Fjölskyldan

Einkastaðir líkamans

Það er mikilvægt að við ræðum við börnin okkar frá unga aldri um einkastaði líkamans og af hverju þeir eru kallaðir einkastaðir líkamans. Þá er ekki síður mikilvægt að börn viti hvað einkstaðir líkamans heita og þá það sem þeir eru kallaðir í daglegu tali en ekki gælunöfn eins og pjalla og  búbbís heldur píka, tippi, brjóst og rass. Að ræða við ung börn um einkastaði líkamans er kannski ekki eitthvað sem við tökum upp í daglegu tali en lestur á bókum fyrir börnin geta hjálpað við að fá fram eðlilegt samtal um einkastaðina. Bækur eins og “Allir eru með rass” og “Einkastaðir líkamans” eru góðar bækur. Það er þó nokkur munur á þeim. Einkastaðir líkamans segja meira beint frá því sem börnin þurfa að vita og er meira leiðbeinandi fyrir foreldra.

Allir eru með rass er öllu fjörugri bók og fær krakkana til að spjalla meira frjálst um einkastaðina og líkamann almennt. Allir eru með rass er líka góð því hún kennir að líkamar geta verið allavega og allskonar. Eymundsson og Forlagið á Granda hafa verið að selja þessar bækur. Þá er einnig hægt að taka þær að láni á bókasöfnum.

Ungbarnaeftirlitið gaf líka lengi vel bókina “Þetta er líkaminn minn”. Hún er því til á mörgum heimilum og er líka góð til að lesa. Það er að sjálfsögðu ýmsar aðrar bækur til sem hægt er að lesa til að fræða börn um einkastaðina en þessar eru góðar og gott að nota.

Ekki er mælt með að það sé verið að lesa þessar bækur í sífellu fyrir börnin, en þó reglulega eða kannski 3-4 sinnum á ári. Börnin okkar soga í sig þekkingu og eru alltaf að læra eitthvað nýtt, hvern einasta dag. Það verður til þess að stundum hreinlega gleyma þau því sem þau hafa lært og því þarf að rifja hlutina upp með þeim. Ef við förum að leggja of mikla áherslu á þessa hluti getum við gert börnin feimin varðandi einkastaði sína og það viljum við ekki heldur. Því er gott að hafa milliveg og blanda þessu hæfilega inn í annað sem við kennum börnum okkar.

Í Bangsabæklingi Barnahúss (smelltu hér) eru góðar leiðbeiningar um hvað er eðlilegt að börn kunni, viti og eru forvitin um þegar kemur að líkama þeirra og annarra. Hann er góður til að hafa sem viðmið um eðlilega hegðun barna þegar kemur að kynvitund. Á ákveðnum tímapunkti verða börnin okkar svo forvitin um af hverju þeirra líkami lítur öðruvísi út en líkami næsta barns (stelpur vs strákar) og fara þau stundum að kanna líkama hvors annars til að skoða muninn, hvort á öðru. Í gamla daga var þetta kallaður “læknisleikur” en í dag er reynt að koma í veg fyrir þessa hegðun og hafi hún byrjað, er reynt að stoppa hana af áður en að hún verður óeðlileg. Hægt er að leita ráðgjafa hjá barnaverndarnefndum sveitarfélaganna ef foreldrar hafa áhyggjur af hegðun barna sinna.

Þegar foreldrar ræða við börn sín um einkastaði líkamans og hverjir mega sjá og snerta þá gera þeir umræðu um einkastaði að eðlilegum hlut. Þetta eykur líkur á því að ef eitthvað kemur fyrir barn muni það segja frá því, því það veit að það er ekki feimnismál að ræða svona hluti við foreldrana.

Mig langar líka að benda á að bókin “Svona verða börnin til” fæst hjá Forlaginu en hún er ágæt til að svara þessari ágætu spurningu sem foreldrum finnst oft flókið að útskýra og jafnvel erfitt. Að ræða blessaðar býflugurnar og blómin hefur sem betur fer aldrei orðið vinsælt hér á landi þó Ameríkanar nýti sér þá útskýringu enn í dag.

Þegar að við ræðum svona hluti við börnin okkar þurfum við að hafa í huga að ræða og fræða í takt við aldur og þroska barnanna. Passa okkur að nota orð sem þau skilja og ekki útskýra meira en þau ráða við. Við þurfum samt alltaf að passa okkur að segja satt og rétt frá en við bætum svo við og segjum meira eftir því sem árunum fjölgar hjá þeim.

Fyrir fagfólk er gott af vita af Arnrúnu sem stendur að síðunni “Fræðsla ekki hræðsla” en í fjölda ár hefur hún lagt áherslu á að fræða og kenna starfsmönnum leikskóla hvernig hægt er að fræða börn um einkastaði sína. Hverjir mega koma við þá og hvað á að gera ef einhver snertir einkastaði þeirra en á þann hátt að einkastaðir verða ekki feimnismál og það er ekki feimnismál að ræða þá eða annað sem þeim tengist. Hægt er að komast í samband við Arnrúnu í gegnum síður hennar “fræðsla ekki hræðsla” á facebook og Instagram.

Ef grunur vaknar um kynferðislega misnotkun eða líkamlegt ofbeldi gagnvart barni er hægt að hringja í 112 og óska eftir aðstoð lögreglu. Þá er líka hægt að hafa samband við barnaverndarnefndir um allt land. Á skrifstofutíma er hringt á skrifstofur nefndanna en utan skrifstofutíma er hringt í 112 og beðið um bakvakt barnaverndar. Óskað er eftir aðstoð frá barnavernd í því sveitarfélagi sem lögheimili barnsins er.

Kristín Sk.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *