðist og fyrir það erum við, og fermingardrengurinn, afar þakklát.

Ég læt hér fylgja með ljóð sem var í fermingarkorti sem kirkjan gaf fermingarbörnunum. Kortið var gefið út fyrir mörgum árum (sennilega í kringum 1960-70…?) af Bræðrafélag Langholtssafnaðar en á vel við enn í dag enda er þetta nokkurskonar vegvísir eða heillaráð fyrir ungmenni. Boðskapurinn er einfaldur; vertu góð manneskja, sýndu kærleik og horfðu björtum augum á heiminn. Þá mun lífið brosa við þér.

Vertu eins og blóm, sem breiðir

blöð sín mót himni og sól.

Vertu hönd, sem haltan leiðir,

hæli þeim, sem vantar skjól.

Vertu ljós þeim villtu og hrjáðu,

vinur þeirra, er flestir smá.

Allt með björtum augum sjáðu,

auðnan vð þér brosir þá.

M.S.

Magga

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *