Hrekkjavökupósturinn

Hér kemur hann…árlegi hrekkjavökupósturinn. Við höfum nefnilega gaman af hvers kyns stússi og því að gera lífið skemmtilegra, finna tilefni til að gleðjast. Þess vegna höldum við hrekkjavöku. Við höfum áður komið inn á þetta málefni, þetta með að vera að halda upp á þennan sið. Árlega heyrum við fólk kvarta undan því að vera að herma eftir Bandaríkjunum en það er bara ekki rétt…þetta er nefnilega keltneskur siður í grunninn og dýpri pælingar á bak við hann eins og hún Þórunn fór í gegnum fyrir okkur í pistli sínum hér.

Síðustu árin höfum við systur skipst á að halda hrekkjavökuboð fyrir okkar nánustu. Húsið er skreytt að tilheyrandi sið og fólk fer í sína skelfilegustu búninga, krakkarnar skjótast út um hverfið og krækja í sælgæti. Sumar götur og hverfi fara “all in” og þar er gaman að labba með gríslingum. Það gladdi mig sérlega mikið þegar ég fór með yngri syninum í eina af þessum götum fyrir tveimur árum. Gatan var mjög skemmtilega skreytt og flestir íbúanna tóku þátt, stigagangarnir litu út eins og draugahús og alls staðar var flott skraut. Þegar við vorum að halda heim á leið vildi hann stoppa í einu húsi enn. Þar var lítið um skreytingar en grasker á tröppum gaf til kynna að þarna væri hægt að fá eitthvað gott. Ég stóð á gangstéttinni og horfið á soninn berja dyra. Eftir smástund opnuðust dyrnar löturhægt, og drungaleg tónlist barst úr rökkvuðu andyrinu. Ég sá minn mann taka eitt skref til baka og ekki var laust við að ég fengi hroll þar sem ég stóð í öruggri fjarlægð, þegar vera stígur fram úr myrkrinu. Veran teygir hægt fram loppuna, réttir barninu sælgæti, hverfur aftur inn í myrkrið og dyrnar lokast. Frábær endapunktur á flottu kvöldi og sonurinn vildi flýta sér heim eftir þetta 😉

Við leyfum hér að fljóta með nokkrum myndum af hrekkjavökugleði okkar í gegnum árin…

Hrekkjavakan er sem sagt fínindis afsökun til að halda góða veislu, grípið tækifærið!

Stína og Magga

Hrekkjavökuhugmyndir

Í dag hefjast vetrarfrí í flestum skólum í höfuðborginni og svo vill svo skemmtilega til að hrekkjavaka er á næsta leyti. Hér koma tvær góðar hugmyndir fyrir þá sem vilja byrja þjófstarta hrekkjavökugleðinni.

Hauskúpa

Hér þarf bara stórt brauðbretti og fullt af hvítu nammi eða snakki. Við notuðum litlar hrískökur, poppkorn, djúpur, krítar, hvítar fílakúlur og bara það sem okkur datt í hug…bara ef það var hvítt. Í augu,nef og munninn notuðum við svo súkkulaði. Svo er bara að raða þessu upp svo hauskúpa myndist. Best er að byrja á augunum, nefinu og munninnum og raða hinu svo í kring. Einföld og skemmtileg hugmynd á hrekkjavöku-veisluborðið.

jkjkjkj

Nornakústar

Þessir krúttlegu nornakústar eru einfaldir í framkvæmd og setja svip á veisluborðið. Það sem þarf eru pappírsrör, saltstangir og sellófanpappír, einnig límband og band. Við klipptum út passlegan bút af sellófanpappírnum og límdum hliðarnar þannig að úr varð nokkurs konar poki. Þá skárum við saltstangirnar í tvennt, settum helminginn ofan í pokann, stungum rörinu ofan í, límdum og bundum fyrir. Og úr varð lítill nornakústur 🙂

Njótið vel og eigið skelfilega góða helgi…

M&S

Helgarplönin

Fimmtudagur og ekki seinna vænna að byrja að plana helgina. Um síðustu helgi fórum við í bíltúr upp í Hvalfjörð og stoppuðum við Hvalfjarðareyri. Þar er frábært að stoppa og ganga út að vitanum, skoða krabba, tína steina og vonast jafnvel til að sjá eins og einn Baggalút.

Við eyddum góðri stund á eyrinni og héldum svo áfram för okkar inn fjörðin. Hvalfjörðurinn er stundum svolítið gleymdur en þar eru fullt af fallegum perlum sem vert er að skoða. Í þetta sinnið stefndum við að sundlauginni á Hlöðum. Fyrirtakssundlaug sem er í sama húsi og Hernámssetrið. Þangað væri gaman að koma í næstu fjölskylduferð, kíkja á safnið og fá sér vöfflu á kaffihúsinu.

Mælum með Hvalfirðinum fyrir helgarrúntinn 🙂

Helgarferðin

Við áttum erindi til Akureyrar um þar síðustu helgi og hefðum ekki getað hitt á betri helgi. Veðrið var dásamlegt; sól og blíða og bærinn fullur af lífi. Sannarlega kærkomin tilbreyting frá súldinni fyrir sunnan…og reyndar því leiðindaveðri sem herjar á allt landið þessa dagana.

Það var ekki laust við að útlanda tilfinning lægi í loftinu. Alls staðar var fólk að spóka sig og kaffihús og veitingastaðir smekkfullir af fólki, sérstaklega útisvæðin.

Akureyri hefur alltaf heillað mig og hvað þá í svona blíðu. Bærinn er einstaklega fallegur og margt skemmtilegt hægt að gera. Sundlaugin klikkar ekki, ferð á Grænu könnuna er möst og svo þarf auðvitað að kíkja í nokkrar búðir.

Listagilið er skemmtilegt svæði en þar er fallegt að labba um. Ég lét loks verða af því að kíkja inn á Listasafnið á Akureyri og hitti þar á mjög flotta samsýningu í Ketilhúsinu og einnig var flott sýning á verkum Errós á fjórðu hæðinni. Þá heilluðu verk Lilýar Erlu Adamsdóttir mig mikið.

Á svona sólardögum er líka tilvalið að kíkja í Lystigarðinn og spóka sig þar…leggjast jafnvel niður í grasið og sóla sig um stund.

Að lokum er varla hægt að minnast á Akuryeri án þess að tala um Brynjuís…en það er ekki hægt að fara til Akureyrar án þess að fá sér einn…jafnvel tvo Brynjuísa 🙂

Ég mæli svo sannarlega með ferðalagi til Akureyrar. Við komum til baka endurnærð og eilítið sólbrunnin á nefinu.

Magga

Ferming á tímum Covid

Það er kannski ekki eitt af stærstu vandamálum heimsins þegar heimsfaraldur geysar; hvort hægt sé að halda fermingarveislu. En í augum ungs fermingarbarns getur þetta verið mikið mál.

Yngri sonur okkur var fermdur á sumardaginn fyrsta og dagarnir, jafnvel vikurnar, á undan voru litaðar af stressi. Stressi yfir því hvort hægt væri að halda veislu, hvort barnið yrði yfirleitt fermt, hversu margir mega koma saman og fleira í þeim dúr. Hækkandi smittölur rétt fyrir fermingardag voru ekki að hjálpa til. Hvað ef Þórólfur skellir öllu í lás og við sitjum uppi með snittur sem duga í nokkrar vikur?

Niðurstaðan varð sú að hægt var að ferma með því að skipta hópnum í tvennt og einungis hægt að halda litla veislu fyrir allra nánustu. Hundrað manna salurinn var því afbókaður…

Við skiptum okkar allra nánustu í tvö holl og héldum tvær veislur hér heima. Pössuðum að hafa tíma á milli til að þrífa snertifleti og gæta fyllsta hreinlætis. Fermingarbarnið var alsælt og þó hann hefði viljað fagna með stórfjölskyldunni naut hann dagsins og fékk fallega veislu(r). Hann sá sjálfur um að baka aðra fermingartertuna og bakað kransakökuna með pabba sínum.

Að vanda vorum við með alltof mikið af veitingum, en það er bara okkar stíll 😉 og allir fóru saddir og sælir heim.

Það er ekki laust við að foreldrarnir á þessum bæ hafi andað léttara þegar fermingardagurinn var liðinn. Þetta hafðist og fyrir það erum við, og fermingardrengurinn, afar þakklát.

Ég læt hér fylgja með ljóð sem var í fermingarkorti sem kirkjan gaf fermingarbörnunum. Kortið var gefið út fyrir mörgum árum (sennilega í kringum 1960-70…?) af Bræðrafélag Langholtssafnaðar en á vel við enn í dag enda er þetta nokkurskonar vegvísir eða heillaráð fyrir ungmenni. Boðskapurinn er einfaldur; vertu góð manneskja, sýndu kærleik og horfðu björtum augum á heiminn. Þá mun lífið brosa við þér.

Vertu eins og blóm, sem breiðir

blöð sín mót himni og sól.

Vertu hönd, sem haltan leiðir,

hæli þeim, sem vantar skjól.

Vertu ljós þeim villtu og hrjáðu,

vinur þeirra, er flestir smá.

Allt með björtum augum sjáðu,

auðnan vð þér brosir þá.

M.S.

Magga

Páskar…

Páskarnir eru yndislegur tími og oftar en ekki nýtur maður páskafrísins betur en jólafrísins. Það er orðið svo bjart á þessum árstíma og oft…stundum…viðrar mjög vel til útivistar.

Þrátt fyrir að hertar sóttvarnarreglur bjóði kannski ekki upp á mikil veisluhöld er um að gera að njóta samvistar við sitt allra návista, leggja fallega á borð og borða góðan mat.

Hér kemur ofur einföld hugmynd að borðskreytingu. Það eina sem þú þarft eru fallegar servíettur, hvít plastegg (fást t.d. í Föndru), permanent tússpenna og gróft band til að binda servíettuna saman. Afar einfalt og fallegt…og tilvalið að leyfa litlum fjölskyldu meðlimum að teikna á eggin.

Gleðilega páska!

Stelpur rokka

Í dag er Alþjóðlegur baráttudagur kvenna og af því tilefni langar okkur til að deila myndaþætti sem tekinn var fyrir nokkrum árum, af tveimur litlur skottum sem hafa ákveðna lund, vita hvað þær vilja og láta ekki segja sér fyrir verkum….helst ekki 😉

Á fallegum sumardegi í júlí fengum við þessar skottur til að vera fyrirsætur í þessum litla myndaþætti. Ölum stelpurnar okkar upp sem sterka og ákveðna einstaklinga sem kunna að standa á rétti sínum en um leið brjóta ekki á rétti annara. Þannig uppeldi ættu allir að hljóta og kannski yrði heimurinn þá aðeins betri.

Ég hef mikla trú á því að þessar ungu dömur verði ákveðnar konur sem láta til sín taka í framtíðinni.

Áfram stelpur/konur – til hamingju með daginn!

Stína

Náttúran bíður…

Fyrir ekki svo mörgum árum var ég haldin þeirri ranghugmynd að ekkert væri hægt að gera á Íslandi. Að það hlyti að vera betra alls staðar annars staðar í heiminum. Sem betur fer læknaðist ég af þessum kvilla og kann heldur betur að meta landið mitt og það sem það hefur að bjóða. Það getur verið að þessi hugarfarsbreyting hafi komið til með aldrinum og því að ég leita meira í öðruvísi afþreyingu en ég gerði áður.

En það getur líka verið að þetta sé einmitt bara það; hugarfarsbreyting. Að taka meðvitaða ákvörðun að vera ánægður þar sem maður er…að blómstra þar sem manni var stungið niður. Að vera ánægð með það sem þú átt í stað þess að langa alltaf í eitthvað annað. Þar gæti nefnilega hin sanna hamingja leynst.

Nú er vetrarfríi grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu að ljúka og eflaust margir sem hafa nýtt tímann í samveru með fjölskyldunni. Og þá reynir á þetta, þ.e. hvað er hægt að gera? Það er nefnilega heilmikið og það þarf ekki að alltaf að vera kostaðarsöm afþreying.

Eitt af því sem við elskum að gera er að fara í dagsferðir og erum svo heppinn að yngri unglingurinn nennir ennþá að koma með. Stundum förum við bara þrjú….plús hundurinn auðvitað 😉 Stundum koma aðrir úr stórfjölskyldunni með. Þá er hægt að hafa með sér nesti og borða úti ef veðrið er gott. Nú eða setjast inn á kaffihús eða veitingastaði.

Í nágrenni höfuðborgarinnar eru nefnilega skemmtilegir staðir til að heimsækja. Við höfum t.d. verið dugleg að fara í Hveragerði, borða á Skyrgerðinni eða grípa okkur eitthvað frá Almari bakara og snæða úti í náttúrinni. Gaman er að rölta um bæinn eða skella sér í sund. Svo er líka hægt að keyra niður að sjó og fara í fjöruna við Eyrarbakka. Svæðið á milli Eyrarbakka og Þorlákshafnar er mjög skemmtilegt.

Einn af okkar uppáhaldsstöðum til að stoppa á er svo Knarrarósviti sem er fyrir utan Stokkseyri. Þar er gaman að rölta um og kíkja niðri í fjöru. Einnig býður Reykjanesið upp á óteljandi skemmtilega staði til að skoða: Kleifarvatnið er perla út af fyrir sig. Og tilvalið er að fara að í vita-skoðunarferð og taka hringinn um Reykjanesið. Svæði í kringum Reykjanesvitann er mjög fallegt og fjaran við Garðskagavita er ómissandi stoppistaður.

Þetta eru eingöngu nokkrir af okkar uppáhaldsstöðum sem auðvelt er að fara í dagsferð til. Það er ótrúlega nærandi að fá orkuskot frá náttúrunni og eiga góða fjölskyldustund.

Magga

Börn og bakstur

Flestum börnum finnst mjög skemmtilegt að fá að baka og stússast í eldhúsinu. Þau byrja flest í heimilisfræði þegar þau byrja í skóla og vilja því oft fá að æfa sig þegar heim er komið.

Mér hefur fundist það að lofa dóttir minni að baka með mér líka vera góð leið til að æfa lestur og stærðfræði. Hún þarf að lesa uppskriftirnar og spá í hvað tsk, msk og dl þýðir. Eitt sinn ætlaði hún að útbúa kókoskúlur alveg sjálf og það gekk bara mjög vel, þar til í lokin. Þá kemur til mín með deigið sitt en það var greinilega of mikið af vökva í því. Hún hafði ekki áttað sig á að það skipti máli hvort maður notar matskeið eða desilítra mál og notaði því bara alltaf desilítra málið til að spara sér uppvask. Þetta var góð reynsla og hún lærði heilmikið af þessu.

Um daginn lofaði ég dóttur minni og frænku okkar að baka og þær fengu nokkuð frjálsar hendur um meðferðina á deiginu svo úr varð hin skemmtilegasta föndurstund. Stundum skiptir bara mestu máli að hafa gaman, fá að vera í flæðinu og leika sér með deigið.

Við styðjumst við nokkrar skemmtilegar uppskriftar bækur í okkar bakstursstundum. Þetta eru bækur sem við erum búin að eiga lengi og hafa verið mikið notaðar. Best þykir mér danska bókin Börnenes beste fester. Hún er auðveld og þægileg fyrir börnin til þess að fylgja sjálf skref fyrir skref.

Góða skemmtun í eldhúsinu með uppáhalds fólkinu ykkar 🙂

Stína

Bóndadagur

Bóndadagur á morgun og markar þessi dagur upphaf Þorra. Það er tilvalið að gleðja betri helminginn sinn á bóndadag en nú er kannski ekki eins auðvelt að gera sér glaðan dag og í vanalegu árferði. Sumir treysta sér kannski alveg til að fara út að borða með elskunni en fyrir hina koma hér nokkrar hugmyndir:

 • Vekja hann með morgunmat í rúmið….eða bara vera búin að útbúa fallegt morgunverðarborð í eldhúsinu, fyrir þá sem geta ekki hugsað sér að matur sé snæddur í rúminu 😉
 • Smyrja handa honum nesti til að taka með sér í vinnuna og lauma með miða með fallegri orðsendingu.
source unknown
 • Fara í vinnuna til hans í kaffitíma eða hádeginu og annað hvort bjóða honum á veitingarstað eða kaffihús eða færa honum eitthvað girnilegt bakelsi í vinnuna. Þar sem vinnan er heima hjá mörgum þarf nú ekki að fara langt.
 • Vera búin að panta barnapíu og bjóða honum í óvisuferð; út að borða, í bíó eða á kaffihús….og ef ykkur langar ekki á opinbera staði en langar að komast út tvö saman er hægt að fara í gönguferð saman, ísbíltúr eða bara á gamla góða rúntinn.
 • Búa til lagalista með uppáhalds lögunum hans/ykkar, jafnvel lögum sem minna ykkur á fyrstu árin ykkar saman. Í gamla daga var þetta nú bara kallað mix-teip 😉
Photo by Volodymyr Hryshchenko on Unsplash
 • Gefa honum frí frá því að svæfa börnin í kvöld…
 • Koma börnunum (ef þau eru til staðar ) í rúmið snemma og útbúa síðbúin rómatískan kvöldverð yfir kertaljósi með honum.
 • Hafa kósý kvöld með honum einum og vera búin að kaupa uppáhalds nammið hans.
 • Flýta þér út á föstudagsmorguninn og skafa rúðurnar á bílnum…þið sem nennið þessu fáið extra prik í kladdann! Það er ansi kalt þessa dagana.
 • Útbúa handa honum freyðibað þegar hann kemur heim úr vinnunni…ekki verra að skella sér með honum í baðið, nema börnin séu heima. Þá mælum við alls ekki með því 😉
 • Búa til mynda-slide-show með myndum af ykkur í gegnum tíðina, t.d. er hægt að nota vef eins og Smilebox sem býður upp á skemmtilegt form á svona slæðusýningu.
 • Svo er líka alltaf hægt að vera þjóðleg og gefa honum íslenskan þorrabjór og þorramat 🙂

Það er sem sagt hægt að gera heilmikið…og það þarf ekki að kosta neitt 🙂

Eigið ljúfan bóndadag á morgun!