Haustverkin í garðinum

Haustverkin í garðinum geta verið þó nokkur og mig langar til þess að deila með ykkur eitthvað af því sem ég geri bæði til þess að njóta uppskerutímans sem haustið er og einnig til að undirbúa garðinn minn fyrir veturinn.

Gróðursetning haustlauka. Mér finnst mjög gaman að setja niður haustlauka, en í stað þess að setja þá niður í beð eins og ég gerði alltaf áður, þá finnst mér skemmtilegast að setja þá þétt í blómapott. Það kemur mjög fallega út á vorin.

Fræsöfnun, ég safna allskonar fræjum, t.d. af vatnsberum, trjám og þeim sumarblómum sem mig langar að rækta næsta ár. Þær tegundir sumarblóma sem auðvelt er að safna fræjum af eru fjólur, stjúpur og morgunfrú.

Þurrkun blóma og kryddjurta. Ég klippi af opnuðum nýlegum morgunfrúarblómum og þurrka til að nota í te í vetur, þetta er í miklu uppáhaldi hjá mér. Þetta er mjög heilsubætandi og bragð gott te en Morgunfrúin( Calendula officinalis ) hefur lengi verið notuð til að meðhöndla margs konar húðvandamál og sýkingar. Einnig er hún talin verkjastillandi og bólgueyðandi.

Svo er ég myntu og oregano sem ég klippi og þurrka.

Einnig er sniðugt að klippa strá, alpaþyrnir eða önnur blóm sem gaman er að prufa að þurrka í skreytingar og vasa.

Ég sting svo upp rósmarínið mitt og steinseljuna og færi þær inn í gróðurhús. Stundum teki ég líka smá rótarskot af myntu til að koma til inni gróðurhúsi til að geta fengið mér ferska myntu í teið í vetur.

Gott er að raka laufin af grasflötinni og jafnvel bera sand á grasið ef þú ert að berjast við mosa.

Ég dreifi laufunum í beðin hjá mér til að láta þau brotna niður í vetur og bæta þannig jarðveginn. Afganginn set ég svo í safnhauginn

Svo ætlaði ég að reyna að ná að bera á pallinn, þar sem lítill tími gafst til þess í sumar, en til þess að það geti gerst þarf hann að ná að þorna en slíkt hefur ekki verið í boði í Reykjavík í haust.

Sveppatínsla. Mig langaði mikið til þess að fara í sveppaleiðangur í Heiðmörk en ekki er mælt með að tína sveppi í bleytu svo sennilega verð ég að bíða eitthvað með það.

Svo er alltaf gaman að safna könglum og laufum til þess að pressa/þurrka og nota í skreytingar. Bara að passa upp á að láta lofta vel um það á meðan það er að þorrna.

Dalíur og viðkvæmir laukar. Ég er mikill Dalíu aðdáandi, hef það frá foreldrum mínum, þetta er dásamlega falleg blóm sem blómstar allt sumarið , mér finnst skemmtilegast að hafa lauka en einnig er hægt að sá þeim með fræjum. Laukurinn getur lifað í mörg ár og verður bara stærri og blómin flottari með aldrinum, en það þarf að passa upp á að hann frjósi ekki. Ég tek alltaf þessar plöntur inn og læt þær þorna upp í köldu gróðurhúsi sem ég held frostlausu og þá geymast þeir vel yfir veturinn og byrja svo að vökva aftur í mars. Einnig er hægt að taka laukinn upp og geyma hann t.d. í sagi eins og notað er fyrir nagdýr og geyma í köldu dimmu rými.

Góða skemmtun í garðinum

Kveðja

Stína

Helgarplönin

Fimmtudagur og ekki seinna vænna að byrja að plana helgina. Um síðustu helgi fórum við í bíltúr upp í Hvalfjörð og stoppuðum við Hvalfjarðareyri. Þar er frábært að stoppa og ganga út að vitanum, skoða krabba, tína steina og vonast jafnvel til að sjá eins og einn Baggalút.

Við eyddum góðri stund á eyrinni og héldum svo áfram för okkar inn fjörðin. Hvalfjörðurinn er stundum svolítið gleymdur en þar eru fullt af fallegum perlum sem vert er að skoða. Í þetta sinnið stefndum við að sundlauginni á Hlöðum. Fyrirtakssundlaug sem er í sama húsi og Hernámssetrið. Þangað væri gaman að koma í næstu fjölskylduferð, kíkja á safnið og fá sér vöfflu á kaffihúsinu.

Mælum með Hvalfirðinum fyrir helgarrúntinn 🙂

Náttúran bíður…

Fyrir ekki svo mörgum árum var ég haldin þeirri ranghugmynd að ekkert væri hægt að gera á Íslandi. Að það hlyti að vera betra alls staðar annars staðar í heiminum. Sem betur fer læknaðist ég af þessum kvilla og kann heldur betur að meta landið mitt og það sem það hefur að bjóða. Það getur verið að þessi hugarfarsbreyting hafi komið til með aldrinum og því að ég leita meira í öðruvísi afþreyingu en ég gerði áður.

En það getur líka verið að þetta sé einmitt bara það; hugarfarsbreyting. Að taka meðvitaða ákvörðun að vera ánægður þar sem maður er…að blómstra þar sem manni var stungið niður. Að vera ánægð með það sem þú átt í stað þess að langa alltaf í eitthvað annað. Þar gæti nefnilega hin sanna hamingja leynst.

Nú er vetrarfríi grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu að ljúka og eflaust margir sem hafa nýtt tímann í samveru með fjölskyldunni. Og þá reynir á þetta, þ.e. hvað er hægt að gera? Það er nefnilega heilmikið og það þarf ekki að alltaf að vera kostaðarsöm afþreying.

Eitt af því sem við elskum að gera er að fara í dagsferðir og erum svo heppinn að yngri unglingurinn nennir ennþá að koma með. Stundum förum við bara þrjú….plús hundurinn auðvitað 😉 Stundum koma aðrir úr stórfjölskyldunni með. Þá er hægt að hafa með sér nesti og borða úti ef veðrið er gott. Nú eða setjast inn á kaffihús eða veitingastaði.

Í nágrenni höfuðborgarinnar eru nefnilega skemmtilegir staðir til að heimsækja. Við höfum t.d. verið dugleg að fara í Hveragerði, borða á Skyrgerðinni eða grípa okkur eitthvað frá Almari bakara og snæða úti í náttúrinni. Gaman er að rölta um bæinn eða skella sér í sund. Svo er líka hægt að keyra niður að sjó og fara í fjöruna við Eyrarbakka. Svæðið á milli Eyrarbakka og Þorlákshafnar er mjög skemmtilegt.

Einn af okkar uppáhaldsstöðum til að stoppa á er svo Knarrarósviti sem er fyrir utan Stokkseyri. Þar er gaman að rölta um og kíkja niðri í fjöru. Einnig býður Reykjanesið upp á óteljandi skemmtilega staði til að skoða: Kleifarvatnið er perla út af fyrir sig. Og tilvalið er að fara að í vita-skoðunarferð og taka hringinn um Reykjanesið. Svæði í kringum Reykjanesvitann er mjög fallegt og fjaran við Garðskagavita er ómissandi stoppistaður.

Þetta eru eingöngu nokkrir af okkar uppáhaldsstöðum sem auðvelt er að fara í dagsferð til. Það er ótrúlega nærandi að fá orkuskot frá náttúrunni og eiga góða fjölskyldustund.

Magga

Samvera

Þau geta verið mörg verkin sem dúkka upp í desember og kona getur óvart endað í geymslutiltekt…þegar hún í sakleysi sínu álpaðist inn í geymsluna til að ná í smá jólaskraut. Og verandi sú sem hún er endaði þetta með því að kjallarinn er á hvolfi; geymsludót á rúi og stúi, stafli af dóti sem er á leið á í Sorpu/Góða hirðinn og búið að rífa upp úr jólakössunum. Þegar staðan er svona læðist stressið aðeins að, þrátt fyrir yfirlýst markmið um stresslausan mánuð. Jólin koma nú samt og allt það….en þegar heimilið er svona er erfitt að finna friðinn.

Sunnudagurinn stefndi því í að fyrrnefnd kona yrði með hausinn ofan í kössunum og yngri unglingurinn yrði bara að hafa ofan af sér sjálfur. En sem betur fer bankaði skynsemin upp á og plönunum var breytt í skyndi. Annar sunnudagur í aðventu á miklu frekar að fara í notalega samveru og upplifun.

Hafnarfjörðurinn varð fyrir valinu og ömmu kippt með. Fyrsta stopp var jólaþorpið, en þar var eiginlega aðeins of mikið af fólki fyrir okkur þannig að við römbuðum inn í Hellisgerði.

Það var eins og að ganga inn í annan heim; upplýstur garðurinn og alls konar skuggsælli krókaleiðir þar sem börn hlupu um með vasaljós. Litla tjörnin í miðju garðsins var gegnfrosin og þar renndu sér bæði börn og fullorðnir. Sannkölluð töfraveröld sem endurnærði andann.

Sækjum í svona samverustundir og látum geymslutiltektina bara bíða.

Magga

Strá

Einn fallegan síðsumardag fórum við í bíltúr austur fyrir fjall. Markmiðið var að næla okkur í melgresi. Melgresi vex í sendnum jarðvegi og má til dæmis finna á strandlengjunni á milli Þorlákshafnar og Eyarbakka. Það er vel þess virði að fara í dagsferð á þennan fallega stað, jafnvel taka með nesti og sulla í fjörunni.

Undanfarið hafa ýmis konar strá verið vinsæl á heimilum. Þar má kannski helst nefna hin ofurvinsælu Pampas strá en einnig hafa aðrir gerðir af stráum og þurrkuðum blómum verið vinsæl.

Pampas stráin vinsælu koma upphaflega frá Suður-Ameríku og þar þykir þessi planta vera ansi frek á umhverfi sitt. Hún getur auðveldlega yfirtekið landsvæði og kæft annan gróður. Við þurfum kannski ekki að hafa áhyggjur af Pampas stráunum í okkar náttúru en falleg eru þau.

Fyrir þá sem vilja fá falleg strá í vasa er líka bara sniðugt að ná í þau sjálf úti í náttúruna…og fá skemmtilega dagsferð í kaupbæti.