Sjálfsrækt

Það hefur sjaldan verið eins mikilvægt og nú að leggja vinnu í sjálfsrækt … að vinna í okkur sjálfum, andlega og líkamlega. Að þeim orðum slepptum skal það tekið fram að það að stunda sjálfsrækt eða að vinna í sjálfum sér þýðir ekki að við séum gölluð. Eða að við séum ekki nóg. Við erum nóg. Og allt sem við þrufum er innra með okkur. Tré sem stendur þráðbeint og fagurt út í náttúrunni er fullkomið eins og það er, jafnvel þó það sé ekki þráðbeint ;). Það þarf samt að fá næringu og raka. Það þarf rétt skilyrði til þess að halda áfram að dafna.

Á sama hátt þurfum við næringu og rétt skilyrði til þess að dafna. Þrátt fyrir að vera nóg …

Ég lenti í heilsufarslegri krísu fyrir nokkrum árum. Þetta var í fyrsta skiptið sem svona ógn steðjaði að mér persónulega og það hristi upp í grunnstoðunum mínum. Ég leyfði því að fella mig, varð of upptekin af vandamálinu og sá ekkert annað. Í nokkra mánuði leyfði ég þessari ógn, sem var í raun alls ekki eins mikil ógn og ég hélt, að stjórna mér. Ég missti matarlystina, svaf illa og leið illa. En allt tengdist þetta mínu hugarfari og því hvernig ég tókst á við þetta, ekki hinu líkamlega vandamáli. Þegar upp var staðið var líkamlega vandamálið leyst með lítilli aðgerð og ég var laus allra mála. Það sem eftir stendur er hins vegar þessi lífsreynsla, þessi lexía. Að lífið er í raun 10% það sem við lendum í og 90% hvernig við bregðumst við því. Í dag er ég þakklát fyrir þessa lífsreynslu því hún kenndi mér að vinna í sjálfri mér … að leggja rækt við sjálfa mig.

Farvegurinn fyrir svona vinnu er grösugur í dag. Sjálfsrækt, eða self-care, er “trending” svo við slettum aðeins. Auðvelt er að finna hvers kyns efni á netinu sem tengist slíkri vinnu. Sumum hentar ítarlegri vinna á meðan öðrum nægir að fá jákvæðar möntrur inn í daginn sinn. Nokkrus konar stef sem fær búsetu í huga okkar þann daginn. Sumum hentar vel að fara inn á við og stunda hugleiðslu á meðan aðrir fá sitt fix úr náttúrunni.

Fyrir mig er það blanda af þessu. Ég er orðaperri, afsakið orðalagið. Ég elska orð og tungumál. Daglegar möntrur, tilvitnanir, ljóð, textar. Það virkar fyrir mig. Stokkar með spilum, hvort sem það eru möntrur eða samfelldur texti með boðskap. Stuttar hugleiðslur (nenni ekki löngum) og jóga hér og þar. Þetta er mín remedía. Það ásamt því að hreyfa mig út í náttúrunni daglega … í sama hvaða veðri. Með hundinum mínum mér við hlið. Það er minn lyfseðill. Hundurinn sjálfur er hinn besti sálfræðingur. Hans aðferð er reyndar sú að draga hugann frá sjálfri mér og að honum … það er jú miklu skemmtilegra að leika við hann eða gefa honum nammi heldur en að hugsa um eitthvað leiðinlegt. Hann verður seint talinn efni í svona meðferðarhund, þið vitið, þessi sem fer í heimsóknir á elliheimili. Hann er sérlundaður og knúsar þegar honum hentar. En hann er samt æði. Að fara með hann út að labba í snjóbyl og sjá hann stinga nefinu ofan í snjóinn eins og Al Pacino ofan í kókaínhrúgu fær mann til að brosa og gleyma öllu öðru. Allt ofantalið ásamt hressilegri göngu með dúndrandi rapp frá 90ogeitthvað í eyrunum er það sem fær mig til að höndla lífið betur. Að ógleymdri samveru með fólkinu mínu.

Boðskapur þessa pistils er sem sagt:

 • Þú ert nóg
 • En þú þarf samt að næra þig andlega
 • Finndu hvað virkar fyrir þig og stundaðu það, sama hvað lítið eða hversu mikið
 • Fáðu þér hund 🙂

Í næsta sjálfsræktarpósti ætlum við svo að deila með ykkur góðum bókum sem leggja rækt við andann. Ef þú ert með ábendingu eða leggja orð í belg um málefnið má alltaf senda okkur línu í gegnum facebook eða instagram. Svo minnum við á eldri velferðarpósta hér á Skeggja. T.d. um morgunrútínu – hér -, heimajóga – hér – , þakklæti – hér – og guasha – hér – .

Ást og friður

M

Smoothies með döðlum og turmerik

Ég var að prufa mig áfram með drykk og blandaði þá þennan ljúfenga smoothie. Ég samt aðeins að vandræðast með orðið smoothie er ekki eitthvað gott orði yfir það á íslensku ?

Innihald í drykknum er:

1 bolli möndlumjólk

1/2 banani

1/2 bolli frosinn bláber helst íslensk aðalbláber

1/2 tsk. túrmerik

1/2 tsk. kanill

1 msk chiafræ

4 mjúkar döðlur

Þessu er öllu blandað saman í matvinnsluvél og drukkinn helst ekki með röri samt. Ástæðan fyrir því að ég drekk ekki smoothie með röri er að ég las einhversstaðar að við það að drekka svona drykki fari meltingin framhjá 1. stigi í meltingarferlinu. Þar af leiðandi fer fæðan miklu hraðar og einnig sú að við það að drekka með röri þá eru meiri líkur á að loft komi með. En svo verður hver að meta fyrir sig hvað er best.

Innihaldsefnin eru í miklu uppáhaldi hjá mér vegna heilsusamlegra áhrifa þeirra.

Möndlumjólk: Er uninn úr möndlum og þær eru stútfullar af vítamínum og steinefnum. Þær innihalda  til dæmis kalk, E vítamín, magnesíum og B2 vítamín en það eru mikilvæg næringarefni fyrir líkamann. Þær eru ríkar af trefjum, innihalda góða og holla fitu og eru auk þess mjög próteinríkar, sjá meira um möndlur og heilsusamleg áhrif þeirra hér.

Kanill hefur verið notað af mannkyninu í þúsundir ára, sem krydd og í læknisfræðilegum tilgangi.
Núverandi rannsóknir er nú að leggja vísindin á bak við hlutverk kanils er sem náttúrulega andstæðingur-veiru, andstæðingur-gerla, blóðsykur og kólesteról háþrýstings og hugsanlega hjálp fyrir liðagigt og Alzheimer, sjá meira.

Bananar: Þeir eru mjög trefjaríkir og fullir af vítamínum og steinefnum. Má þar helst nefna kalíum, B6-vítamín, C-vítamín og magnesíum. Hérna má sjá 25 góðar ástæður fyrir því að borða banana, sjá meira.

Aðalbláber; þau eru stútt full af andoxunarefnum, góð fyrir meltinguna, sannköluð ofurfæða sem allir ættu að reyna að næla sér í, hérna er hægt að lesa heilmikið um aðalbláber og heilsusamleg áhrif þeirra.

Turmerik: Er sagt allra meina bót og er meðal annars bólgueyðandi, verndar heila- og hjartastarfsemi og minnkar líkur á krabbameini, sjá meira hér.

Chiafræ: Chia fræin eru sannkallaður ofurmatur sem fara sérlega vel í maga. Þau eru talin ein besta plöntu uppspretta omega-3 fitusýra sem vitað er um. Þau eru rík af andoxunarefnum og próteinum, innihalda allar lífsnauðsynlegu amínósýrurnar, eru rík af auðmeltum trefjum og því mjög góð fyrir hægðirnar. Chia fræ eru sömuleiðis sögð geta dregið úr bólgum í meltingarvegi og fita, prótein og góðar trefjar tempra einnig blóðsykurinn. Þá innihalda þau einnig gott magn af kalki, sinki, magnesíum og járni sjá meira um chiafræ.

Döðlur: Þessi litli ávöxtur er troðfullur af vítamínum og öðrum nauðsynlegum efnum sem líkaminn þarfnast. Þú finnur A-vítamín, B1, E-Vítamín, riboflavin, niacin, fólín sýru, kopar, járn, zink og meira að segja magnesíum, sjá nánar hér.

Njótið 🙂

S


https://hollustaogheilsa.weebly.com/hugleiethingar-og-daglegt-liacutef/kanill

Bleikur október

EIns og flestir vita er október mánuður vitundarvakningar um brjóstakrabbamein. Flest þekkjum við einhvern sem hefur fengið brjóstakrabbamein, sigrast á því eða látist af völdum þess. Við hér í Skeggja þekkjum góðar konur sem hafa farið alltof snemma.

Okkur langar til að vekja athygli á mikilvægi þess að fara í reglulega brjóstaskoðun. Það tekur afskaplega stuttan tíma, kannski smá bið eftir tíma en skoðunin sjálf gengur hratt fyrir sig.

Í tilefni af bleikum október settum við Konu plakatið okkar í antík-bleikan búning og ætlum að láta 50% af söluverðinu renna til Bleiku slaufunnar.

“Hin sanna fegurð konu endurspeglast í sálu hennar”. Þessi tilvitun í Audrey Hepburn prýðir plakatið og minnir okkur á að okkar sönnu fegurð má finna innra með okkur og að ytra útlit skiptir jú minna máli. Því ef sálin er falleg skín það alltaf í gegn. Plakatið er prentað á 170 gr. gæðapappír og kemur í stærð 30×40 cm.

Plakatið finnið þið á vefverslun okkar en einnig má senda okkur línu á facebooksíðu Skeggja eða instagramsíðu Skeggja.

Bleikt knús!

Magga og Stína

Morgunverðarþeytingur

Þessi drykkur er eins og sumar í glasi og er stúttfullur af hollustu.

Uppskrift:

2 dl. möndlumjólk

1 dl. frosið mango

1 lúka frosin eða fersk bláber

1 væn lúka ferskt eða frosið spínat

1 msk hampfræ

1 msk möndlur

1/4 tsk kanil

1/4 tsk túrmerik

1/4 tsk engifer

1 tsk. feel iceland collagen

Stundum set ég eina mæliskeið af próteini ef ég er að koma af æfingu eða á leið á æfingu.

Þessu er öllu blandað saman í blandara og borðað með skeið, hann á að vera þykkur og góður eins og grautur. Einhverju sinni las ég þá speki frá næringafræðingi að við ættum að borða drykkinn okkar og drekka matinn okkar. En það þýðir að það er betra fyrir líkamann ef við borðum drykkina okkar með skeið og tyggjum matinn okkar svo vel að hann verður fljótandi.

Knús

Stína

Þakklæti

Það sem fyllir huga þinn stýrir huga þínum stendur einhvers staðar skrifað. Er þá ekki tilvalið að fylla hugann af þakklæti? Því þrátt fyrir allt höfum við felst svo mikið til að vera þakklát fyrir.

Að iðka þakklæti eflir okkur í að taka eftir litlu hlutunum í lífinu. Hlutum sem við erum jafnvel farin að taka sem sjálfsögðum hlutum.

Það er hægt að skrifa langan pistil um ávinningin af því að iðka þakklæti og hver veit nema við skrifum slíkan póst fljótlega 😉 En svo þarf þetta ekki alltaf að vera flókið; veittu umhverfinu þínu athygli og staldraðu við hlutina sem gleðja þig – fyrsti kaffibollinn þann daginn, lítill fugl sem skoppar um fyrir utan gluggann þinn, faðmlag frá ástvini, hvað sem er. Taktu þessa hluti inn og njóttu þeirra.

Í dag er ég þakklát fyrir…

Fjallgönguna á Úlfarsfell í gærkvöldi: að hreyfa mig af því ég get það, að láta kuldann sem ríkir núna ekki stoppa mig í því að hreyfa mig.

Hundinn minn sem fylgir mér eins og skugginn og sefur nú vært hér í vinnuherberginu.

Að hafa tækifæri og svigrúm til að vinna í mínum hugðarefnum og búa mér til skapandi framtíð.

photo credit: Estée Janssens

Fjölskylduna mína, smá og stóra. Og inn í þann hóp set ég líka vinina. Með þeim er lífið bara betra.

Farfuglana sem nú fara að láta sjá sig…og láta heyra í sér. Það gladdi mig mikið að sjá Tjald í einni af gönguferðunum um páskana. Og já, ég er óforbetranlegt fuglanörd…og er þakklát fyrir það 😉

photo credit: https://eirikurjonsson.is/tjaldur-med-merki/

Hvað fyllir þig þakklæti í dag?

forsíðumynd: Gabrielle Henderson

Hvað er gua sha?

Gua sha er lítið nuddtæki úr steini og kemur tækni þessi úr kínverskri læknisfræði. Það hefur verið notað afar lengi til að nudda með og þá sérstaklega að nudda andlitið. Hægt er að fá gua sha í hinum ýmsu orkusteinum og hægt er að lesa sér til um hvaða orku hver kristall hefur og velja sér stein eftir því. Eða bara velja þann sem þér þykir fallegastur 🙂

Gua Sha úr sodalite steini

Best er að nota gua sha á morgnana eða kvöldin og þá helst á hreint andlit sem búið er að bera á t.d. serum, olíu eða eitthvað gott krem. Ávinningurinn af því að nota gua sha er margþættur og helst ber þar að nefna aukið blóðflæði, aukið vessaflæði og virkni eitlanna. Að auki léttir þetta á stressi og stífni…andlitsvöðvarnir verða víst stífir líka þegar við erum stressuð. Þá er einnig gott að nota gua sha til að þrýsta á hina ýmsu þrýstipunkta, til dæmis til að losa sig við hvimleiðan höfuðverk.

Ég er búin að eiga mitt gua sha í þó nokkurn tíma en ekki verið nógu dugleg að nota hann fyrr en nýverið. Nú nota ég hann allavega tvisvar í viku. Húðin verður ferskari og fyrst eftir nuddið finn ég hvernig blóðið streymir um andlitið. Ég mæli með að gera hverja stroku ca. 5 sinnum og enda alltaf á að þrýsta létt (wiggle) og hreyfa steininn til við jaðar andlitsins.

Hér er slóð á góða grein um hvaða áhrif notkun gua sha hafði á andlit höfundar. Neðst í greininni er myndband þar sem sýnt er hvernig nota á steininn. Athugið að hægt er að finna alls konar fróðleik um gua sha og hvernig á að nota hann. Athugið líka að mikill munur er á að nota gua sha í andlitsnudd eða líkamsnudd og hér er eingöngu verið að tala um andlitisnuddið.

Ég mæli eindregið með að þið verðið ykkur út um gua sha og prufið. Við höfum öll gott af því að dekra aðeins við okkur á þessum skrítnu tímum sem við erum að upplifa. Finnið ykkar eigin takt í þessu og njótið þess að dekra við ykkur.

Góða helgi!

Magga

Heima-jóga

Ég hef mjög lengi haft áhuga á jóga og hugleiðslu…en ekki verið mjög virk í iðkun. Það hljómar kannski mjög vel að segjast hafa áhuga á þessum málefnum…verra að gera ekkert í því 😉

Þó svo að tíðafarið síðastliðið ár hafi kannski ekki boðið upp á að henda sér á jóganámskeið má finna fullt af flottu efni á netinu….og setja bara upp sitt eigið jóga/hugleiðslu stúdíó. Eins og mín er von og vísa þarf ég alltaf að taka langa atrennu á því að byrja á einhverju en loks hafðist það. Við systur ákváðum að hittast hér heima og taka einn jógatíma saman. Við fundum efni á youtube og notuðumst svo við jógaflæði sem við kunnum síðan “wayback” (þegar ég í raun og veru fór á námskeið). Að lokum tókum við leidda hugleiðslu sem við sömuleiðis fundum á netinu.

Eins og alltaf þegar ég geri eitthvað svona finn ég ávinninginn strax. Bara við það að setja slakandi tónlist á, kveikja á reykelsi og kerti, deyfa ljósin og setja sig í þennan gír, róast hugurinn og leitar inn á við. Jógað sjálft er svo auðvitað bara dásamlegt fyrirbæri og reynir vel á, þrátt fyrir rólegt flæðið. Það er líka bara eitthvað við það að hreyfa sig með meðvitund, finna fyrir líkamnum og anda inn í krankleikana…mæli með því 🙂

Ég get ekki mælt nógu mikið með hugleiðslunni sem við fórum í en hún er á vegum hjóna sem kalla sig Boho Beautiful. Þau eru með rás á youtube og bjóða upp á bæði hugleiðslur og jóga. Þessi tiltekna hugleiðsla heitir “15 Minute Guided Meditation To Find Peace In Uncertain Times”. Og hverjum vantar ekki að finna frið á þessum óvissutímum?

Það var svo extra bónus og kannski viðskiptahugmynd fyrir einhvern að hafa hundana með í jóganu….en kannski ekki í hugleiðslunni 😉

Magga

Hollustuhornið : Basilíka

Vissir þú að áður fyrr var basilíka merki ástarinnar á Ítalíu? Og að ef pottur með basilíku var settur út í glugga var það merki um að eigandi plöntunnar væri til í ástarfund. Einnig hefur því verið fleygt að basilíkan sé kynörvandi og nafnið yfir plöntunar í Tuscany er einmitt Amorino….eða ástin litla. Ég sel þetta með kynörvandi áhrifin dýrara en ég keypti það en kannski gæti basilíka í innkaupakerru komið í stað ananasins á Seltjarnarnesi?

Photo by freestocks on Unsplash

Lækningamáttur basilíkunnar þykir augljós og hún notuð til þess að hreinsa hugann. Hún er rík af andoxunarefnum sem og k vítamíni og kalsíumi. Basilíkan styrkir lifrina og getur haft fyrirbyggjandi áhrif á krabbamein. Þá hefur hún jákvæð áhrif á öldrun húðarinnar og getur minnkað blóðsykur.

Það er því ekki spurning að basilíkan er nauðsynleg í mataræðið okkar. Að ekki sé minnst á hversu dásamlega og sem betur fer passar hún vel í flesta rétti; frábær í pastaréttina, fiskrétti, út á sallatið, pestóið…og svo er bara gott að stinga einu og einu blaði upp í sig.

Drífið ykkur út í búð og kaupið basilikíu, stingið nefinu ofan í og andið ilminum að ykkur og þið eruð komin til Ítalíu.

Ég minni svo á að Valentínusardagur nálgast, spurning um að úða í sig basilíku 😉

Magga

Mánudagsmetnaður

Mánudagar eru í huga margra leiðinlegir dagar. Þetta er dagurinn sem við þurfum að rífa okkur í gang og framundan er heil vinnu- eða skólavika. Mánudagar í janúar geta verið sérstaklega erfiðir hér á Íslandi, það er bara ekkert sérstaklega spennandi að rífa sig upp í myrkri og kulda.

Svo má alveg leiða að því líkum að mánudagar séu ekkert leiðinlegri en aðrir dagar og það sé kannski bara hugarfarið okkar sem er leiðinlegt.

Rannsóknir sýna að við séum líklegri til að fylgja eftir og ná þeim markmiðum sem eru sett á mánudegi (eða í byrjun einhvers tímabil) heldur en á öðrum tíma. Einnig hafa aðrar rannsóknir sýnt fram á að við erum líklegri til að velja hollari kosti í matarmáli á mánudögum en aðra daga vikunnar (kannski bara vegna þess að við sukkuðum svo mikið um helgina).

Við getum ekki breytt þeirri staðreynd að á eftir sunnudegi kemur mánudagur…út allt árið… en við getum breytt hugarfari okkar 🙂

Gleðilegan mánudag!

Magga

*forsíðumynd: Photo by Miguel Luis on Unsplash

Bústnar vegan pönnsur

Vegna ýmiskonar ofnæmis í fjölskyldunni er ég er búin að vera að prófa mig áfram með uppskriftir. Um er að ræða eggja- og mjólkurofnæmi og svo eru sumir farnir að sneyða hjá dýraafurðum. Sjálf þarf ég að minnka sykur af heilsufarsástæðum. Í stórum fjölskylum er fjölbreytin mikill og þarfirnar ólíkar.

Ég fann þessa uppskrift hjá Lindu Ben. en þar heita þær amerískar pönnukökur. Ég breytti þeim aðeins og lagaði þær að okkar þörfum.

Mín útgáfa af uppskriftinni er þessi:

 • 3 ½ dl hveiti
 • 3 tsk lyftiduft
 • ½ tsk salt
 • 1 dl kókospálmasykkur
 • 2 msk matarolía hræð saman við 1 msk. af Oatly jógúrt
 • 3 ½ dl möndlumjólk
 • 3 msk brætt smjörlíki

Þessu er öllu blandað saman og bakað upp úr matarolíu eða smjörlíki.

Verði ykkur að góðu

Stína