Að ræða kynlíf og kynheilbrigði við börnin okkar

Það er mikilvægt að við ræðum um kynlíf og kynheilbrigði við börnin okkar. Ekki síður en almennt hreinlæti, mannasiði, fjármál og margt annað sem við kennum börnunum okkar.

Photo by Gaelle Marcel on Unsplash

Mörgum foreldrum finnst erfitt að setjast niður með unglingnum sínum til að ræða þessi mál og svo sannarlega er þetta eitthvað sem unglingum finnst glatað að ræða við foreldra sína. En samtalið þarf að eiga sér stað og það er heilbrigt að foreldrar og unglingar geti rætt þessi mál sín á milli en séu ekki feimin og börnin pukrist með það sem þau eru að spá í. Foreldrar mega heldur ekki treysta um of á skólakerfið sjái um alla þá fræðslu sem þau þurfa. Í dag hefur ekki náðst að samræma kynfræðslu í grunnskólum og því fer hún eftir því hversu virkir hjúkrunarfræðingar og stjórnendur skóla eru sem og hvað eru miklir peningar á lausu til að bjóða upp á hina ýmsu fyrirlestra.

Það er ekki auðvelt að hefja þetta samtal en ætti að vera auðveldara ef við höfum vanið okkur á að ræða almennt við börnin okkar. Þá getur þetta komið í frjálsu flæði eftir kannski nokkrar vandræðalegar byrjunar mínútur.

Við þurfum að fylgjast með hversu langt börnin okkar eru komin í þessum pælingum og hvort þau eru farin að spá í eignast kærasta/kærustu/hán. Ef börnin okkar þora ekki að spyrja okkur út í þessa hluti eins og annað fara þau að leita sér að upplýsingum annars staðar. Netið er mjög algengur staður sem þau leita á og þar er ekki endilega bestu upplýsingarnar að fá. Klám er auðvelt að komast í en sýnir ekki kynlíf í réttu ljósi og brenglar vitund ungmenna varðandi hvernig á að standa kynlíf. Þá er líka ágætt að hafa í huga að börn eru að verða yngri og yngri þegar þau byrja að stunda kynlíf, allt niður í 12 ára.

Þá er líka mikilvægt að ræða við börnin okkar um að fá samþykki og gefa samþykki. Við þurfum líka að ræða að þó að búið sé að gefa samþykki á einum tímapunkti, getur manneskju snúist hugur og hún viljað hætta við. Það þarf að vera hægt að hætta og taka tillit til þess. Þá þarf líka að ræða við þau mikilvægi þess að nota smokk ef þau ætla að stunda kynlíf. Hann er ekki einungis vörn gegn því að verða ófrískur heldur er hann einnig besta vörnin gegn kynsjúkdómum. Smokkar eru dýrir og því þarf að vera hægt að opna á þá umræðu að þau geti annað hvort beðið um pening fyrir smokkum eða þá að foreldrar eru búnir að kaupa þá og þeir eru þar sem hægt er að nálgast þá án þess að þurfa að spyrja um þá. Foreldarar sem eiga unglingsstúlkur þurfa svo að taka ákvörðun um hvenær þeir vilja ræða aðrar getnaðarvarnir við dætur sínar.

Það er líka ágætt að ræða við unglingana okkar að ef þeir taka ákvörðun um að stunda kynlíf með manneskju sem þeim þykir vænt um eða hafa tilfinningar til, að eiga stundina og minninguna með þeim aðila en ekki öllum vinum sínum líka. Þá er ég ekki að meina að vinirnir séu viðstaddir, heldur að fara ekki og segja þeim frá því sem var verið að gera. Það er virðing við hvert annað að eiga þessa minningu fyrir sig. Ef unglingnum finnst eitthvað hafa farið úrskeiðis eða eitthvað rangt verið gert, er betra að ræða það við fullorðin aðila sem unglingurinn treystir og fá aðstoð og leiðbeiningar frá viðkomandi. Það er ekki víst að aðili á sama aldri hafi meiri reynslu eða vitneskju en unglingurinn sem er nýbúinn að vera með öðrum aðila, kannski í fyrsta sinn.

Photo by Alex Iby on Unsplash

Það er líka gott að minnast á það við börnin okkar að það er ekki löglegt að stunda kynlíf fyrr en maður er 15 ára samkvæmt lögum. Að vera með aðila sem er yngri en það getur haft lagalegar afleiðingar fyrir viðkomandi, jafnvel þó sá aðili er undir 15 eða 18 ára. Teljist eitthvað saknæmt hafa átt sér stað getur farið af stað lögreglurannsókn og að þurfa að fara í skýrslutöku hjá lögreglu eða í Barnahúsi getur haft langvarandi áhrif á viðkomandi, ekki síst ef um fyrstu kynlífreynslu er að ræða. Því er afar mikilvægt að við ræðum við unglingana okkar að þau virði vilja hins aðilans. Að þau setji mörk og samþykki ekki eitthvað sem þau vilja ekki gera og sýni hvort öðru virðingu í ferlinu öllu.

Nokkrar góðar síður eru í boði fyrir þá sem vilja kynna sér og segja börnum sínum frá hvernig samlíf og samskipti geta verið eðlileg og hvað getur verið óeðlilegt eða óæskilegt. Á Instagram og Facebook má finna þessar síður; Fávitar, Karlmennskan og Sjúk ást. Án efa eru fleiri síður í boði en þessar eru allavega góðar.

Þá langar mig að nefna tvær bækur sem gott er að grípa til, hvort sem vilji er að eiga þær á heimilinu eða fá þær á bókasafni. Það eru bækurnar Kjaftað um kynlíf eftir Siggu Dögg og Fávitar eftir Sólrúnu. Það þarf ekki að setjast niður og lesa þær með unglingunum okkar en það er gott að þær séu á stað þar sem auðvelt er að kíkja í þær. Þær geta líka auðveldað að hefja umræðuefnið. Það þarf ekki að vera sammála öllu sem kemur fram í þeim en það er þá líka hægt að ræða af hverju maður er ekki sammála því sem þar kemur fram og skapa umræðugrundvöll og fá fram ólík sjónarmið.

Þetta er ekki tæmandi pistill en nokkuð sem gott er að hafa í huga að ræða við unglingana okkar. Þessi þættir opna umræðuna og auðvelda börnunum að leita til okkar með spurningar sínar og vangaveltur.

Kristín Sk.

Published by

Leave a Reply

Your email address will not be published.