Fjölskyldan,  Lífið,  Útivera

Náttúran bíður…

Fyrir ekki svo mörgum árum var ég haldin þeirri ranghugmynd að ekkert væri hægt að gera á Íslandi. Að það hlyti að vera betra alls staðar annars staðar í heiminum. Sem betur fer læknaðist ég af þessum kvilla og kann heldur betur að meta landið mitt og það sem það hefur að bjóða. Það getur verið að þessi hugarfarsbreyting hafi komið til með aldrinum og því að ég leita meira í öðruvísi afþreyingu en ég gerði áður.

En það getur líka verið að þetta sé einmitt bara það; hugarfarsbreyting. Að taka meðvitaða ákvörðun að vera ánægður þar sem maður er…að blómstra þar sem manni var stungið niður. Að vera ánægð með það sem þú átt í stað þess að langa alltaf í eitthvað annað. Þar gæti nefnilega hin sanna hamingja leynst.

Nú er vetrarfríi grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu að ljúka og eflaust margir sem hafa nýtt tímann í samveru með fjölskyldunni. Og þá reynir á þetta, þ.e. hvað er hægt að gera? Það er nefnilega heilmikið og það þarf ekki að alltaf að vera kostaðarsöm afþreying.

Eitt af því sem við elskum að gera er að fara í dagsferðir og erum svo heppinn að yngri unglingurinn nennir ennþá að koma með. Stundum förum við bara þrjú….plús hundurinn auðvitað 😉 Stundum koma aðrir úr stórfjölskyldunni með. Þá er hægt að hafa með sér nesti og borða úti ef veðrið er gott. Nú eða setjast inn á kaffihús eða veitingastaði.

Í nágrenni höfuðborgarinnar eru nefnilega skemmtilegir staðir til að heimsækja. Við höfum t.d. verið dugleg að fara í Hveragerði, borða á Skyrgerðinni eða grípa okkur eitthvað frá Almari bakara og snæða úti í náttúrinni. Gaman er að rölta um bæinn eða skella sér í sund. Svo er líka hægt að keyra niður að sjó og fara í fjöruna við Eyrarbakka. Svæðið á milli Eyrarbakka og Þorlákshafnar er mjög skemmtilegt.

Einn af okkar uppáhaldsstöðum til að stoppa á er svo Knarrarósviti sem er fyrir utan Stokkseyri. Þar er gaman að rölta um og kíkja niðri í fjöru. Einnig býður Reykjanesið upp á óteljandi skemmtilega staði til að skoða: Kleifarvatnið er perla út af fyrir sig. Og tilvalið er að fara að í vita-skoðunarferð og taka hringinn um Reykjanesið. Svæði í kringum Reykjanesvitann er mjög fallegt og fjaran við Garðskagavita er ómissandi stoppistaður.

Þetta eru eingöngu nokkrir af okkar uppáhaldsstöðum sem auðvelt er að fara í dagsferð til. Það er ótrúlega nærandi að fá orkuskot frá náttúrunni og eiga góða fjölskyldustund.

Magga

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *