Góða veislu gjöra skal

Þrettándin er í dag og eflaust einhverjir sem halda þeim gamla góða sið að kveðja jólin með því að gera vel við sig. Hér koma nokkrar hugmyndir að smurbrauði sem við vorum með í einni af veislunni um jólin. Magn matarins var að sjálfsögðu ekki í samræmi við gestafjöldann…sem var langt undir sóttvarnarreglum 😉 Við eigum ekki heiðurinn af öllum snittunum en Kristín Skj. vinkona okkar á heiðurinn af nokkrum.

Það vill bara oftast verða þannig að more is more reglan er í gildi í okkar veisluhöldum.

Þemað var óumræðilega danskt eins og vill gerast með smurbrauð og öl 🙂

Hér koma nokkrar hugmyndir að einföldu smurbrauði og snittum sem fínt er að bjóða upp á kvöld eða um helgina.

Mynd t.v.

Smurbrauð með kjúklingasallati* og stökku beikoni og smurbrauð með roastbeef og remúlaði. Bæði á dönsku rúgbrauði sem fæst t.d. í Brauð & co. Roast beefið og remúlaðið er frá Kjöthöllinni en án efa hægt að fá í flestum kjötbúðum. Báðar tegundir af smurbrauði eru smurðar með smjöri.

 • Uppkrift af kjúllasallati er fyrir neðan.

Mynd t.h.

Smurbrauð með majonesi reyktri skinku, kartöflusalati og rauðbeðum á dönsku rúgbrauði. Hitt er á snittubrauði og er smurt með philadephia rjómaosti og ofan á er hráskinka og avacado.

Mynd t.v.

Tómatar og basilka skorin niður, góð olívuolía yfir ásamt salti og látið standa í ísskáp í 2 klst. Snittubrauð, rautt pestó, mosarella kúlur skornar í sneiðar og settar yfir og tómata og basilukumaukið ofan á ostinn – má skreyta með basilikublöðum ef vill.

Mynd í miðju

Naanbrauð með stökku beikoni, camenbert osti og rifsberjahlaupi.

Mynd t.h.

Rúgbrauð með rauðsprettu og radísum, skreytt með radísu og graslauk. Rúgbrauðið er smurt með smjöri.

Borið fram með ísköldu öli að dönskum sið og að sjálfsögðu var eftirrétturinn danskar eplaskífur með flórsykri og sultu.

Danskara gerist það varla.

Vessgú!

Uppskrift af kjúklingasalatinu á fyrstu mynd:

Það sem þú þarft:

600 gr. eldaður kjúklingur – t.d. keyptur tilbúinn

1 bolli kirsuberjatómatar, skornir í helminga

1/2 lítill rauðlaukur, skorinn í þunna strimla

1 avocado, skorið í litla teninga

6 sneiðar steikt beikon, saxið í litla bita

3 harðsoðinn egg, skorin í litla bita

1/3 bolli majónes

1 1/2 msk sýrður rjómi

1/2 tsk Dijon sinnep

2 msk ólívuolía

2 hvítlauksrif, söxuð smátt

1 tsk sítrónusafi

1/4 tsk salt

1/8 tsk pipar

Majónesi, sýrðum rjóma, sinnepi, ólívuolíu, hvítlauk, sítrónusafa og salti + pipar hrært vel saman í skál. Kjúkling, tómatar, rauðlaukur, avocado , beikon og egg sett út í. Blandað vel saman og smakkað til.

Þetta kjúklingasalat hentar vel á smurbrauð en einnig gott í samlokur og tilvalið til að taka með í nesti eða lautarferðina….þegar sumarið kemur 🙂

Vessgú!

Magga og Stína

Vanillukransar

Við systur ákváðum að prufa nýja uppskrift af vanillukrönsum þetta árið. Gamla uppskriftin frá mömmu stendur samt alltaf fyrir sínu en það er líka gaman að prufa eitthvað nýtt. Helsti munurinn er sá að í þessari eru hakkaðar möndlur og komu þær bara vel út. Uppskriftina fengum við á síðu Bo Bedre og þar er hún titluð sem hvorki meira né minna en heimsins bestu vanillukransar. Þið getið smellt á Bo Bedre linkinn ef þið viljið lesa dönsku uppskriftina. En hér kemur hún á íslensku:

Þetta þarftu:

175 gr. sykur

200 gr. mjúkt smjör

1 egg

250 gr. hveiti

75 gr. möndlur

1 vanillustöng

***

Svona gerir þú:

Möndlurnar eru hakkaðar í matvinnsluvél og kornin í vanillustönginni skröpuð. Allt hært vel saman í hrærivél. Gott er að nota annað hvort sprautupoka með stjörnustút eða hakkavélina á Kitchen Aid-inu (og nota stjörnujárnið).

Deiginu er sprautað í litla hringi á bökunarpappír. Passa að hafa bil á milli þar sem kransarnir geta runnið aðeins út.

Bakað við 200 ° í ca. 6 mínútur eða þar til þeir eru orðnir gylltir. Gott að kæla þá á rist.

Það er ekki tekið fram í dönsku uppskriftina að gott sé að kæla deigið í allavega 2 klst. áður en bakað er en það er eitthvað sem við höfum alltaf gert við svona bakstur. Þannig að við mælum með því 🙂

Njótið!

Magga & Stína

Hrekkjavökuhugmyndir

Í dag hefjast vetrarfrí í flestum skólum í höfuðborginni og svo vill svo skemmtilega til að hrekkjavaka er á næsta leyti. Hér koma tvær góðar hugmyndir fyrir þá sem vilja byrja þjófstarta hrekkjavökugleðinni.

Hauskúpa

Hér þarf bara stórt brauðbretti og fullt af hvítu nammi eða snakki. Við notuðum litlar hrískökur, poppkorn, djúpur, krítar, hvítar fílakúlur og bara það sem okkur datt í hug…bara ef það var hvítt. Í augu,nef og munninn notuðum við svo súkkulaði. Svo er bara að raða þessu upp svo hauskúpa myndist. Best er að byrja á augunum, nefinu og munninnum og raða hinu svo í kring. Einföld og skemmtileg hugmynd á hrekkjavöku-veisluborðið.

jkjkjkj

Nornakústar

Þessir krúttlegu nornakústar eru einfaldir í framkvæmd og setja svip á veisluborðið. Það sem þarf eru pappírsrör, saltstangir og sellófanpappír, einnig límband og band. Við klipptum út passlegan bút af sellófanpappírnum og límdum hliðarnar þannig að úr varð nokkurs konar poki. Þá skárum við saltstangirnar í tvennt, settum helminginn ofan í pokann, stungum rörinu ofan í, límdum og bundum fyrir. Og úr varð lítill nornakústur 🙂

Njótið vel og eigið skelfilega góða helgi…

M&S

Brauðbollur

Ég rakst á þessa uppskrift af brauðbollum þar sem ég var að fletta í gegnum ósorteraða uppskriftahauginn. Uppskriftin kemur úr skóla yngri sonarins og við deildum henni hér í den á gamla blogginu okkar systra. Þar sem bollurnar voru svona líka góðar og einfaldar ætla ég að deila með ykkur uppskriftinni…og gömlu myndunum sem voru teknar af litla bakaradrengnum sem þá var sjö ára en nú er orðinn 14 ára (og á kannski eftir að heimta að móðirin taki þær út).

Sagan á bak við uppskriftina er sú að sonurinn kom heim með þær úr skólanum og þar sem mamman var svo ánægð með baksturinn bað hann sérstaklega um uppskriftina næst þegar hann fór í heimilsfræði. Svo við gætum bakað þær saman heima.

Þessar eru tilvaldar með súpunni eða í nestisboxið hjá litlu skólafólki.

Njótið!

Magga

Ljúffengur pastaréttur

Dóttir mín er snillingur í eldhúsinu og hefur gaman af því að prufa nýja rétti. Þessi réttur hefur verið í miklu uppáhaldi hjá okkur og er mikið eldaður enda bæði auðveldur og mjög bragðgóður.

Innihald:

4-6 meðalstórir tómatar

3-5 hvítlauksrif

ólífuolía

salt

Pasta

Byrjið á því að skera hvítlaukinn niður í litla bita og steikið á pönnu upp úr olífulíu. Þegar laukurinn er farin að brúnast, setjið þá niður skorna tómatana á pönnuna og látið krauma saman í 10- 15 mín. Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakka og bætið úti. Við notum ofast pasta penne í þennan rétt en aðalatriðið er að nota bara það pasta sem manni finnst best.

Þegar pastað er tilbúið setjið þá 2-3 msk af pastavatninu út í pönnuna. Sigtið svo pastað og hellið saman við.

Borið fram með ólífuolíu og ferskri basiliku.

Verið ykkur að góðu

S

Toblerone smákökur

Þessar smákökur með ísköldu mjólkurglasi er bara kombó sem erfitt er að hafna. Þær eru tilvaldar í helgarbaksturinn eða til að henda í eftir skóla með svöngu smáfólki. Framkvæmdin er líka svo einföld að smáfólkið getur hjálpað til 🙂

Það sem þú þarft:

 • 120 gr. mjúkt smjör
 • 125 gr. sykur
 • 150 gr. púðursykur
 • 1 tsk. vanillusykur
 • 1/2 tsk. salt
 • 1 egg
 • 175 gr. hveiti
 • 1 tsk. hveiti
 • 1/2 tsk. matarsódi
 • 150 gr. toblerone, saxað

Aðferð:

 • Hrærðu saman smjör við sykur, púðursykur, vanillusykur og salt.
 • Bættu egginu við og hrærðu vel saman.
 • Settu hveitið, lyftiduftið og matarsódann saman við. Fínt að nota krókinn hér.
 • Að lokum seturðu toblerone-ið saman við og hrærir aðeins saman.
 • Leyfðu deiginu að bíða í ísskáp í ca. 1 klst.
 • Stilltu ofninn á 180 gr.
 • Búðu til litlar kúlur úr deiginu ( gott að miða við að kúlurnar séu aðeins stærri en valhnetur) og passaðu að hafa bil á milli þeirra á plötunni þar sem kökurnar renna út við baksturinn.
 • Bakaðu kökurnar í ca. 12 mínútur og leyfðu þeim að k´´ólna aðeins áður en þú gæðir þér á þeim.

Þær eru æðislegar með ískaldri mjólk eða uppáhaldsteinu úr uppáhaldsbollanum. Þó að þessar kökur séu ekki endilega hugsaðar í jólabaksturinn…enda langt í hann…grunar mig að þær eigi eftir að vera bakaðar í desember.

Njótið!

Magga

 • Uppskriftin kemur úr tímaritinu Mad og Bolig

Bananabrauð

Þegar bananar verða gamlir er upplagt að nýta þá í bananabrauð. Ég hef lengi leitað af góðum uppskriftum og kannski fleiri möguleikum heldur en bara bananabrauð. Ég fékk þessa uppskrift fyrir rétt rúmum tuttugu árum og hef alltaf gripið í hana af og til en hún inniheldur mikið magn af sykri og hef ég því prófað mig áfram og minnkað sykurinn og hef ekki fundið mun á því.

Bananabrauð

 • 1 egg
 • 80 gr. sykur (upprunalegt 150 gr.)
 • 2 þroskaðir bananar
 • 250 gr. hveiti
 • 1/2 tsk. matarsódi
 • 1 tsk. salt

Aðferð: Þeytið eggin og bætið svo við sykrinum. Merjið bananana og hrærið saman við. Blandið saman þurrefninu saman við og bakið í 180gráður í ca 1klst.

Það kemur fyrir að ég reyni að finna eitthvað annað sem ég get gert úr bönununum til tilbreytingar og ég fann hérna tvær hugmyndir sem hafa gefið vel á mínu heimili. Sonur minn hleypur inn í eldhús þegar ég gríp í þessar uppskriftir og verður alsæll.

Banana og hafra pönnukökur

 • 1 bolli heilhveiti
 • 1 bolli hafrar
 • 1 msk lyftiduft
 • 1 tsk salt
 • 1 tsk kanil
 • 1 egg
 • 1 vel þroskaður banani
 • 1 1/2 bolli mjólk (möndlumjólk)

Aðferð: Blanda þurrefnum saman, bæta egginu, banananum og mjólkinni við. Hita pönnuna og stekja upp úr t.d. kókósolíu eða olíu af eigin vali.

Það síðasta sem hef upp á að bjóða með banana kom verulega á óvart og við höfum gert nokkuð oft.

Banana og appelsínukúlur

 • 1 banani (stappaður)
 • 1/4 bolli appelsínusafi
 • 1 bolli haframjöl

Aðferð: Hitið ofninn í 170 gráður. Blandið bananann og appelsínusafann vel saman og bæta svo við haframjölinu. Búið til ca. 16 kúlur og bakið í um 10 mín. Látið kólna og njóta.

Verði ykkur að góðu

Morgunverðarþeytingur

Þessi drykkur er eins og sumar í glasi og er stúttfullur af hollustu.

Uppskrift:

2 dl. möndlumjólk

1 dl. frosið mango

1 lúka frosin eða fersk bláber

1 væn lúka ferskt eða frosið spínat

1 msk hampfræ

1 msk möndlur

1/4 tsk kanil

1/4 tsk túrmerik

1/4 tsk engifer

1 tsk. feel iceland collagen

Stundum set ég eina mæliskeið af próteini ef ég er að koma af æfingu eða á leið á æfingu.

Þessu er öllu blandað saman í blandara og borðað með skeið, hann á að vera þykkur og góður eins og grautur. Einhverju sinni las ég þá speki frá næringafræðingi að við ættum að borða drykkinn okkar og drekka matinn okkar. En það þýðir að það er betra fyrir líkamann ef við borðum drykkina okkar með skeið og tyggjum matinn okkar svo vel að hann verður fljótandi.

Knús

Stína

Rabarbarakaka

Amma mín, sem er að detta í nírætt í júlí, er snillingur í að gera rabarbarasultu. Hún hefur reynt að kenna mér aðferðina en afraksturinn var frekar gúmmíkenndur. Kannski verð ég búin að ná þessu þegar ég verð níræð. En hún sagði mér líka að fyrsta uppskera sumarsins væri bestur í kökur og sá tími er runninn upp. Og hvað undirstrikar júníbyrjun meira en fyrsta uppskeran af rabarbara?

Hér kemur uppskrift að einfaldri rabarbaraköku. Uppskriftin kemur upphaflega af síðunni Búkonan. Ég hef notað hana lengi og hún klikkar aldrei. Í þetta skipti bætti ég snickers við og það steinlá.

Snickers 2 stk
Rabarbari, magn fer eftir formi, botnfylli
200 g brætt smjör
1 bolli hveiti
1 bolli sykur
2 egg
1 msk kókosmjöl
1 tsk lyftiduft
1 tsk vanillusykur

Rabarbarinn er skorinn smátt og settur í botninn á smurðu formi. Þurrefnum blandað í skál og bræddu smjörinu hellt yfir, hrært vel. Ég nota bara sleif, set þetta s.s. ekki í hrærivél. Að lokum er eggjunum hrært út í og blöndunni hellt yfir rabarbarann.

Bakað í 25 – 30 mín við 180°. Gott að stinga prjóni í til að athuga hvort kakan sé alveg bökuð.

Það er algert möst að bera þessa fram með rjómaís. Njótið vel!

Enskar skonsur

Í framhaldi af póstinum okkar um síðdegisteið kemur hér uppskriftin af skonsunum sem við buðum upp.

Það var búið að vera lengi á listanum að baka ekta enskar skonsur en einhvern veginn hafði aldrei orðið úr því. Þetta var því fínt tilefni til að spreyta sig í skonsubakstri. Útkoman lukkaðist svona líka vel og ég held ég haldi mig bara við þessa uppskrift; skonsurnar eru mjög léttar og loftkenndar og afar bragðgóðar.

Innihald

2 bollar hveiti

2/3 bollar mjólk

1/4 bollar sykur

85 gr. ósaltað smjör

4 tsk. lyftiduft

1/2 tsk salt

1 stórt egg

Aðferð

Stilltu ofninn á 210 gr.

Blandaðu hveiti, lyftidufti, sykri og salti saman í skál.

Skerðu smjörið í litla bita og myldu út í deigið. Best er að nota hendurnar og nudda hveitið og smjörið saman, þar til þetta líkist kexmylsnu.

Blandaðu egginu og mjólkinni saman í aðra skál. Gott að hræra það létt saman.

Helltu blöndunni út í þurrblönduna en geymdu ca. 2 msk. af eggjablöndunni til að smyrja yfir skonsurnar. Hrærðu vel saman.

Hnoðaðu deigið létt saman á hveitistráðri borðplötu. Ekki hnoða of mikið.

Flettu deigið svo út í ca. 4 cm þykkt. Stingdu svo út skonsurnar, annað hvort með glasi eða skonsujárni.

Smurðu eggjablöndunni yfir og bakaðu í ca. 13-15 mín. eða þar til þær eru gullnar og hafa ca. tvöfaldast í hæð.

Samkvæmt hefðinni eru skonsurnar bornar fram með rjóma sem kallast “clotted” rjómi og sultu. Ég hef aldrei lagt í að gera svoleiðis rjóma en læt smjör, ost og sultu duga. Enda er ég svo sem ekki aðalskona heldur sjómannsdóttir að vestan 🙂

Njótið!