Stokkhólmur

Stuttur pistill um Stokkhólm sem átti að koma hér inn um daginn. En hér kemur hann og vonandi getum við nú haldið áfram að ferðast áfram þrátt fyrir ástandið :/

Stokkhólmur er ein af mínum uppáhaldsborgum. Það er þægilegt að komast þangað, ekki nema tæpir þrír tímar, og auðvelt að komast inn í borgina frá Arlanda flugvell, ca. 20 mín. með lest. Þetta voru m.a. ástæður fyrir því að við völdum þessa borg í fyrstu utanlandsferðina á covid-tímum.

Við dvöldum á Radison Waterfront hótelinu sem er mjög vel staðsett, alveg við hliðina á lestarstöðinni og stutt frá Drottningatan og Ahlens City (sem er svokölluð department store). Hótelið var til fyrirmyndar í alla staði og morgunverðarhlaðborð fjölbreytt og gott.

Það er margt hægt að gera í Stokkhólmi og þessi árstími er fallegur í borginni. Við vorum heppin með veður þannig að það var gaman að rölta þarna um.

Ég mæli með:

 • heimsókn á Gamla Stan, elsta hluta Stokkhólms. Þröngar og sjarmerandi götur og litlar krúttlegar búðir. Algert möst að fara inn á Stortorget sem er elsta torgið í borginni.
 • Djurgarden, sem er ein af eyjunum sem borgin er byggð á. Þarna er m.a. Gröna Lund tívolíið, Skansen (dýragarður og nokkurs konar Árbæjarsafn), Nordiska Museet (norræna safnið) ásamt fleiri áhugaverðum stöðum. Einnig er fallegt að rölta þarna um á góðum degi.
 • Drottninggatan, aðal verslunargatan. Þar finnurðu fjölbreyttar búðir og einnig er Ahlens City þarna á horninu. Þar er að finna flest merki og snyrtivörur.
 • Biblioteksgatan, þar eru fínni merkin; Michael Kors, Hugo Boss og fleira. Einnig ein af mínum uppáhalds: & Other stories.
 • Södermalm, bóhem og krúttlegt hverfi með fallegum litlum búðum og krúttlegum kaffihúsum. Við reyndar náðum ekki að skoða þennan hluta Stokkhólms í þetta sinn. Pottþétt í næstu ferð!
 • bátsferð um skerjagarðinn. Gott úrval af ferðum um fallegan skerjagarðinn, flestar taka um 50 mínútur. Gaman að sjá borgina frá öðru sjónarhorni.

Við borðuðum á:

 • Vapiano – alþjóðleg keðja veitingahúsa sem bíður upp á ítalskan mat. Fljótlegt og gott.
 • Eataly, La Piazza – dásamlegur ítalskur veitingastaður, fínni en Vapiano. Frábær stemming á staðnum, gullfallegt rými og geggjaður matur. Einnig hægt að versla ítalskar sælkeravörur á neðri hæðinni.
 • Cafe Schweizer – kaffihús á Gamla Stan. Rabarbarakakan með vanillusósunni var æði!
 • Stenugns bageriet – kaffihús/bakarí rétt hjá Ahlens City. Bestu kardamommuhnútar sem ég hef smakkað, mæli svo með.

Ég sé að við höfum verið svolitið mikið í ítölskum mat í sjálfri Svíþjóð en það er í lagi…ég bætti það upp með að gera hinu sænska bakkelsi eða Fika eins og þeir kalla það, góð skil.

Ferðin var frábær í alla staða og það gerði mikið fyrir andann að komast aftur út í hinn stóra heim.

M

Að ferðast eða ekki ferðast…

“We travel not to escape life, but for life not to escape us.”

Síðasta eina og hálfa árið hefur verið skrítið fyrir okkur öll og fyrir flesta lítið um ferðalög. Ég elska að ferðast, að sjá nýja staði og upplifa nýja hluti. Að “týnast” í stórborg og rápa um er eitt að skemmtilegasta sem ég veit. Það er bara eitthvað svo gott að sjá lífið fyrir utan Ísland. En þar sem ég hef líka tilhneigingu til að ofhugsa hlutina og mikla fyrir mér hafa ferðalög á þessum tíma ekki virkað spennandi. Fyrr en núna.

Ofhugsarinn ég fór nefnilega loks í sína fyrstu utanlandsferð á covid tímum. Það var vissulega erfitt að taka þessa ákvörðun og auðvelt að sannfæra sig um að það væri bara best að vera heima. Ofhugsarar höndla nefnilega ekki mikla óvissu og eiga auðvelt með að fara í “hvað-ef” pakkann.

Ég hef fylgst með fólki skottast út í heim og smátt og smátt sannfærst um að kannski væri þetta bara í lagi. Þegar ég sé svo mynd af fyrrverandi vinnufélaga komna lengst suður í álfu, verandi þó nokkrum árum eldri en ég, ákvað ég að nú væri nóg komið.

Eftir að hafa velt nokkrum borgum fyrir okkur (Edinborg, Kaupmannahöfn, Amsterdam, Stokkhólmur) varð Stokkhólmur fyrir valinu. Við höfum komið þarna áður og borgin er bæði falleg og þægileg. Stór hluti af ákvarðannatökunni var hversu auðvelt væri að komast þangað, hverjar innkomukröfurnar í landið væru og einnig að borgin krefðist ekki mikilla ferðalaga með almenningssamgöngum.

Það er gott að gefa sér góðan tíma á flugvellinum þar sem allt tekur lengri tíma. Við vorum búin að tékka okkur inn online og þegar við komum á völlinn var röðin frekar löng. Við gátum hins vegar farið í self-service kassana og klárað innritunina, þ.e. prentað út töskumiðana og brottfararspjöldin. Því næst var farangrinum skilað og þar var engin röð. Ekki er gerð krafa um að vera með grímur á flugvellinum en það eru þó vinsamleg tilmæli. Það er hins vegar skylda að vera með grímu um borð í vélinni. Þó er leyfilegt að taka hana af til að drekka og borða. Þetta reyndist hið minnsta mál og flugið var hið ánægjulegasta.

Að komast inn í Svíþjóð er ekkert mál. Engar kröfur eru gerðar á ferðamenn sem koma frá Íslandi og þú í raun og veru gengur bara inn í landið. Og eftir að komið er inn í borgina var ósköp lítið sem minnti á faraldurinn. Einstaka skilti sem minnti á að halda fjarlægð við næsta mann.

Að sama skapi gekk heimferðin vel. Bara muna að hafa bólusetningaskírteinið í símanum og vera búin að skrá þig inn í landið (pre-registration). Við þurftum að sýna þetta tvennt við innritunina á Arlanda og innritunin var eins og gefur að skilja frekar hæg, það þarf jú að yfirfara fleiri atriði hjá hverjum farþega en áður. Arlanda er ótrúlega þægilegur völlur og ekkert stress í gangi þar.

Þegar til Íslands var komið var allt ósköp svipað og áður, þ.e. ef þú ert að koma frá löndum sem eru á svipuðum stað og Svíþjóð. Þú þarft að fara í covid próf en getur ráðið hvort þú gerir það á vellinum eða innan tveggja daga frá heimkomu. Við völdum að leysa þetta af á flugvellinum og það gekk hratt fyrir sig. Rétt fyrir miðnætti á heimkomudeginum fengu allir úr hópnum niðurstöðurnar. Í þessum 10 manna hóp fengu allir neikvætt úr prófinu 🙂

Allt í allt vel heppnuð ferð og ofhugsarinn hefði getað sleppt nokkrum lotum af ofhugsunum við undirbúning ferðarinnar.

Magga

 • meira um Stokkhólm í næsta pósti 🙂

Hrekkjavökupósturinn

Hér kemur hann…árlegi hrekkjavökupósturinn. Við höfum nefnilega gaman af hvers kyns stússi og því að gera lífið skemmtilegra, finna tilefni til að gleðjast. Þess vegna höldum við hrekkjavöku. Við höfum áður komið inn á þetta málefni, þetta með að vera að halda upp á þennan sið. Árlega heyrum við fólk kvarta undan því að vera að herma eftir Bandaríkjunum en það er bara ekki rétt…þetta er nefnilega keltneskur siður í grunninn og dýpri pælingar á bak við hann eins og hún Þórunn fór í gegnum fyrir okkur í pistli sínum hér.

Síðustu árin höfum við systur skipst á að halda hrekkjavökuboð fyrir okkar nánustu. Húsið er skreytt að tilheyrandi sið og fólk fer í sína skelfilegustu búninga, krakkarnar skjótast út um hverfið og krækja í sælgæti. Sumar götur og hverfi fara “all in” og þar er gaman að labba með gríslingum. Það gladdi mig sérlega mikið þegar ég fór með yngri syninum í eina af þessum götum fyrir tveimur árum. Gatan var mjög skemmtilega skreytt og flestir íbúanna tóku þátt, stigagangarnir litu út eins og draugahús og alls staðar var flott skraut. Þegar við vorum að halda heim á leið vildi hann stoppa í einu húsi enn. Þar var lítið um skreytingar en grasker á tröppum gaf til kynna að þarna væri hægt að fá eitthvað gott. Ég stóð á gangstéttinni og horfið á soninn berja dyra. Eftir smástund opnuðust dyrnar löturhægt, og drungaleg tónlist barst úr rökkvuðu andyrinu. Ég sá minn mann taka eitt skref til baka og ekki var laust við að ég fengi hroll þar sem ég stóð í öruggri fjarlægð, þegar vera stígur fram úr myrkrinu. Veran teygir hægt fram loppuna, réttir barninu sælgæti, hverfur aftur inn í myrkrið og dyrnar lokast. Frábær endapunktur á flottu kvöldi og sonurinn vildi flýta sér heim eftir þetta 😉

Við leyfum hér að fljóta með nokkrum myndum af hrekkjavökugleði okkar í gegnum árin…

Hrekkjavakan er sem sagt fínindis afsökun til að halda góða veislu, grípið tækifærið!

Stína og Magga

Hrekkjavökuhugmyndir

Í dag hefjast vetrarfrí í flestum skólum í höfuðborginni og svo vill svo skemmtilega til að hrekkjavaka er á næsta leyti. Hér koma tvær góðar hugmyndir fyrir þá sem vilja byrja þjófstarta hrekkjavökugleðinni.

Hauskúpa

Hér þarf bara stórt brauðbretti og fullt af hvítu nammi eða snakki. Við notuðum litlar hrískökur, poppkorn, djúpur, krítar, hvítar fílakúlur og bara það sem okkur datt í hug…bara ef það var hvítt. Í augu,nef og munninn notuðum við svo súkkulaði. Svo er bara að raða þessu upp svo hauskúpa myndist. Best er að byrja á augunum, nefinu og munninnum og raða hinu svo í kring. Einföld og skemmtileg hugmynd á hrekkjavöku-veisluborðið.

jkjkjkj

Nornakústar

Þessir krúttlegu nornakústar eru einfaldir í framkvæmd og setja svip á veisluborðið. Það sem þarf eru pappírsrör, saltstangir og sellófanpappír, einnig límband og band. Við klipptum út passlegan bút af sellófanpappírnum og límdum hliðarnar þannig að úr varð nokkurs konar poki. Þá skárum við saltstangirnar í tvennt, settum helminginn ofan í pokann, stungum rörinu ofan í, límdum og bundum fyrir. Og úr varð lítill nornakústur 🙂

Njótið vel og eigið skelfilega góða helgi…

M&S

Bleikur október

EIns og flestir vita er október mánuður vitundarvakningar um brjóstakrabbamein. Flest þekkjum við einhvern sem hefur fengið brjóstakrabbamein, sigrast á því eða látist af völdum þess. Við hér í Skeggja þekkjum góðar konur sem hafa farið alltof snemma.

Okkur langar til að vekja athygli á mikilvægi þess að fara í reglulega brjóstaskoðun. Það tekur afskaplega stuttan tíma, kannski smá bið eftir tíma en skoðunin sjálf gengur hratt fyrir sig.

Í tilefni af bleikum október settum við Konu plakatið okkar í antík-bleikan búning og ætlum að láta 50% af söluverðinu renna til Bleiku slaufunnar.

“Hin sanna fegurð konu endurspeglast í sálu hennar”. Þessi tilvitun í Audrey Hepburn prýðir plakatið og minnir okkur á að okkar sönnu fegurð má finna innra með okkur og að ytra útlit skiptir jú minna máli. Því ef sálin er falleg skín það alltaf í gegn. Plakatið er prentað á 170 gr. gæðapappír og kemur í stærð 30×40 cm.

Plakatið finnið þið á vefverslun okkar en einnig má senda okkur línu á facebooksíðu Skeggja eða instagramsíðu Skeggja.

Bleikt knús!

Magga og Stína

Mánudagspósturinn

Ný vika framundan og því fylgja stundum blendnar tilfinningar. Sumir kannast án efa við mánudagsbömmerinn og hryllir við því að heil vinnuvika bíði þeirra. En svo má líka líta svo á að framundan sé heil vika full af tækifærum. Hugarfarið skiptir nefnilega svo miklu máli í lífinu og þó það sé erfitt að þvinga heilann úr neikvæða gírnum yfir í þann jákvæða þá er það alveg hægt.

Hér koma nokkur ráð sem eru vel til þess fallin að laga hugarfarið, að snúa skeifu í bros.

Gleðilegan mánudag!

M&S

Miðbærinn

Þessir mildu haustdagar kalla beinlínis á rölt í miðbænum okkarm, smá búðarráp, þræða allar skemmtilegu göturnar í Þingholtunum (og helst að klappa öllum köttunum sem verða á veginum), skoða fallegu götulistaverkin og jafnvel að fá sér eitthvað gott í gogginn á einhverjum af flottu veitingastöðunum í bænum. Það hefur ekki verið mikið um þessa fallegu daga í haust þannig að það er um að gera að grípa gæsina á meðan hún gefst.

Við mælum alveg sérstaklega með aðalbláberjalattéinu á Systrasamlaginu, fínt að fá sér slíkt í göngumáli á meðan rölt er um bæinn. Svo mælum við hilaust með Kol á Skólavörðustígnum, settumst þar inn um daginn og fengum okkur m.a. íslenska burrata ostin. Erum strax farnar að láta okkur dreyma um að bragða á honum aftur 😉

Njótum borgarinnar okkar sem iðar svo skemmtilega af lífi þessa dagana.

M&S

Haustverkin í garðinum

Haustverkin í garðinum geta verið þó nokkur og mig langar til þess að deila með ykkur eitthvað af því sem ég geri bæði til þess að njóta uppskerutímans sem haustið er og einnig til að undirbúa garðinn minn fyrir veturinn.

Gróðursetning haustlauka. Mér finnst mjög gaman að setja niður haustlauka, en í stað þess að setja þá niður í beð eins og ég gerði alltaf áður, þá finnst mér skemmtilegast að setja þá þétt í blómapott. Það kemur mjög fallega út á vorin.

Fræsöfnun, ég safna allskonar fræjum, t.d. af vatnsberum, trjám og þeim sumarblómum sem mig langar að rækta næsta ár. Þær tegundir sumarblóma sem auðvelt er að safna fræjum af eru fjólur, stjúpur og morgunfrú.

Þurrkun blóma og kryddjurta. Ég klippi af opnuðum nýlegum morgunfrúarblómum og þurrka til að nota í te í vetur, þetta er í miklu uppáhaldi hjá mér. Þetta er mjög heilsubætandi og bragð gott te en Morgunfrúin( Calendula officinalis ) hefur lengi verið notuð til að meðhöndla margs konar húðvandamál og sýkingar. Einnig er hún talin verkjastillandi og bólgueyðandi.

Svo er ég myntu og oregano sem ég klippi og þurrka.

Einnig er sniðugt að klippa strá, alpaþyrnir eða önnur blóm sem gaman er að prufa að þurrka í skreytingar og vasa.

Ég sting svo upp rósmarínið mitt og steinseljuna og færi þær inn í gróðurhús. Stundum teki ég líka smá rótarskot af myntu til að koma til inni gróðurhúsi til að geta fengið mér ferska myntu í teið í vetur.

Gott er að raka laufin af grasflötinni og jafnvel bera sand á grasið ef þú ert að berjast við mosa.

Ég dreifi laufunum í beðin hjá mér til að láta þau brotna niður í vetur og bæta þannig jarðveginn. Afganginn set ég svo í safnhauginn

Svo ætlaði ég að reyna að ná að bera á pallinn, þar sem lítill tími gafst til þess í sumar, en til þess að það geti gerst þarf hann að ná að þorna en slíkt hefur ekki verið í boði í Reykjavík í haust.

Sveppatínsla. Mig langaði mikið til þess að fara í sveppaleiðangur í Heiðmörk en ekki er mælt með að tína sveppi í bleytu svo sennilega verð ég að bíða eitthvað með það.

Svo er alltaf gaman að safna könglum og laufum til þess að pressa/þurrka og nota í skreytingar. Bara að passa upp á að láta lofta vel um það á meðan það er að þorrna.

Dalíur og viðkvæmir laukar. Ég er mikill Dalíu aðdáandi, hef það frá foreldrum mínum, þetta er dásamlega falleg blóm sem blómstar allt sumarið , mér finnst skemmtilegast að hafa lauka en einnig er hægt að sá þeim með fræjum. Laukurinn getur lifað í mörg ár og verður bara stærri og blómin flottari með aldrinum, en það þarf að passa upp á að hann frjósi ekki. Ég tek alltaf þessar plöntur inn og læt þær þorna upp í köldu gróðurhúsi sem ég held frostlausu og þá geymast þeir vel yfir veturinn og byrja svo að vökva aftur í mars. Einnig er hægt að taka laukinn upp og geyma hann t.d. í sagi eins og notað er fyrir nagdýr og geyma í köldu dimmu rými.

Góða skemmtun í garðinum

Kveðja

Stína

Helgarplönin

Fimmtudagur og ekki seinna vænna að byrja að plana helgina. Um síðustu helgi fórum við í bíltúr upp í Hvalfjörð og stoppuðum við Hvalfjarðareyri. Þar er frábært að stoppa og ganga út að vitanum, skoða krabba, tína steina og vonast jafnvel til að sjá eins og einn Baggalút.

Við eyddum góðri stund á eyrinni og héldum svo áfram för okkar inn fjörðin. Hvalfjörðurinn er stundum svolítið gleymdur en þar eru fullt af fallegum perlum sem vert er að skoða. Í þetta sinnið stefndum við að sundlauginni á Hlöðum. Fyrirtakssundlaug sem er í sama húsi og Hernámssetrið. Þangað væri gaman að koma í næstu fjölskylduferð, kíkja á safnið og fá sér vöfflu á kaffihúsinu.

Mælum með Hvalfirðinum fyrir helgarrúntinn 🙂