Vanillukransar

Við systur ákváðum að prufa nýja uppskrift af vanillukrönsum þetta árið. Gamla uppskriftin frá mömmu stendur samt alltaf fyrir sínu en það er líka gaman að prufa eitthvað nýtt. Helsti munurinn er sá að í þessari eru hakkaðar möndlur og komu þær bara vel út. Uppskriftina fengum við á síðu Bo Bedre og þar er hún titluð sem hvorki meira né minna en heimsins bestu vanillukransar. Þið getið smellt á Bo Bedre linkinn ef þið viljið lesa dönsku uppskriftina. En hér kemur hún á íslensku:

Þetta þarftu:

175 gr. sykur

200 gr. mjúkt smjör

1 egg

250 gr. hveiti

75 gr. möndlur

1 vanillustöng

***

Svona gerir þú:

Möndlurnar eru hakkaðar í matvinnsluvél og kornin í vanillustönginni skröpuð. Allt hært vel saman í hrærivél. Gott er að nota annað hvort sprautupoka með stjörnustút eða hakkavélina á Kitchen Aid-inu (og nota stjörnujárnið).

Deiginu er sprautað í litla hringi á bökunarpappír. Passa að hafa bil á milli þar sem kransarnir geta runnið aðeins út.

Bakað við 200 ° í ca. 6 mínútur eða þar til þeir eru orðnir gylltir. Gott að kæla þá á rist.

Það er ekki tekið fram í dönsku uppskriftina að gott sé að kæla deigið í allavega 2 klst. áður en bakað er en það er eitthvað sem við höfum alltaf gert við svona bakstur. Þannig að við mælum með því 🙂

Njótið!

Magga & Stína

Þessi græni

Við gætum jafnvel kallað hann Grinch en það er nú víst þannig að það er ekki hægt að lifa á smákökum, konfekti og jólasteikum…því miður!

Ég hef aldrei verið mikið í þessum grænu, aldrei stokkið á þann vagn. Er nefnilega svoldið meira fyrir það fyrr upptalda. En þessi kom skemmtilega á óvart og er bara ansi góður. Kostirnir við hann eru svo eftirtaldir:

  • Mangó er mjög ríkt af C og A vítamíni og er einnig gott fyrir meltinguna
  • Ananas er trefjaríkt og þar með gott fyrir meltinguna, ásamt því að vera mjög andoxunarríkt. Það getur einnig eflt ónæmiskerfið og verið bólgueyðandi.
  • Spínat er einfaldlega ofurfæða og innheldur mikið af K vítamíni (gott fyrir beinin). Þá er það líka ríkt af A og C vítamínum og einnig fólínsýru, járni og magnesíum…svo eitthvað sé nefnt.
  • Hörfræ innihalda mikið af Omega 3 fitusýrum og einnig eru þau sneisafull af alls konar vítamínum; járni, zinki, E vítamíni og kalki.

Trölli

1 lúka af frosnu spínati

1/2 banani (frosinn eða ferskur)

1 bolli af frosnu mangói og ananas (ég set bæði en hægt er að nota bara annað hvort ef vill)

1 kúfuð teskeið af muldum hörfræum

Dass af sítrónusafa

1 bolli af möndlumjólk (má líka nota vatn eða aðra tegund af mjólk)

Allt sett í blandara og blandað vel saman. Athugið að mælieiningarnar eru bara til viðmiðurnar, best er að purfa sig bara áfram 🙂

*Photo by Elianna Friedman on Unsplash

Eftir gott glas af þessum er svo hægt að halda áfram í jólagómsætinu með betri samvisku.

Eigið góðan dag!

Magga

Jólabakstur

Hér koma uppskriftirnar sem við deildum í Stundinni í nóvember. Þessar tvær eru dásamlega góðar og hátíðlegar.

Hunangsterta

2 dl vatn

2 ¼ dl sykur

2 ¼ dl sýróp

*Hitað saman í potti, brætt saman (ekki soðið). Mesti hitinn er látinn rjúka úr þess og þá er bætt við ½ tsk af engifer.

1 tsk. kanill

2 egg

*Kanil og egg hrært vel saman og blöndunni hrært varlega saman við sykurinn, vatnið og sýrópið.

350 gr. hveiti

1 tsk. matarsódi

*Þurrefnunum blandað við eggjablönduna og blandað varlega saman. Deigið sett í 2 hringform eða skúffuform. Bakað í u.þ.b. 20 mín. við 180°

Kremið

125 gr smjörlíki

1 eggjarauða

½ tsk rommdropar

½ tsk vanilludropar

*Hrært vel saman og smurt á milli botnanna. Hægt er að kljúfa botnanna og fá þannig 4 laga tertu. Einnig er gott að smyrja þunnu lagi af apríkósusultu á botnanna áður en kremið er sett á. Að lokum er tertan hjúpuð með 120 gr. af suðusúkkulaði sem búið er að láta bráðna. Gott er að geyma tertuna í kæli á meðan súkkulaðihjúpurinn storknar.

Sýrópsterta

400 gr. smjörlíki

300 gr. sykur

400 gr. sýróp (ein dós Lyle´s eru 445 gr.)

1 kg. hveiti

3 egg

3 tsk. hjartarsalt

1 tsk. negull

1 tsk. kanill

1 tsk. engifer

2 tsk. kakó

Smjörlíki og sykur hrært ljóst og létt. Eggin sett út í, sýrópið sett á eftir og kryddin. Hrært rólega saman. Hveitið sigtað saman við ásamt hjartarsaltinu og allt hnoðað saman. Venjuega þarf að bæta dálitlu af hveiti þegar deigið er hnoðað. Látið standa í kæli yfir nótt. Vigtað og skipt í 4 hluta og hver hluti rúllaður út á eina ofnplötu. Gott er að festa smjörpappír á ofnplöturnar með því að spreyja Pam spreyi á ofnplöturnar og leggja smjörpappírinn ofan á. Þá ætti að vera auðvelt að fletja deigið út á pappírnum á plötunni, ágætt að hafa hveiti við hendina og sáldra létt undir og yfir eftir þörfum.

Bakað við 180° í u.þ.b. 10 mínútur.

Kremið

350 gr. mjúkt smjörlíki

700 gr. flórsykur

2 egg

2 mtsk. vanilludropar

Allt þeytt vel saman.

Kremið sett á fyrstu plötuna, rabarbarasulta á næstu og svo aftur krem þar á eftir. Skorið niður í lagtertubita, álpappír utan um og geymt í kæli.

Verði ykkur að góðu!

Innblástur

Það er merkilegt hvað getur dottið inn á radarinn og oft er það jafnvel eitthvað sem þú hefðir ekki litið við fyrir nokkrum vikum…

Þessa dagana er ég með æði fyrir messing og brass kertastjökum. Langar helst að eiga þó nokkra af þeim, helst gamla og í alls konar stærðum.

Spurning um að fara að leita slíka uppi á nytjamörkuðunum….

Magga

*forsíðumynd frá Hannes Mauritzson

Fjórði í aðventu

Fjórði sunnudagur í þessari aðventu sem vissulega er með öðru sniði en vanalega. Það er minna um hittinga og mannamót og þeir fáu hittingar sem verða þessa dagana eru skyggðir af óttanum við að smit komi upp. En…það er engu að síður jólalegt um að litast, hátíðarblær farinn að leggjast yfir og falleg vetrarsólin minnir á sig hér og þar…og eftir morgundaginn sigrar ljósið myrkrið og dag fer að lengja aftur.

Hér á bæ er þessum sunnudegi eytt í jóladúllerí og piparkökubakstur. Kertaljós í glugga og dásamlegur ilmur í loftinu. Jólatréið komið upp og bíður þess að bræður skreyti það. Athyglinni er beint að því sem við eigum og það sem við getum gert.

Eigið ljúfan dag,

Magga

Spilajól – Síðari hluti

Nú fer heldur betur að styttast í jólin og ekki seinna vænna en að fara að ganga frá jólagjöfunum, ef það er ekki nú þegar búið. Í fyrri hluta þessa jólaspilalista safnaði ég saman nokkrum barna- og fjölskylduspilum en hér held ég áfram að bæta í sarpinn og þyngja spilin aðeins. Vonandi finna allir hér eitthvað við sitt hæfi.

L.A.M.A. er einfalt kortaspil sem hefði eiginlega átt heima á fyrri listanum hjá mér. Spilið er fyrir 2-6 leikmenn, 8 ára og eldri. Í L.A.M.A. eru leikmenn að reyna að losna við öll spil af hendi á undan öðrum leikmönnum. Spil á hendi í lok umferðar teljast sem mínus og verst er að vera með lamadýr á hendi því þau gefa 10 í mínus.

L.A.M.A. hefur slegið í gegn í mínum spilavinahópum, sem er að vissu leyti skondið þar sem L.A.M.A. myndi seint teljast sem strategíuspil. Samt er eitthvað heillandi við þetta og dásamlega upplífgandi að losna við öll spilin af hendi.


Spicy er einfalt kortaspil fyrir 2-6 leikmenn, 10 ára og eldri. Spilið gengur út á að klára öll spil af hendi, líkt og L.A.M.A. hér að ofan, nema hvað að Spicy gengur einnig út á að blekkja. Leikmenn spila út spilum á grúfu og geta logið til um hverju þeir séu að spila út. Það er svo annarra leikmanna að véfengja eða ekki.

Spicy er fallega myndskreytt og einfalt. Of einfalt myndu einhverjir segja en okkur fannst þetta skemmtilegt og svo sakar ekki að hægt er að spila það með allt að 6 leikmönnum (eins og L.A.M.A.) sem er kostur.


The Crew, The Quest for Planet Nine er samvinnukortaspil fyrir 2-5 leikmenn, 10 ára og eldri. Spilið hefur hlotið góða dóma og vann m.a. Kennerspiel des Jahres í Þýskalandi á þessu ári.

Í The Crew eru leikmenn geimfarar sem þurfa að leysa verkefni, með mismunandi númeruðum og lituðum spjöldum á meðan ferðast er um sólkerfið. Hljómar háfleygt, en The Crew er svokallað trick taking spil með nýjum vinkli. Samskipti milli leikmanna eru lykilatriði, en trikkið er að leikmenn mega ekki tala saman, enda geta samskipti verið erfið í geimnum.

Með spilinu eru 50 “þrautir” sem leikmenn leysa eina af annarri, þannig að best er að spila spilið alltaf með sama hópnum þó svo að það sé ekki endilega nauðsynlegt. Þrautirnar þyngjast hins vegar eftir því sem á spilið líður og því getur verið gott að vera alltaf með sama hóp geimfara, sem eru farnir að þekkja hvern annan og þöglu samskiptin sem þarf til að vinna.


Just One er samvinnu-selskapsspil fyrir 3-7 leikmenn, 7 ára og eldri. Spilið vann Spiel des Jahres verðlaunin árið 2019 og hefur nú verið gefið út í íslenskri útgáfu.

Leikmenn vinna saman til að ná eins mörgum orðum og þeir geta. Einn leikmaður dregur spjald með orðum sem sýnd eru hinum leikmönnunum. Þeir eiga svo að gefa leikmanninum sem dró spjaldið vísbendingu með einu orði (“Just One”) þannig að hann átti sig á hvaða orð er á hans spjaldi. Vandamálið er bara það að allar vísbendingar sem eru eins (sama orðið) núllast út og eru ekki sýndar. Þannig er eins gott að reyna að vera nógu sérstakur með vísbendinguna, en ekki um of þannig að of erfitt sé að giska á rétta orðið.

Stutt og einfalt spil, sem hentar vel í lítil fjölskylduboð þessi jólin … og ekki verra að hafa þetta allt á íslensku.


Decrypto er eitt af mínu uppáhalds partýspilum. Decrypto er fyrir 3-8 leikmenn, 8 ára og eldri. Leikmenn skipta sér í tvö lið sem sitja á móti hvort öðru við borðið. Dregin eru fjögur orðaspjöld á hvort lið og gengur spilið út á að reyna að koma þriggja stafa tölukóða, byggðan á orðunum á spjöldunum, til leikmanna í sínu liði án þess að hitt liðið geti komist að tölukóðanum. Decrypto er sem sagt njósnaspil þar sem galdurinn er að búa til sem bestan orðaleikjakóða. Þetta er flókið að útskýra á prenti og því ætla ég að láta hér staðar numið, enda byrjar spilið með nýju fólki hjá mér yfirleitt á því að segja “prófum þetta bara, þið áttið ykkur á því hvernig þetta virkar um leið og fyrsta umferð er búin” … og viti menn, það virkar alltaf 🙂

Ég get ekki mælt nógu mikið með þessu spili, með rétta hópnum er þetta eitt besta partýspil sem ég hef spilað.


Runir er íslenskt teningaspil fyrir 2-4 leikmenn, 8 ára og eldri, sem kom út fyrir skömmu. Íslensk spilaútgáfa hefur verið að sækja í sig veðrið síðustu ár, en það sem mér finnst helst há henni er hversu fastir íslenskir spilahönnuður eru í spurningaspilum, einföldum “roll and move” spilum eða bara að taka áður útgefin erlend partýspil og gefa út sem íslensk. Runir brýtur sig frá fjöldanum og því vert að veita því athygli.

Í Runir eru leikmenn rúnameistarar á víkingatímum sem skera út rúnir í steina með aðstoð teninga. Spilið byggir á íslenska Fuþark rúnaletrinu en inniheldur einnig tilvísanir í vestfirskar galdrarúnir. Leikmenn kasta teningum sem sýna rúnatákn og finna samsvarandi tákn á steinum sem eru á spilaborðinu. Gull, silfur og kopar fæst fyrir rúnirnar og markmiðið er að safna sem flestum stigum, m.a. með heimsókn í hásal jarlsins.

Þarna er að mínu mati metnaðarfull íslensk spilahönnun, en Svavar sem hannaði spilið hefur áður gefið út m.a. Mythical Island.


Azul þríleikurinn eru spil fyrir 2-4 leikmenn, 8 ára og eldri. Fyrsta Azul kom út árið 2017 og varð strax mjög vinsælt en spilið hefur unnið til fjölmargra verðlauna þ.á.m. Spiel des Jahres (spil ársins 2018 í Þýskalandi).

Í Azul eru leikmenn að sækja keramikflísar og raða upp í veggskreytingu. Hljómar kannski ekki spennandi, en spilið er mjög gott og ekki verra hvað það er litríkt og fallegt. Óhætt að mæla með Azul fyrir mjög breiðan aldurshóp.

Í kjölfarið á Azul komu svo Azul: Stained Glass of Sintra og Azul: Summer Pavilion. Af þessum tveimur er ég nú hrifnari af Summer Pavilion, en þar sem ég er djúpt sokkin í heim borðspilanna varð ég náttúrulega að eignast öll þrjú. Við höfum meira segja gengið svo langt að halda Azul spilamót þar sem öll spilin eru spiluð og sá sem nær hæstum stigum samanlagt úr öllum er sigurvegari.

Falleg og góð spil.


My City er nýjasta spilið frá Reiner Knizia sem er einn þekktasti borðspilahönnuður samtímans. My City er fyrir 2-4 leikmenn, 10 ára og eldri. Spilið er hægt að spila sem svokallað Legacy spil, þar sem spilaðir eru 24 kaflar og leikborðinu breytt og nýjir hlutir bætast við í gegnum spilið. Leikmenn byggja upp borgir með byggingum sem eru í formi Tetris kubba og þurfa að raða borginni sinni upp á sem skynsamlegastan máta.

Ég er svolítið spenntur fyrir My City þar sem þarna er komið stutt Legacy spil, hægt er að spila það á um 30 mínútum í hvert skipti. Svo er ég alltaf smá forvitinn þegar Dr. Knizia gefur út nýtt spil 🙂


Mariposas er gullfallegt fiðrildaspil frá sama hönnuði og hannaði spilið Wingspan sem hefur hlotið mikið lof og fjölmörg verðlaun. Mariposas er fyrir 2-5 leikmenn, 14 ára og eldri. Leikmenn stýra flokki fiðrilda sem fljúga frá Mexíkó norður á bóginn á vorin, dreifa sér yfir sumarið og snúa svo aftur til suðurs á haustin.

Ég veit ekki mikið meira um þetta spil, nema hvað það lítur virkilega vel út og á víst að vera gott miðað við þá gagnrýni sem ég hef séð. Alltaf gaman að sjá eitthvað nýtt viðfangsefni í spilahönnun.


The Isle of Cats er nýtt spil fyrir 1-4 leikmenn, 8 ára og eldri. Í spilinu eru leikmenn að reyna að bjarga sem flestum köttum frá Kattarey áður en hinn illi Lord Vesh mætir á svæðið og fangar kettina. Kettirnir eru af mismunandi stærðum og gerðum (mismunandi Tetris flísar) sem leikmenn verða að raða á skipið sitt á sem snjallastan hátt.

Flott og skemmtilegt spil. Svo er hægt að bæta við viðbótinni Late Arrivals og með því stækka spilið upp í 6 manna.


Pandemic Legacy – Season 0 er nýjasta Pandemic spilið og þar er farið aftur í tímann til kalda stríðsins þar sem leikmenn eru njósnarar fyrir CIA og eiga að reyna að koma í veg fyrir “Project MEDUSA” sem er efnavopnaverkefni Sovétmanna. Spilið byggir að mestu á svipuðum grunni og Pandemic en með aðeins öðruvísi snúningi. Við vorum búin að klára Pandemic Legacy – Season 1 og mig langar hrikalega mikið að komast í þetta. Hef heyrt vel ef því látið.


Að lokum verð ég svo að minna á nokkur af mínum eldri uppáhaldsspilum, spil sem eiga heima í jólapökkunum þó þau séu nokkurra ára gömlu. Þetta eru Splendor, Ticket to Ride serían með öllum sínum viðbótum, Pandemic gamla og góða og svo Codenames sem nú er komið út í íslenskri útgáfu.

Gleðilega hátíð!

Arnar


Jólaísinn

Ég dreif mig í að gera jólaísinn, gott að nýta allar rauðurnar úr lakkrístoppa gerðinni. Ég hef nú ekki gert ís öll jól, það stendur misvel á hvað varðar tíma og annað og mér hefur sem betur fer lærst á síðustu jólum að þau koma þau ekki sé allt fullkomið og þó að ekki hafi náðst að þrífa eða baka það sem hefðin krefur. Reyndar fer ég ekki í stórþrif á innréttingum og veggjum og fleiru eins og mæður okkar og ömmur gerðu hér á árum áður heldur nota allt árið í það að þrífa það sem þarf hverju sinni.

En aftur að jólaísnum. Ég sendi út í kosmósið fyrir mörgum árum spurningu um hvað væri hægt að gera úr 6 eggjarauðum, fannst svo mikil synd að henda þeim og hafði ekki lært að gera bernais sósu frá grunni þá 😉 Fékk í kjölfarið uppskrift af Toblerone ís og hefur sú uppskrift verið grunnur af jólaísnum okkar síðustu ár. Ég held ég hafi náð að gera Toblerone ís í eitt skipti en svo prófað hitt og þetta síðan.

Ég hef notað Daim, bæði kúlur og niðurbrytjað súkkulaðið sjálft. Mér finnst ísinn betri með súkkulaðinu en kúlunum. Þá hef ég brytjað niður karamellufyllt súkkulaði og fyrir mintu fólkið væri nú fínt að brytja niður pipp eða álíka. Karamellufyllt súkkulaði er það sem oftast hefur verið fyrir valinu og ég valdi það í ár. Breytti nú samt aðeins útaf vananum og ákvað að prófa að bræða súkkulaðið í rjóma og hella svo saman við ísinn. Kemst svo væntanlega að því á jóladag hvort það var góð hugmynd 😊

Jólaís

6 eggjarauður

200 gr púðursykur

½ líter rjómi (þarf að þeyta)

1 tsk vanilludropar

Súkkulaði að eigin vali, t.d. Toblerone, daim eða karamellufyllt súkkulaði.

Byrjið á að þeyta rjómann. Ég stífþeyti hann ekki en hef hann nokkuð vel þeyttann. Takið rjómann úr hrærivélaskálinni og setjið eggjarauður og púðursykur og þeytið í smá stund.

Bætið saman við vanilludropum og þeyttum rjómanum og  blandið vel. Niðurbrytjuðu súkkulaðinu er svo bætt við með sleif. Sett í form og fryst. Ég keypti mér íshring frá Tupperware fyrir nokkrum árum. Uppskriftin passar í að sléttfylla þannig form. Mér finnst afar gaman að bera íshring á borð á jólunum en að sjálfsögðu er hægt að nota hvaða form sem er og fyrst notaði ég alltaf formtertuform. Mamma var með braggalaga form í gamla daga, ég væri örugglega með minn ís þannig ef ég hefði fundið svoleiðis 😉

Eins og ég sagði áðan, þá tók ég lögg af rjómanum (botnfylli í minnsta pottinn minn) og bræddi tvö karamellufyllt súkkulaði saman við. Ég passaði að kæla súkkulaðiblönduna áður en ég setti hana saman við ísblönduna.

Okkur finnst best að bera jólaísinn fram með heitri súkkulaðisósu og Lindu ískexi. Oftast set ég botnfylli af rjóma í pott og bræði 2-3 mars saman við. Ískexið var alltaf á borðum á æskuheimilum okkar beggja og því finnst okkur það ómissandi og bæta við hátíðleikann.

Kristín Sk.

Lakkrístoppar

Ég baka toppa á hverri aðventu. Ég er búin að prófa allskonar útgáfur af þeim en enda alltaf aftur í lakkrís toppunum. Mér finnst þeir bestir og verð minnst leið á þeim þegar líður á að skammturinn klárist. Ég hef prófað tromp toppa, þrista toppa, turkispebber toppa og toppa með piparfylltum lakkrísreimum. Ég er alltaf með sömu grunn uppskriftina nema í þrista toppunum, þá sleppti ég rjómasúkkulaðinu.

Ég hef alltaf verið í vandræðum með að fá toppana mína til að vera eiginlega toppa, þeir verða alltaf flatir að minnsta kosti síðustu tvær plöturnar. Fyrstu árin mín (sennilega alveg 15) sem ég var í búskap bræddi ég líka úr nokkrum handþeyturum  við að reyna að þeyta þá nóg en gamla góða KitchenAid drottningin hennar mömmu sem ég er með í langtíma láni hefur nú heldur betur bjargað. Ég pirraði mig samt alltaf svo mikið á flötu toppunum, þangað til ég ákvað að hafa þá bara alla flata og engan eiginlega topp. Síðan þá skelli ég í tvöfalda uppskrift og borða flata toppa með mikilli gleði 😉

Þar sem ég geri alltaf tvöfalda uppskrift, á ég alltaf til rauður í jólaísinn og fínt að gera hann næsta dag eða samdægurs ef ég er í stuði.

Aldrei að vita nema að sú uppskrift slæðist hér inn 😊

Lakkrís toppar – einföld uppskrift

3 eggjahvítur

200 gr púðursykur

150 gr rjómasúkkulaði

300 gr lakkrískurl (tveir pokar)

Setja eggjahvítur og sykur saman í hrærivélaskál og þeyta þar til er orðið svo stíft að það lekur ekki úr skálinni þó henni sé snúið á hvolf.

Bæta niðurskornu rjómasúkkulaði og lakkrískurli saman við, best að gera með sleifinni.

Setja á bökunarplötur og baka við 170°C í 11-13 mínútur.

Verði ykkur að góðu!

Kristín Sk.

Snjókarlar í baði

Það er svo notalegt að koma heim eftir að hafa verið úti í vetrarkuldanum og fá sér heitt súkkulaði. Það kemur mörgum á óvart hversu auðvelt það er að útbúa ekta heitt súkkulaði. Áður fyrir fannst mér það vera svo flókið ferli og gerði það ekki oftar en einu sinni eða tvisvar á ári. Núna er það hinsvegar gert einu sinni til tvisvar í mánuði að meðaltali.

Um daginn fékk dóttir mín að hafa kósíkvöld með nokkrum bekkjarsystrum sínum. Þegar þær voru búnar að vera úti í garði að leika um stund komu þær inn kátar en kaldar. Þær báðu því um heitt súkkulaði og vildu svo að föndra. Einhverra hluta vegna varð úr þessu sykurpúða snjókarlaföndur, en ég hafði oft dáðst að skemmtilegum myndum af sætum snjókörlum í heitum súkkulaði bolla á Pinterest. Stelpurnar gerðu sér svo sæta sykurpúða snjókarla sem fengu að skella sér í heitt og notalegt bað ofan í súkkulaðibollanum.

Mjög skemmtileg stund þar sem slegnar voru tvær flugur í einu höggi; föndur og saddur magi.

Það sem þú þarft til að gera sykurpúða snjókarla:

  • sykurpúða
  • saltstangir
  • hlaup sem við klipptum til svo það líktist nefi
  • brætt suðusúkkulaði til að teikna munn, augu og hnappa á snjókarlana

Hér fylgir svo með uppskrift af heitu súkkulaði sem er afar gott:

Heitt súkkulaði

1 lítri mjólk, mér finnst það mjög gott í nýmjólk en ef ég er að fá mér rjóma út í þá er betra finnst mér að hafa það létt mjólk.

100 gr suðusúkkulaði, sumir vilja hafa meira af suðusúkkulaði en þetta magn finnst okkur í fjölskuldunni fullkomin blanda.

1-2 msk. sykur

1-2 tsk. íslenskt smjör

smá salt, bara rétt framan á hnífsodd

1 tsk. vanilludropar

Aðferð

Allt innihald sett í pott og hitað að suðu en samt ekki látið sjóða, bara þangað til súkkulaðið er alveg bráðnað. Súkkuðlaðinu er síðan hellt í bolla og borðið fram með þeyttum rjóma eða sykurpúða eða bara bæði 🙂

Verði ykkur að góðu!

Stína

Piparkökuhús

Að skreyta piparkökuhús er hjá mörgum ómissandi hluti af jólaundirbúningnum. Ilmurinn sem fylgir er ómótstæðilegur og húsin sjálf minna á ævintýri barnæskunnar.

Við höfum oft búið til eigin hús og límt saman í gegnum tíðina…og oftar en ekki láku þau stuttu síðar í sundur eða hrundu. Og það langar kannski engum til að hafa hús sem lítur út fyrir að hafa lent í suðurlandsskjálftanum.

Þegar við sáum að hægt er að kaupa samsett eða ósamsett piparkökuhús í Björnsbakarí vorum við ekki lengi að drífa okkur þangað. Húsin er dásamleg með háum fallegum skorsteini og það besta við þau er að þau eru bökuð hér heima, það er stutt síðan þau voru böku og eru umhverfisvænni en þau innfluttu.

Við fengum tvö hús gefins hjá Björnsbakarí og leyfi til að bjóða ykkur 15% afslátt af keyptum húsum hjá þeim. Húsin kosta 2150kr samsett og 1750kr ósamsett. Best er að hringja og panta ef þið viljið fá húsið samsett en annars eru þau ósamsettu innpökkuð í hillunum.

Yngri börnin okkar voru alsæl með þessa stund og húsin þeirra eru frábærlega vel skreytt. Okkur grunar nú að unglingunum okkar langi líka til að skreyta hús…maður er nefnilega aldrei of gamall til að skreyta piparkökuhús 🙂

*ath. húsin voru gjöf frá Björnsbakarí og bendum við á tilboð þeirra í staðinn*