Lífið

Nýtt líf

Það er orðið langt síðan ég fór síðast til Kaupmannahafnar að heimsækja góða vinkonu, sem er bæði gott og slæmt því eins og allir vita er ekki gott að fljúga mikið vegna kolefnissporsins. Okkur, sem búum á eyju út á ballarhafi, er samt smá vorkunn og það er svo ótrúlega dýrmætt fyrir okkur að ferðast aðeins út fyrir landsteinana.

Ég sakna stundum tímans þegar ég bjó ásamt fjölskyldu minni í fimm ár í Danmörku og hluta af þeim tíma í Kaupmannahöfn. Ég hef því mikla tengingu við borgina. Þegar ég bjó þar fannst mér gaman að rölta um borgina, setjast á kaffihús og skoða gamla hverfið. Svo var í miklu uppáhaldi að flækjast um á svokölluðu loppemörkuðum.

Það er mjög ríkjandi markaðshefð í Danmörku almennt og maður gat átt von á að það poppaði bara upp lítil markaður á næsta horni einhvern laugardaginn.  Ég tók þessar myndir á seinasta rölti mínu um markaði í Kaupmannahöfn þar sem ég rölti aðeins um og auðvitað dauðlangaði mig að taka með mér heim þennan dýrindis ruggustól og nokkrar bastkörfur 🙂

Það væri yndislegt ef það væri meira um svona markaði hér og seinustu árin finnst mér meiri vakning um að nýta notaða hluti og föt. Einnig er meira er um að ungt fólk fari að “thrifta” eins og dóttir mín segir en það er að fara og þræða verslanir sem selja notuð föt.

Sorpa og Góði hirðirinn búnir að vera duglegir síðustu árin í að selja notað dót en ég væri til í að sjá að fleiri fengju að nota dótið sem skilað er inn á sorphirðustöðvar svo þessu verði ekki bara hent eins og maður hefur heyrt að sé raunin þegar mikið safnast upp. Það er í okkar allra þágu að sem minnst fari til spillis og safnist um sem rusl einhverstaðar.

Verum dugleg að endurnýta og hugsum okkur vel um áður en við kaupum nýja hluti eða föt.

Stína

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *