París

Hvenig væri að bregða sér í smá ferðalag….hugrænt ferðalag að vísu. Það er víst ekki margt annað í boði þessa dagana. En það styttist vonandi í að hægt sé að ferðast aftur og þangað til er allt í lagi að láta sig dreyma.

Place de Vosges er elsti skipulagði garðurinn/torgið í París og er í Le Marais hverfinu.

Ein af mínum uppáhaldsborgum…jafnvel sú sem vermir fyrsta sætið…er París. Ég kom fyrst til Parísar í brúðkaupsferð árið 2001 og hef verið svo heppin að komast þangað nokkrum sinnum eftir það. Maðurinn minn hefur átt vinnutengt erindi einu sinni á ári síðustu árin og tilvalið að bregða sér stundum með 🙂

Notre Dame í viðgerð en samt tignarleg

París er dásamleg borgin. Hún er þægileg, ekki alltof stór og þrátt fyrir alræmda mýtu hef ég ekki orðið vör við að frakkar séu eins dónalegir og af er látið. Þvert á móti eru þeir vinalegir og hjálplegir. Ég hef gist í nokkrum hverfum í þessum ferðum mínum. Í fyrstu ferðinni vorum við í Mont Martre, rétt hjá rauðu myllunni. Það var ágætt enda líflegt og skemmtilegt hverfi og algerlega ómissandi að skoða Sacre Cour kirkjuna. Það er líka mjög fínt að gista í hverfinu í kringum Sigurbogann, stutt að fara að mörgum merkilegum stöðum…og auðvitað í búðirnar.

Uppáhaldshverfið mitt er þó Le Marais, stundum kallað Mýrin. Þar má finna gamlan sjarma í húsum og hinum þröngu götu, fullt af kaffihúsum og veitingastöðum. Le Marais er frekar miðsvæðis og stutt að ganga niður að Signu og skoða Notre Dame sem nú er í yfirhalningu eftir brunann skelfilega.

En hvað er það sem gerir París svona ómótstæðilega? Ég veit það ekki….það er bara eitthvað við hana. Andrúmsloftið og byggingarnar, öll sagan og arkiterktúrinn…maturinn og fólkið. Það er algert möst að fara á eitthvað af listasöfnunum þegar dvalið er í borginni og má þá kannski helst nefna Louvre og Museé d´Orsay. En einnig er fullt af öðrum söfnum sem vert er að athuga og ég er þegar kominn með nokkur á listann fyrir næstu ferð.

Le Louvre hýsir marga ómetanlega gripi.

Sigling á Signu er líka eitthvað sem vert er að gera og hægt er að finna stoppistöð fyrir bátana stutt frá Eiffel turninum. Og það er auðvitað eitthvað sem allir ættu að gera; að fara upp í Eiffel turninn….magnað fyrirbæri og eitthvað svo “íkonískt”. Þegar við fórum til Parísar með strákana okkar tvo var það efst á óskalistanum að fara upp í Parísarturninn (eins og sá yngri kallaði hann). Sú ósk rættist og var hann hæst ánægður með það.

Ómissandi að kíkja á þennan þegar farið er til Parísar.

Að vera í París með börn er mjög þægilegt og okkar drengir elskuðu borgina jafn mikið og við….og geta ekki beðið eftir að komast aftur.

Það er sennilega hægt að skrifa töluvert lengri pistil en þennan um þessa einstöku borg en ég læt staðar numið hér…í bili 😉 Nú er bara um að gera að setja Edit Piaff á “fóninn”, elda eitthvað franskt og gott og fara til Parísar í huganum…það verður að duga í bili.

Au revoir

Magga

Published by

Leave a Reply

Your email address will not be published.