Paris

I love Paris in the springtime söng einhver einhvern tímann og það er nú bara þannig að ég elska París á hvaða tíma sem er. Hef reyndar ekki verið þar um hávetur en um sumar, haust og nú; um vor. Og vorið er komið í París. Útsprungnar páskaliljur og sumarblóm í beðum og það sem betra var: Kirsuberjatréin og Magnolíutréin í fullum blóma. Yndisleg tilfinning að geta um stutta stund um snjólaust höfuð strokið.

Eins og vanalega var ég með langan lista af things to do og eins og vanalega er margt eftir á listanum. En það er nokkuð víst að ég fer aftur og saxa þá meira á listann. Í þetta sinn voru það aðallega fallegar og fótógenískar götur og kaffihús sem ég var á höttunum eftir. Það og jafnvel að lauma eins og einu eða tveimur söfnum inn í ferðina. En þar sem ég var með tvo unglinga með í för fór slatti af tímanum í að kíkja í búðir. Og það má 🙂

Ég ætla að leyfa myndunum að tala en hápunktarnir fyrir mig voru:

 • Gallerie Lafayetta verslunarhúsið – vegna fegurðar byggingarinnar. Hvolfþakið er guðdómlegt og frábært að fara upp á þak þar sem útsýnið yfir borgina er dásamlegt
 • L´Atelier des Lumieres – svokallað immersive listasafn, þ.e. þú situr inni í sýningunni. Verkum listamannanna er varpað á gólf og veggi. Mögnuð upplifun. Mæli svo með!
 • Cafe Carette – yndislegt kaffihús síðan 1927. Það er á nokkrum stöðum í París en við fórum á Place des Vosges sem er torg/garður sem gaman er að skoða.
 • Rölt um borgina – framhjá Notre Dame og svo framhjá Eiffel turninum…alltaf jafn dásamlegt að sjá þau 🙂
 • Lúxemborgargarðurinn – sérstaklega að sjá Medici gosbrunninn
 • Shakespeare & Company – dásamleg bókabúð sem gaman er að kíkja í
 • Samvera með köllunum mínum í þessari fallegu borg

A bientot!

Njótið dagins 🙂

M

Mars er mættur

…tveimur dögum of seint en hér er það; útprentanlegt dagatal fyrir þig. Við höfðum það svolítið grænt í þetta skiptið. Kannski af því að sálin er farin að þrá að heimurinn grænki. Þessi endalausi snjór og slabb er ekki að gera mikið fyrir okkur 😉

Þannig að það er grænt þema í dag. Græni liturinn er litur gróanda og vaxtar, litur sjálfs-sáttar og vellíðunar. Hann er líka sagður auka innri frið, ást og frið…og ekki veitir nú af því þessa dagana.

Eigið grænan og vænan dag 🙂

Allt fyrir ástina …

Í dag er Valentínusardagurinn og þrátt fyrir að við höfum kannski ekki haldið mikið upp á þann dag hingað til er alltaf gaman að gera sér dagamun. Og hvað er betra en að fagna ástinni á þessu síðustu og verstu… að beina kastljósinu að kærleikanum sem gerir lífið svo miklu, miklu bærilegra.

Það að fagna þessum degi þarf ekki að þýða fjárútlát … ástin kostar jú ekki neitt. Það er nóg að vera til staðar, að sýna væntumþykju og gefa nærveru. Og þessi dagur er ekki endilega bara dagur elskenda, hann má líka vera dagurinn sem við sýnum fólkinu okkar að við elskum það.

Hér fyrir neðan finnur þú nokkrar útgáfur af útprentanlegum gjafamiðum sem gætu glatt þann sem þú elskar. Eina sem þú þarft að gera er að prenta út. Athugaðu að til að prenta út þarftu að ýta á þar sem stendur download – ekki á myndina sjálfa 🙂

Njótið dagsins … í nafni ástarinnar!

M&S

Sjálfsrækt

Það hefur sjaldan verið eins mikilvægt og nú að leggja vinnu í sjálfsrækt … að vinna í okkur sjálfum, andlega og líkamlega. Að þeim orðum slepptum skal það tekið fram að það að stunda sjálfsrækt eða að vinna í sjálfum sér þýðir ekki að við séum gölluð. Eða að við séum ekki nóg. Við erum nóg. Og allt sem við þrufum er innra með okkur. Tré sem stendur þráðbeint og fagurt út í náttúrunni er fullkomið eins og það er, jafnvel þó það sé ekki þráðbeint ;). Það þarf samt að fá næringu og raka. Það þarf rétt skilyrði til þess að halda áfram að dafna.

Á sama hátt þurfum við næringu og rétt skilyrði til þess að dafna. Þrátt fyrir að vera nóg …

Ég lenti í heilsufarslegri krísu fyrir nokkrum árum. Þetta var í fyrsta skiptið sem svona ógn steðjaði að mér persónulega og það hristi upp í grunnstoðunum mínum. Ég leyfði því að fella mig, varð of upptekin af vandamálinu og sá ekkert annað. Í nokkra mánuði leyfði ég þessari ógn, sem var í raun alls ekki eins mikil ógn og ég hélt, að stjórna mér. Ég missti matarlystina, svaf illa og leið illa. En allt tengdist þetta mínu hugarfari og því hvernig ég tókst á við þetta, ekki hinu líkamlega vandamáli. Þegar upp var staðið var líkamlega vandamálið leyst með lítilli aðgerð og ég var laus allra mála. Það sem eftir stendur er hins vegar þessi lífsreynsla, þessi lexía. Að lífið er í raun 10% það sem við lendum í og 90% hvernig við bregðumst við því. Í dag er ég þakklát fyrir þessa lífsreynslu því hún kenndi mér að vinna í sjálfri mér … að leggja rækt við sjálfa mig.

Farvegurinn fyrir svona vinnu er grösugur í dag. Sjálfsrækt, eða self-care, er “trending” svo við slettum aðeins. Auðvelt er að finna hvers kyns efni á netinu sem tengist slíkri vinnu. Sumum hentar ítarlegri vinna á meðan öðrum nægir að fá jákvæðar möntrur inn í daginn sinn. Nokkrus konar stef sem fær búsetu í huga okkar þann daginn. Sumum hentar vel að fara inn á við og stunda hugleiðslu á meðan aðrir fá sitt fix úr náttúrunni.

Fyrir mig er það blanda af þessu. Ég er orðaperri, afsakið orðalagið. Ég elska orð og tungumál. Daglegar möntrur, tilvitnanir, ljóð, textar. Það virkar fyrir mig. Stokkar með spilum, hvort sem það eru möntrur eða samfelldur texti með boðskap. Stuttar hugleiðslur (nenni ekki löngum) og jóga hér og þar. Þetta er mín remedía. Það ásamt því að hreyfa mig út í náttúrunni daglega … í sama hvaða veðri. Með hundinum mínum mér við hlið. Það er minn lyfseðill. Hundurinn sjálfur er hinn besti sálfræðingur. Hans aðferð er reyndar sú að draga hugann frá sjálfri mér og að honum … það er jú miklu skemmtilegra að leika við hann eða gefa honum nammi heldur en að hugsa um eitthvað leiðinlegt. Hann verður seint talinn efni í svona meðferðarhund, þið vitið, þessi sem fer í heimsóknir á elliheimili. Hann er sérlundaður og knúsar þegar honum hentar. En hann er samt æði. Að fara með hann út að labba í snjóbyl og sjá hann stinga nefinu ofan í snjóinn eins og Al Pacino ofan í kókaínhrúgu fær mann til að brosa og gleyma öllu öðru. Allt ofantalið ásamt hressilegri göngu með dúndrandi rapp frá 90ogeitthvað í eyrunum er það sem fær mig til að höndla lífið betur. Að ógleymdri samveru með fólkinu mínu.

Boðskapur þessa pistils er sem sagt:

 • Þú ert nóg
 • En þú þarf samt að næra þig andlega
 • Finndu hvað virkar fyrir þig og stundaðu það, sama hvað lítið eða hversu mikið
 • Fáðu þér hund 🙂

Í næsta sjálfsræktarpósti ætlum við svo að deila með ykkur góðum bókum sem leggja rækt við andann. Ef þú ert með ábendingu eða leggja orð í belg um málefnið má alltaf senda okkur línu í gegnum facebook eða instagram. Svo minnum við á eldri velferðarpósta hér á Skeggja. T.d. um morgunrútínu – hér -, heimajóga – hér – , þakklæti – hér – og guasha – hér – .

Ást og friður

M

Bóndadagurinn

Í dag er bóndadagurinn en sá dagur er einnig fyrsti dagur Þorra. Þorranum lýkur svo þann 20. febrúar á Konudeginum.

Á þessum degi er um aðgera að gera vel við bóndann sinn, vinnsælt er að gera vel við hann í mat og drykk. Svo er alltaf gaman að koma honum á óvart með smá glaðningum.

Hérna koma nokkra hugmyndir af því hvað hægt er að gera til að gleðja bónda sinn:

 • Smyrja handa honum nesti til að taka með sér í vinnuna og lauma með miða með fallegri orðsendingu.
 • Vekja hann með morgunmati í rúmið.
 • Fara í vinnuna til hans í kaffitíma eða hádeginu og annað hvort bjóða honum á veitingarstað eða kaffihús eða færa honum eitthvað girnilegt bakelsi í vinnuna.
 • Vera búin að panta barnapíu og bjóða honum í óvisuferð; út að borða, í bíó eða á kaffihús 
 • Búa til lagalista með uppáhalds lögunum hans/ykkar, jafnvel lögum sem minna ykkur á fyrstu árin ykkar saman. Í gamla daga var þetta nú bara kallað mix-teip.
 • Gefa honum frí frá því að svæfa börnin í kvöld…
 • Koma börnunum í rúmið snemma og útbúa síðbúin rómatískan kvöldverð yfir kertaljósi með honum.
 • Hafa kósý kvöld með honum einum og vera búin að kaupa uppáhalds nammið hans.
 • Flýta þér út á föstudagsmorguninn og skafa rúðurnar á bílnum, ef verðrið er þannig.
 • Útbúa handa honum freyðibað þegar hann kemur heim úr vinnunni.
 • Búa til mynda-slide-show með myndum af ykkur í gegnum tíðina, t.d. hægt að nota vef eins og Smilebox sem býður upp á skemmtilegt form á svona slæðusýningu.

Það er sem sagt hægt að gera heilmikið…og það þarf ekki að kosta neitt 🙂

Svo bjóða einnig mörg fyrirtæki upp á tilboð í tilefni dagsins þannig að það ætti að vera auðvelt að gleðja þessar elskur.

Eigið góðan bóndadag.

Knúses

S

Mömmukökur

Þetta er ein af mínum uppáhalds jólasmáköku uppskriftum og fátt minnir mig meira á æskujólin, heima á Þingeyri. Þá fékk maður alltaf að smakka nýbakaðr smákökur og síðan var þeim pakkað niður í box og geymdar til jóla, þetta fannst mér mjög erfiður siður sem gerði samt smáköku baksturinn svo hátíðlegan.

Uppskrift

125 gr sykur
250 gr sýróp
125 gr smjör
1 egg
500 gr hveiti
2 tsk matarsódi
½ tsk engifer
1 tsk negull
1 tsk kanill

Hitið sýrópið aðeins, síðan er öllum innihaldsefnum blandað saman í hrærivél. Hnoðið og setjið í kæli yfir nótt. Fletjið deigið fremur þunnt út og stingið út kökur.

Bakið við 190° þar til kökurnar verða millibrúnar eða í uþb 5-7 mínútur.

Krem:

2 bollar flórsykur
1 eggjarauða
3 msk smjör 1 msk kaffi
2 msk rjómi
½ tsk vanillusykur


Þeytið flórsykur og eggjarauðu saman. Blandið smjöri, rjóma og vanillusykri saman við. Þegar kökurnar eru orðnar kaldar eru þær lagðar saman tvær og tvær með kreminu á milli.

Verði ykkur að góðu

S

Listamaður að störfum

Við erum afar stoltar af því að geta nú boðið upp á listaverk Galactic Deer til sölu. Galactic Deer er myndskreytir og grafískur hönnuður og hefur búið á Íslandi í þrjú ár. List Deer fókusar mikið á LGBTQ, fanart og einnig á allt sem tengist himingeimnum, stjörnunum og stjörnumerkjunum. Deer er sjálflærður listamaður og hefur listin alltaf verið stór hluti af lífi háns.

Deer ætlar nú að selja myndirnar sínar í gegnum Skeggja. Deer tekur einnig við sérpöntunum og hafa sérpantaðar portrett- eða paramyndir háns verið vinsælar gjafir.

Galactic Deer er með:

heimasíðu

instagramreikning

youtube rás

Nýjasta viðbótin eru svo stjörnumerkjamyndir Deer en þær eru nú fáanlegar í vefverslun Skeggja eða með því að hafa beint samband við Deer. Myndirnar eru unnar með vatns- og akríllitum og þegar þær eru fullunnar eru þær skannaðar inn og prentaðar út á hágæða pappír. Myndirnar eru fáanlegar í nokkrum stærðum og verða allar merktar af Deer.

Flest af merkjunum eru nú þegar komin í sölu á vefsíðunni og fleiri væntanleg. Hér eru nokkur sýnishorn.

Endilega kíkið á úrvalið, alltaf gaman að styðja flott ungt listafólk.

Ást og friður

Magga & Stína

Smoothies með döðlum og turmerik

Ég var að prufa mig áfram með drykk og blandaði þá þennan ljúfenga smoothie. Ég samt aðeins að vandræðast með orðið smoothie er ekki eitthvað gott orði yfir það á íslensku ?

Innihald í drykknum er:

1 bolli möndlumjólk

1/2 banani

1/2 bolli frosinn bláber helst íslensk aðalbláber

1/2 tsk. túrmerik

1/2 tsk. kanill

1 msk chiafræ

4 mjúkar döðlur

Þessu er öllu blandað saman í matvinnsluvél og drukkinn helst ekki með röri samt. Ástæðan fyrir því að ég drekk ekki smoothie með röri er að ég las einhversstaðar að við það að drekka svona drykki fari meltingin framhjá 1. stigi í meltingarferlinu. Þar af leiðandi fer fæðan miklu hraðar og einnig sú að við það að drekka með röri þá eru meiri líkur á að loft komi með. En svo verður hver að meta fyrir sig hvað er best.

Innihaldsefnin eru í miklu uppáhaldi hjá mér vegna heilsusamlegra áhrifa þeirra.

Möndlumjólk: Er uninn úr möndlum og þær eru stútfullar af vítamínum og steinefnum. Þær innihalda  til dæmis kalk, E vítamín, magnesíum og B2 vítamín en það eru mikilvæg næringarefni fyrir líkamann. Þær eru ríkar af trefjum, innihalda góða og holla fitu og eru auk þess mjög próteinríkar, sjá meira um möndlur og heilsusamleg áhrif þeirra hér.

Kanill hefur verið notað af mannkyninu í þúsundir ára, sem krydd og í læknisfræðilegum tilgangi.
Núverandi rannsóknir er nú að leggja vísindin á bak við hlutverk kanils er sem náttúrulega andstæðingur-veiru, andstæðingur-gerla, blóðsykur og kólesteról háþrýstings og hugsanlega hjálp fyrir liðagigt og Alzheimer, sjá meira.

Bananar: Þeir eru mjög trefjaríkir og fullir af vítamínum og steinefnum. Má þar helst nefna kalíum, B6-vítamín, C-vítamín og magnesíum. Hérna má sjá 25 góðar ástæður fyrir því að borða banana, sjá meira.

Aðalbláber; þau eru stútt full af andoxunarefnum, góð fyrir meltinguna, sannköluð ofurfæða sem allir ættu að reyna að næla sér í, hérna er hægt að lesa heilmikið um aðalbláber og heilsusamleg áhrif þeirra.

Turmerik: Er sagt allra meina bót og er meðal annars bólgueyðandi, verndar heila- og hjartastarfsemi og minnkar líkur á krabbameini, sjá meira hér.

Chiafræ: Chia fræin eru sannkallaður ofurmatur sem fara sérlega vel í maga. Þau eru talin ein besta plöntu uppspretta omega-3 fitusýra sem vitað er um. Þau eru rík af andoxunarefnum og próteinum, innihalda allar lífsnauðsynlegu amínósýrurnar, eru rík af auðmeltum trefjum og því mjög góð fyrir hægðirnar. Chia fræ eru sömuleiðis sögð geta dregið úr bólgum í meltingarvegi og fita, prótein og góðar trefjar tempra einnig blóðsykurinn. Þá innihalda þau einnig gott magn af kalki, sinki, magnesíum og járni sjá meira um chiafræ.

Döðlur: Þessi litli ávöxtur er troðfullur af vítamínum og öðrum nauðsynlegum efnum sem líkaminn þarfnast. Þú finnur A-vítamín, B1, E-Vítamín, riboflavin, niacin, fólín sýru, kopar, járn, zink og meira að segja magnesíum, sjá nánar hér.

Njótið 🙂

S


https://hollustaogheilsa.weebly.com/hugleiethingar-og-daglegt-liacutef/kanill

Dagbækur

Ég hef í gegnum tíðina haldið dagbækur. Mér finnst gaman að skrifa í þær, stundum af því að lífið er svo skemmtilegt og stundum af því að það er svo erfitt og þá er gott að skrifa um erfiðleikana.

Ég hef ekki skrifað hvern einasta dag en byrjaði að alvöru aftur að nota dagbækur þegar ég byrjaði í háskóla komin á fertugsaldur. Þá vildi ég hafa dagbók til að halda utan um það sem þurfti að gera í skólanum. En svo slæddist líka fullt af öðru skemmtilegu með. Ég átti mér uppáhalds dagbókarform, sem ekki fæst lengur. Ég var aðeins vængbrotin þegar þær dagbækur hættu að fást en tók gleði mína heldur betur á ný þegar þegar hún Magga mín sýndi mér dagbókina sína. Hún er ansi listræn hún vinkona mín og var með fallega bók með auðum síðum (eða síðum með punktum sem mynda kassa og auðvelda að teikna inn í bækurnar) þar sem hún teiknaði einfaldlega inn sína daga og skreytti að vild.

Ég hef aldrei talið mig mjög listræna í þeim skilningi að teikna sjálf en ég er alveg ágæt í að setja eitt og annað saman og þó ég segi sjálf frá, þá kemur það ágætlega út. En sem sagt, árið 2019 fór ég að gera mínar dagbækur sjálf og skemmti mér mjög vel við það. Magga kynnti svo fyrir mér að á Pinterest er endalaust magn af hugmyndum til að gera fallega hluti í dagbækur ef maður slær inn leitarorðinu „bullet journal“

Fyrir meira en 10 árum datt mér í hug að skrifa niður nokkur orð um hverja utanlandsferð sem ég hafði farið í. Bæði langaði mig að finna út hvað ég væri búin að fara í margar utanlandsferðir og svo átti ég bara svo fallega bók sem var vel til þess fallinn. Ég var mjög glöð núna í haust að eiga allt það efni þegar ég ákvað að uppfæra hana og gera hana í „bullet journal“ formi.

Til dagsins í dag hef ég farið í 33 utanlandsferðir. Mér finnst það bara þó nokkuð því þegar ég var ung voru þær ekki eins algengar og sjálfsagðar og þær eru í dag.  Ég er því búin að dunda mér við að skrifa eftir gömlu bókinni og endurgera minningarnar mínar. Ég skrifa ekki meira en blaðsíðu um hverja ferð og skreyti svo. Þannig að ein opna er fyrir hverja ferð, texti hægra megin og skreyting vinstra megin.  Ég hef sett límmiða með korti af hverju landi fyrir sig og svo skreyti ég með teikningum, límmiðum og ýmsu öðru sem ég hef viðað að mér. Ég keypti mér stórskemmtilegan prentara fyrr á árinu þar sem hægt er að prenta út litlar myndir á límmiða og svo líka á hvíta og litaða renninga. Læt mynd af honum fylgja með en ég fékk hann á paperang.com. Ég hef líka sett „ferðaquote“ inn á milli, eitthvað sem mér finnst fallegt og stemma við mig.

Eins og ég sagði í upphafi, er ég ekki mjög listræn við að teikna og svoleiðis, en ég hef látið vaða í dagbækurnar mínar og þið fáið að sjá eitthvað að því. Þetta snýst líka bara um að ég sé sátt og ánægð, ég er ekki að þessu fyrir neina aðra.

Það hefur ekki verið auðvelt að fá hérlendis fallega límmiða, blöð eða annað til að skreyta bækurnar með og því hef ég aðeins verið að panta á netinu. Svo er líka komið skemmtilegt verkefni í næstu utanlandsferðum: að leita að skreytingaefni til að fylla inn í bækurnar. Núna er ég semsagt með mína dagbók þar sem ég skrifa inn í hverjum mánuði og svo ferðadagbókina. Alltaf gott að hafa hobbý.

Vona að þið fáið einhverjar hugmyndir og farið að leyfa ykkar listagyðju að njóta sín ef ykkur finnst þetta áhugavert.

Kristín Sk.