Bananabrauð

Þegar bananar verða gamlir er upplagt að nýta þá í bananabrauð. Ég hef lengi leitað af góðum uppskriftum og kannski fleiri möguleikum heldur en bara bananabrauð. Ég fékk þessa uppskrift fyrir rétt rúmum tuttugu árum og hef alltaf gripið í hana af og til en hún inniheldur mikið magn af sykri og hef ég því prófað mig áfram og minnkað sykurinn og hef ekki fundið mun á því.

Bananabrauð

 • 1 egg
 • 80 gr. sykur (upprunalegt 150 gr.)
 • 2 þroskaðir bananar
 • 250 gr. hveiti
 • 1/2 tsk. matarsódi
 • 1 tsk. salt

Aðferð: Þeytið eggin og bætið svo við sykrinum. Merjið bananana og hrærið saman við. Blandið saman þurrefninu saman við og bakið í 180gráður í ca 1klst.

Það kemur fyrir að ég reyni að finna eitthvað annað sem ég get gert úr bönununum til tilbreytingar og ég fann hérna tvær hugmyndir sem hafa gefið vel á mínu heimili. Sonur minn hleypur inn í eldhús þegar ég gríp í þessar uppskriftir og verður alsæll.

Banana og hafra pönnukökur

 • 1 bolli heilhveiti
 • 1 bolli hafrar
 • 1 msk lyftiduft
 • 1 tsk salt
 • 1 tsk kanil
 • 1 egg
 • 1 vel þroskaður banani
 • 1 1/2 bolli mjólk (möndlumjólk)

Aðferð: Blanda þurrefnum saman, bæta egginu, banananum og mjólkinni við. Hita pönnuna og stekja upp úr t.d. kókósolíu eða olíu af eigin vali.

Það síðasta sem hef upp á að bjóða með banana kom verulega á óvart og við höfum gert nokkuð oft.

Banana og appelsínukúlur

 • 1 banani (stappaður)
 • 1/4 bolli appelsínusafi
 • 1 bolli haframjöl

Aðferð: Hitið ofninn í 170 gráður. Blandið bananann og appelsínusafann vel saman og bæta svo við haframjölinu. Búið til ca. 16 kúlur og bakið í um 10 mín. Látið kólna og njóta.

Verði ykkur að góðu

Ferðin vestur

Sumarið er tíminn til að vera úti, ferðast og gera hreinlega allt sem veður leyfir. Ég fór fyrir stuttu vestur á firði eða nánar tiltekið á Þingeyri. Þar er margt hægt að gera, en þessa helgi var einmitt verið að keppa í þríþraut þar og því margt um manninn. Við vorum þvílíkt heppinn þar sem við lentum á tónleikum í einum bakgarðinum eða nánar tiltekið garðinum hjá Láru. Nokkur kvöld í röð var boðið upp á dásamlega tónlist eins og t.d. Friðrik Ómar og Jógvan, Bríet, Moses Hightower og marga marga fleiri, þvílíkur rjómi af tónaflóði.

Þingeyri býður upp á náttúruperlur allt í kring sem hægt að keyra um og að sjálfsögðu labba. Eftir alla þessa útiveru eru hægt að gæða sér á Simbakaffi en þar er boðið upp á ljúfmeti í alla staði.

Þá er bara að plana næstu ferð og á meðan þarf ég að muna eftir því að vera duglegri að skoða myndirnar sem ég tek í þessum ferðum 😉

Sumarfrí

Efst í huga þessa dagana er sumafrí og ferðalög. Við erum búin að fara smá út fyrir landsteinana þar sem sólin lék við lífið og nærvera fjölskyldunnar var í hámarki. Við ferðumst mikið innanlands og elskum að kynnast landinu með því að stoppa á ótalmörgum stöðum. Eitt af stoppunum var í Djúpavogi þar sem við blasti merki sem ég hafði ekki séð áður.

         Ólm í að komast að merkingu þess fór ég að grennslast fyrir og fann þá að staðir sem fá slíka merkingu hafa verulega tekið sig á varðandi lífsins hraða. Þetta merkir einfaldlega að þarna hlaða menn lífsins batteríið og leggja mikinn metnað til þess. Það er víst jafn mikilvægt að muna eftir að hlaða eigin batterí og batterí símans!

Einnig er skír merking í að njóta umhverfisins og þeirra sem er í kringum sig. Þetta á uppruna sinn að rekja til Ítalíu og merkingin nær einnig yfir mataræði þar sem lagt er áhersla á að njóta fremur þjóta.

Í dag á þetta vel við þar sem við erum rétt að fá frelsið á ný eftir mikla óvissu í heiminum, en á meðan allir eru að taka við sér er kannski skemmtilegt að fylgja Cittaslow hugmyndafræðinni og njóta þess sem við höfum.

Steinunn

*forsíðumynd: Valkiria-art